UFC 217 verður næsta risastóra bardagakvöld UFC ef marka má þá bardaga sem eru þegar staðfestir. Samkvæmt heimildum MMA Fighting mun Stephen Thompson mæta Jorge Masvidal í Madison Square Garden þann 4. nóvember.
Bardaginn hefur verið lengi í smíðum en Stephen ‘Wonderboy’ Thompson hefur verið að jafna sig á hnémeiðslum. Thompson þurfti að gangast undir aðgerð eftir tapið gegn Tyron Woodley en hefur nú fengið grænt ljós frá læknum til að fara aftur á fullt.
Jorge Masvidal hefur verið duglegur að óska eftir bardaga gegn Thompson og sakað Thompson um að forðast sig. Masvidal setti þessa færslu á Twitter í gær og virðist allt því vera klappað og klárt.
The violence you all have asked for is finally going down nov 4th …. #wonderbread #hoslapseason #makenycgreatagain
— Jorge Masvidal UFC (@GamebredFighter) August 17, 2017
Masvidal tapaði síðast fyrir Demian Maia á UFC 211 en fram að því hafði hann unnið þrjá bardaga í röð. Þetta er spennandi toppslagur í veltivigtinni enda eru þeir báðir á topp fimm á styrkleikalistanum.
UFC 217 hefur verið að taka á sig mynd að undanförnu. Að öllum líkindum verða þeir Michael Bisping og Georges St. Pierre í aðalbardaga kvöldsins og þá verða þeir Cody Garbrandt og T.J. Dillashaw í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Fleiri bardagar verða eflaust staðfestir fljótlega en talið er að þær Joanna Jedrzejczyk og Rose Namajunas mætist um strávigtartitil kvenna sama kvöld.