Friday, April 26, 2024
HomeErlentAuglýsingaskrum Floyd Mayweather

Auglýsingaskrum Floyd Mayweather

Rúm vika er nú í boxbardaga Floyd Mayweather og Conor McGregor. Ýmislegt hefur gengið á á undanförnum vikum sem gæti þótt hentugt fyrir Conor McGregor. Má þar nefna þá ákvörðun að notast við minni hanska og ýmis ummæli Floyd Mayweather.

Floyd ‘Money’ Mayweather er ein stærsta Pay Per View stjarna allra tíma og kann svo sannarlega að selja bardaga. Fólk elskar að hata hann og horfa margir á bardaga hans í þeirri von um að sjá hann tapa.

Vonin er veik fyrir bardagann gegn Conor McGregor enda er Floyd einn besti boxari allra tíma og erfitt að sjá hvað Conor ætlar að gera sem bestu boxarar samtímans gátu ekki gert. Margir boxsérfræðingar hafa ítrekað sagt að Conor eigi ekki séns og sumir gengið svo langt að segja að Conor eigi ekki eftir að lenda einu einasta höggi.

Floyd Mayweather vill auðvitað að fólk kaupi bardagann enda fær hann prósentu af Pay Per View sölunni. Ef líkurnar á tapi Floyd eru sáralitlar í augum aðdáenda verður salan eflaust minni. Harðkjarna bardagaaðdáendur hafa litla trú á Conor en þeir sem fylgjast ekki eins mikið með hafa trú á Conor. Á undanförnum vikum hefur Floyd verið að gera í því að láta Conor líta vel út til að telja fólki trú um að Conor eigi góðan séns.

Floyd er snillingur í að kynna bardaga sína en nýjasta útspilið var umtöluð stærð hanskana sem nota á í bardaganum. Upphaflega var samið um að nota tíu únsu hanska en skyndilega tilkynnti Floyd að hann vildi notast við átta únsu hanska.

Samkvæmt reglunum skal notast við tíu únsu hanska í boxbardögum sem háður eru í 147 pundum eða ofar. Bardagi Floyd og Conor fer fram í 154 pundum og því eðlilegt að tíu únsu hanskar skyldu vera notaðir.

Conor vildi auðvitað líka nota átta únsu hanska og var málið tekið fyrir í vikunni af íþróttsambandi Nevada fylkis (NAC). Þar sem báðir keppendur voru samþykktir minni hönskum var það samþykkt af NAC að nota átta únsu hanska. Margir fögnuðu þessum fréttum enda veita minni hanskar ekki eins mikla vörn og ættu því að auka líkur Conor á að rota Floyd Mayweather.

Floyd er hins vegar vanur að nota þessa minni átta únsu hanska enda hefur hann notast við átta únsu hanska í 46 af 49 bardögum sínum.

Floyd Mayweather er vanur að tala um hversu frábær hann er fyrir sína bardaga. Í þetta sinn hefur hann meira verið að tala um hve gamall hann er orðinn og að hann sé ekki eins góður og hann var.

„Conor er mun yngri. Conor er hærri, hann er með lengri faðm og er bara stærri maður. Hann er líka mun yngri þannig að aldurinn vinnur með honum. Svo hef ég ekkert barist í tvö ár og er á fimmtugsaldri. Samkvæmt pappírum er Conor sigurstranglegri,“ sagði Floyd við ESPN á dögunum.

Floyd segist ekki vera eins góður og hann var en hann er fertugur á meðan Conor er 29 ára gamall. „Ég er ekki að segja að ég geti ekki barist. Ég er bara að segja að ég er ekki sami Floyd Mayweather og ég var.“

Í gær setti Floyd athyglisverðu færslu á Instagram. Þar segist hann ætla að djamma alla næstu viku fram að bardaganum á nektardansstað sínum, Girl Collection.

„Það er rétt..ég ætla að djamma alla vikuna fyrir bardagann minn til næsta mánudags eftir bardagann,“ hljómar ekki eins og góður undirbúningur fyrir bardaga.

Þetta á hugsanlega að telja fólki trú um að Floyd sé ekki að taka bardagann alvarlega og ætli bara að leika sér fram að bardaganum. Það væri sannarlega vatn á myllu Conor McGregor. Floyd drekkur hins vegar lítið sem ekkert og mun eflaust ekki fá sér í tána í þessum partýum sínum.

Floyd er frábær boxari en hann er líka ansi snjall þegar kemur af því að selja bardaga. Kannski erum við að eigna honum mun meira en hann á skilið og kannski er hann bara að æfa frekar lítið og undirbúa sig kæruleysislega. Hann er þó fyrst og fremst að vekja umtal á bardaganum og það sakar aldrei þegar kemur að stórum bardögum. Það er þó deginum ljósara að auglýsingaskrum (e. hype) Floyd Mayweather á sér fáar hliðstæður.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular