spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentStórfurðulegur þjálfari Diego Sanchez heldur áfram að vekja athygli

Stórfurðulegur þjálfari Diego Sanchez heldur áfram að vekja athygli

Diego Sanchez fer oftast ótroðnar slóðir og nú hefur nýi þjálfarinn hans hlotið töluverða athygli. Bardaginn um síðustu helgi var ekki að hjálpa orðspori beggja.

Diego Sanchez hefur verið í UFC frá því hann vann 1. seríu The Ultimate Fighter árið 2005. Lengst af var hann hjá Greg Jackson og Mike Winkeljohn en fyrir bardagann gegn Michael Chiesa í fyrrasumar sagði hann skilið við Jackson-Wink.

Í þeirra stað réð hann Josh Fabia sem sinn eina þjálfara. Fabia er ekki bara þjálfari heldur einnig umboðsmaður hans, næringafræðingur og æfingafélagi. Fabia er eini þjálfari Sanchez í dag.

Fabia kallar sig græðara og hefur bakgrunn í ólympískri glímu. Fabia er stofnandi School of Self-Awareness og var eini hornamaðurinn í síðustu tveimur bardögum Sanchez. Sanchez er eini þekkti bardagamaðurinn sem Fabia hefur þjálfað.

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með Sanchez í síðustu tveimur bardögum með Fabia í horninu. Sanchez tapaði einhliða gegn Chiesa og var aldrei nálægt sigri þar. Sanchez vann síðasta bardaga eftir að andstæðingurinn, Michel Pereira, var dæmdur úr leik fyrir ólöglegt hné. Sanchez var að skíttapa þeim bardaga og í raun heppinn að Pereira skildi hafa gert þessi afdrifaríku mistök sem kostaði hann sigurinn.

Eftir þessa síðustu tvo bardaga hefur Fabia verið gagnrýndur af MMA samfélaginu og verið kallaðir snákaolíu sölumaður og svikahrappur. Fabia er ósáttur við þessa gagnrýni og segist ekki skilja hana. Fabia segist hafa mikla reynslu í bardagaíþróttum og þjálfað Ólympíufara, lögreglumenn og hersveitir án þess að nefna nein nöfn.

Fabia var í þremur viðtölum í vikunni þar sem hann reyndi að verja málstað sinn. Aðspurður um bakgrunn sinn í bardagaíþróttum var lítið um svör.

Sanchez átti ekki mikla möguleika í síðustu tveimur bardögum. Samt segir Fabia að Sanchez hafi verið að gera frábæra hluti en það sé svo flókið að fólk sjái það ekki nema að spila myndefnið hægt. Sanchez hefur tapað öllum lotunum með Fabia í horninu.

Fabia sagði einnig að Sanchez hefði haft álika góða vörn í síðasta bardaga og Floyd Mayweather en Sanchez fékk 53 högg í sig í bardaganum.

https://www.youtube.com/watch?v=v8yk3rTCfZk

Heimildir herma að Fabia hafi varað íþróttasambandið í Nevada (NAC) við að hann myndi drepa Chiesa í búrinu fyrir bardaga þeirra í sumar.

Fabia sagði starfsmönnum NAC baksviðs að þeir hefðu verið að vinna í hengingu sem væri svo hættuleg að stöðva þyrfti bardagann strax ef Sanchez myndi ná að læsa hengingunni. Hengingin átti að vera svo hættuleg að Chiesa gæti lamast eða hreinlega dáið.

Fabia sýndi henginguna baksviðs sem líktist taki úr fjölbragðaglímu og kallast „Stone Cold Stunner“ en Fabia sagðist hafa lært þetta í Suður-Ameríku.

Fabia hefur verið gagnrýndur fyrir ráðleggingar sínar í horninu af Pat Miletich, Trevor Wittman og Daniel Cormier. Fabia segir að Wittman og Cormier hafi vísvitandi verið að gera lítið úr hans þjálfun og að Miletich (fyrrum veltivigtarmeistari UFC og þjálfaði nokkra UFC meistara) sé blindur ef hann sér ekki það sem hann er að gera með Sanchez. Allir hafa áratuga reynslu af bardagaíþróttum og annað hvort verið meistarar í UFC eða þjálfað meistara.

Í viðtölunum segist Fabia eiga stóran þátt í frábærri frammistöðu Sanchez í sigrinum á Mickey Gall fyrir ári síðan. Þar var samt Greg Jackson og félagar hjá Jackson-Wink í horninu. Sanchez var þá bæði að vinna með sínum venjulegu þjálfurum og Fabia sem var þó ekki í horninu í sigrinum.

Norðmaðurinn Emil Weber Meek æfði með Diego Sanchez í æfingaaðstöðu UFC í Las Vegas. Meek var með opinn huga fyrir æfingarnar en sagði þetta vera það klikkaðasta sem hann hefur séð.

„Á einum tímapunkti var Joshua að hlaupa á eftir okkur í búrinu með hníf til að láta okkur hreyfa okkur. Ég ætla ekki að gagnrýna þá of mikið en ég held að þeir séu að missa takið. Ég hafði samband við Sanchez eftir bardagann [gegn Pereira] og sagði honum að hann gæti gert betur. Hann hefur alltaf verið að gera öðruvísi hluti meðfram MMA æfingunum. Núna er eins og hann sé bara að gera skrítnu hlutina. Ég held að þetta muni ekki virka vel fyrir hann í UFC,“ sagði Meek við South China Morning Post.

Fabia er ósáttur við þá gagnrýni sem hann hefur fengið og telur hana vera ósanngjarna. Fabia segist vita mun meira en fólk telur. „Af hverju látið þið eins og þið vitið eitthvað sem ég veit ekki? Það er ekki þannig og það er sannleikurinn. Ég veit mun meira en þið og þið sjáið það ekki einu sinni,“ sagði Fabia við The Athletic. Fabia hefur þó sennilega gert meiri skaða fyrir sína ímynd eftir þessi viðtöl og kemur alls ekki vel út.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular