Sunna Rannveig Davíðdsóttir er um þessar mundir stödd í Tælandi. Þar nýtir Sunna tímann vel og æfir í Tiger Muay Thai en nú segist hún vera tilbúin í næsta bardaga.
Sunna Rannveig Davíðsdóttir (3-0) barðist ekkert á árinu 2018 vegna meiðsla. Til stóð að Sunna myndi berjast í desember en áður en það var gert opinbert þurfti hún að draga sig úr bardaganum vegna meiðsla.
Nú er hún komin aftur á fullt og er þessa dagana í Tælandi ásamt dóttur sinni. Þar eru þær meðal annars að æfa í Tiger Muay Thai en í nýlegri færslu á Instagram segist Sunna vera tilbúin fyrir bardaga hjá Invicta.
Sunna hefur unnið alla þrjá bardaga sína í Invicta en síðast sigraði hún Kelly D’Angelo í júlí 2017. „Invicta, ég er tilbúin! Ég get ekki beðið eftir að koma og berjast fyrir ykkur og alla aðdáendurna með sterkara hjarta en nokkru sinni fyrr,“ segir Sunna meðal annars á Instagram.
Vonandi getur Sunna barist sem fyrst á nýju ári en Invicta hefur ekki greint frá áætluðum bardagakvöldum á næsta ári.
Sunna hefur verið að æfa með Loma Lookboonmee en hún berst í atómvigt (flokkurinn fyrir neðan flokk Sunnu) í Invicta.