0

Jon Jones neitaði að svara spurningum um lyfjaprófið

UFC hélt blaðamannafund í Los Angeles í dag fyrir UFC 232. Blaðamannafundurinn var óvenjulegur og var lítið um skýringar um lyfjapróf Jon Jones.

UFC ákvað á sunnudaginn að færa UFC 232 frá Las Vegas til Los Angeles. Lyfjapróf Jon Jones frá 9. desember sýndi leifar af turinabol og gat íþróttasamband Nevada fylkis ekki rannsakað málið í tæka tíð en það gat íþróttasambandið í Kaliforníu gert. Bardagakvöldið var því fært sem hefur verulegar afleiðingar fyrir bardagamenn laugardagsins og aðdáendur. Ákvörðun UFC hefur verið harðlega gagnrýnd og ekki að ástæðulausu.

Blaðamannafundurinn í kvöld fór fram á LAX flugvellinum í Los Angeles. Bardagamenn voru ferjaðir frá Las Vegas til Los Angeles í dag og svo beint á blaðamannafund á flugvellinum.

Tekjuskattur er mun hærri í Kaliforníu heldur en í Nevada og fá bardagamenn því minna borgað fyrir að berjast í Kaliforníu heldur en í Nevada. Flutningurinn gerir þar af leiðandi að verkum að bardagamenn munu fá minna borgað en þeir áttu upphaflega að gera. Auk þess munu bardagamenn sjálfir þurfa að standa að kostnaði á bakvið nýja læknisskoðun fyrir bardagann.

Dana White, forseti UFC, sagði að „svona væri þetta bara“ og mun UFC ekki koma til móts við bardagamennina með þessum auka útgjöldum bardagamanna í skatta og annan kostnað sem tengist ákvörðun UFC við að flytja bardagakvöldið. „Það verður annað hvort svona eða þeir geta sleppt því að berjast. Við erum öll að tapa á þessu,“ sagði Dana White.

Eðlilega hefur mikill fókus verið á lyfjaprófi Jon Jones en 60 píkógrömm af turinabol fundust í lyfjaprófinu hans frá því í desember og hefur UFC sagt að einungis sé um að ræða gamlar leyfar en ekki nýja inntöku á ólöglegu efni. Þannig hafi ólöglega efnið haldist frá því í júlí 2017 og var þegar búið að refsa Jon Jones fyrir það. Sú útskýring hefur verið dregin í efa og sagði Gustafsson að hann telji að Jon Jones sé klárlega að svindla.

Jon Jones gat lítið útskýrt þetta lyfjapróf og sagðist aldrei hafa verið einhver snillingur í skóla. Dana White, forseti UFC, beindi öllum spurningum um lyfjamálin til Jeff Novitzky (yfirmaður heilsu- og lyfjamála UFC) en Novitzky var auðvitað ekki á staðnum. Hann var í hlaðvarpi Joe Rogan fyrr í kvöld og fengu blaðamenn því fá svör á blaðamannafundinum.

Þegar Jones var svo spurður hvers vegna þetta væri í þriðja sinn sem verið er að tala um lyfjapróf hans neitaði hann einfaldlega að svara.

Jones sagði að taka ætti hljóðnemann frá blaðamanninum og að hún væri ömurleg.

Á heildina litið var þetta furðulegur blaðamannafundur þar sem var fátt um góð svör.

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.