Sunna Rannveig Davíðsdóttir var fyrr í dag kjörin bardagakona ársins 2016 á Norðurlöndunum af vefmiðlinum MMA Viking.
Sunna Rannveig barðist sinn fyrsta atvinnubardaga í Invicta í september á síðasta ári. Þar sigraði hún Ashley Greenway eftir þrjár lotur og var sigurinn aldrei í hættu.
Sunna var sú eina frá Norðurlöndunum sem vann bardaga í Invicta eða UFC og var þetta því besti árangur ársins hjá bardagakonum Norðurlandanna að mati MMA Viking.
Þetta er enn ein rósin í hnappagatið hjá Sunnu en á dögunum var hún kjörin nýliði ársins í netkosningu Invicta bardagasamtakanna. Sunna er ólm í að berjast aftur sem fyrst og mun vonandi fá annan bardaga fljótlega.