Tuesday, May 21, 2024
HomeForsíðaHvað hafa andstæðingar Gunnars Nelson í UFC verið að gera?

Hvað hafa andstæðingar Gunnars Nelson í UFC verið að gera?

Gunnar Nelson UFC RotterdamGunnar Nelson hefur barist átta sinnum í átthyrningi UFC og hefur árangurinn ekki látið á sér standa. Gunnar hefur verið í UFC í rúm fjögur ár en hvað hafa fyrrum andstæðingar hans gert síðan þeir mættu Gunnari?

Gunnar er með sex sigra og tvö töp í UFC en af þessum sex sigrum hafa fimm komið með uppgjafartaki. Gunnar mun berjast sinn níunda bardaga í UFC á þessu ári en kíkjum aðeins á hvað andstæðingarnir átta hafa verið að gera síðan þeir börðust við Gunnar.

DaMarques Johnson – UFC on Fuel TV: Struve vs. Miocic

Gunnar átti að keppa fyrst við Pascal Krauss en eins og oft áður þá þurfti Þjóðverjinn að hætta við vegna meiðsla. DaMarques Johnson kom inn með um það bil tveggja vikna fyrirvara og var ljóst að Johnson myndi ekki ná 170 pundunum. Því var samþykkt að bardaginn skyldi fara fram í 175 punda hentivigt en Johnson náði því ekki heldur og reyndist vera 183 pund á vigtinni. Þrátt fyrir það sigraði Gunnar bardagann með uppgjafartaki í fyrstu lotu.

Ferill Johnson hefur síðan þá farið beina leið í ruslið en hann var ekki á góðri leið fyrir bardagann við Gunnar. Johnson var rekinn úr UFC eftir tapið gegn Gunnari og hefur tapað þremur í röð síðan þá í minni bardagasamtökum. Johnson var aldrei líklegur til að ná langt í UFC og er sennilega á síðustu metrunum núna ef hann er ekki nú þegar hættur.

Jorge Santiago – UFC on Fuel TV: Barao vs. Maconald

Gunnar átti að keppa gegn Justin Edwards í febrúar 2013 í öðrum bardaga sínum í UFC. Líkt og í tilfelli Pascal Krauss þurfti Edwards að hætta við vegna meiðsla. Jorge Santiago kom því inn með ágætis fyrirvara en Santiago hafði tvívegis áður verið látinn fara úr UFC. Hann hafði alltaf staðið sig vel utan UFC og unnið titla í Asíu en eftir að hafa tapað gegn Gunnari eftir dómaraákvörðun var samningi hans við UFC rift í þriðja sinn á ferlinum. Sama ár tók hann bardaga í WSOF þar sem hann tapaði gegn Gerald Harris og hætti síðan í MMA. Hann er í dag gólfglímuþjálfari Blackzilians í Flórída og sést reglulega í horninu hjá bardagamönnum sínum í UFC. Santiago átti góðan feril í MMA en af einhverjum ástæðum náði hann aldrei sömu hæðum í UFC.

Omari Akhmedov – UFC Fight Night: Gustafsson vs. Manuwa

Rússinn Omari Akhmedov átti að vera sá fyrsti sem myndi standa í Gunnari en það varð ekki raunin. Gunnar sigraði Akhmedov í fyrstu lotu með uppgjafartaki en þetta var annar bardagi Akhmedov í UFC. Akhmedov hefur síðan þá sigrað þrjá bardaga og tapað tveimur í UFC. Nú síðast sigraði hann Kyle Noke og hefur hann verið upp og niður í síðustu bardögum. Akhmedov er harður í horn að taka en það er kannski ólíklegt að hann verði meðal 10 bestu í veltivigtinni í framtíðinni.

Gunnar Nelson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Zak Cummings – UFC Fight Night: McGregor vs. Brandao

Gunnar átti upphaflega að keppa gegn Ryan LaFlare sem margir spekingar voru mjög spenntir fyrir. Gunnar og LaFlare voru báðir efnilegir í veltivigtinni en LaFlare meiddist og Zak Cummings kom inn í staðinn. Gunnar sigraði með uppgjafartaki í annarri lotu á mögnuðu bardagakvöldi í Dublin. Cummings hefur staðið sig vel síðan þá og sigrað þrjá bardaga og tapað einum í UFC. Cummings er hálfgerður hliðvörður (e. gatekeeper) í veltivigtinni, ef þú vinnur hann ertu tilbúinn í stóru strákana.

Gunnar Nelson

Rick Story – UFC Fight Night: Nelson vs. Story

Fyrsti aðalbardagi Gunnars í UFC var gegn Rick Story þann 4. október 2014. Þar varð fyrsta tap Gunnars að veruleika en eftir sigurinn á Gunnari sat Story á hliðarlínunni í 18 mánuði vegna meiðsla. Story fylgdi sigrinum eftir með sigri á Tarec Saffadine í maí 2016 og leit vel út. Hann kleif lengra upp stigann í veltivigtinni og hitti þar kúrekann Donald Cerrone í ágúst í fyrra. Story mátti sætta sig við tap gegn Cerrone eftir rothögg í 2. lotu en fáir virðast standa í kúrekanum þessa dagana. Story er hörku bardagamaður þó hann hafi átt misjafnar frammistöður í búrinu. Gríðarlega erfitt er að sigra hann en Story hefur kannski ekki það sem til þarf til að komast alla leið.

Gunnar Nelson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Brandon Thatch – UFC 189

Upphaflega átti Gunnar að mæta Bretanum John Hathaway en líkt og svo oft áður meiddist hann. Í hans stað kom Bandaríkjamaðurinn Brandon Thatch. Hann hafði þá nýlega tapað gegn Benson Henderson en var talinn einn sá efnilegasti í veltivigtinni á þeim tíma. Þar áður hafði hann sigrað tvo í röð og leit virkilega vel út. Thatch stóð sig vel gegn Henderson en Gunnar fór auðveldlega með hann og sigraði hann í fyrstu lotu eftir að hafa kýlt hann niður og klárað síðan með uppgjafartaki. Síðan þá hefur Thatch tapað tveimur í röð og samtals fjórum í röð í UFC og nú seinast á UFC 207. Fjögur töp í röð þýða í næstum öllum tilvikum að þú sért ekki lengur í UFC og þurfir að leita annað. Það er líklegast framtíðin fyrir Thatch sem hefur valdið miklum vonbrigðum eftir góða byrjun.

Gunnar Nelson Demian Maia
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Damian Maia – UFC 194

Brasilíski jiu-jitsu snillingurinn Damian Maia hefur verið á ansi góðu róli í UFC. Fyrir bardagann við Gunnar hafði hann unnið þrjá í röð og eftir sigur hans á Gunnari hefur hann sigrað þá Matt Brown og Carlos Condit. Hann leit hrikalega vel út í þessum bardögum og er orðinn ansi líklegur til að fá titilbardaga í veltivigtinni. Maia sker sig úr meðal andstæðinga Gunnars en hér erum við að tala um mann sem er það ótrúlegur í gólfinu að hann gæti orðið meistari í UFC. Hann gæti jafnvel orðið meistari í náinni framtíð fái hann einhvern tímann titilbardagann.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Albert Tumenov – UFC Fight Night: Overeem vs. Arlovski

Rússinn hafði litið gríðarlega vel út áður en hann hitti Gunnar Nelson í búrinu í maí 2016. Hann hafði sigrað fimm í röð og þar á meðal þrjá með rothöggi. Seinasti bardaginn hans fyrir bardagann gegn Gunnari var gegn hinum öfluga Lorenz Larkin sem Tumenov sigraði eftir klofinn dómaraúrskurð. Gunnar sigraði Tumenov með uppgjafartaki í 2. lotu sem var hans sjötti sigur í UFC. Tumenov náði ekki að koma sér aftur á sigurbraut og tapaði gegn Leon Edwards í október síðastliðinn eftir uppgjafartak í 3. lotu. Tumenov þarf að laga ýmislegt hjá sér í gólfinu en gæti enn átt bjarta framtíð.

Samantekt

Þetta eru misjafnir bardagamenn eins og eðlilegt þykir eftir nokkurra ára veru í UFC. Allt eru þetta góðir bardagamenn en það má ekki gleyma því að allir í UFC eru þrælgóðir. Meiðsli andstæðinga á borð við Ryan LaFlare, John Hathaway og Pascal Krauss hafa sett svip sinn á andstæðinga Gunnars en okkar maður hefur þó gert það sem var á hans valdi og það er að vinna bardagana.

Brynjar Hafsteinsson
Brynjar Hafsteinsson
-Greinarhöfundur -Félagsfræðinemi HÍ -MMA-spekingur frá 1999 -Sparkboxari
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular