spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentT.J. Dillashaw: Þessu var stolið frá mér

T.J. Dillashaw: Þessu var stolið frá mér

T.J. Dillashaw var gríðarlega svekktur eftir tapið sitt gegn Henry Cejudo á laugardaginn. Dillashaw vill fá annað tækifæri gegn Cejudo og þá aftur í fluguvigt.

Dillashaw hafði tækifæri á að verða tvöfaldur meistari en þess í stað tókst Cejudo að verja titilinn sinn í fyrsta sinn. Cejudo kláraði Dillashaw með tæknilegu rothöggi eftir 32 sekúndur í 1. lotu. Að margra mati stöðvaði dómarinn bardagann of snemma og var enginn ósáttari með það en Dillashaw.

„Ömurlegt að þessu hafi verið stolið frá mér. Ég lagði gríðarlega hart að mér og er miklu betri en þetta. Það hefði verið fínt ef ég hefði fengið að sýna það. Þetta er titilbardagi, meistari gegn meistara og þú ætlar að stoppa þetta svona? Ég var með single leg fellu. Dómarinn sagði mér að sýna sér eitthvað og ég var með single leg í skrambli, hann hættir að kýla, er að verjast og þú stoppar bardagann? Það er fáránlegt. Það er frekar ömurlegt að ég viti betur en dómarinn,“ sagði Dillashaw mjög svekktur á blaðamannafundinum.

Dillashaw var augljóslega vankaður í bardaganum og man sennilega ekki alveg hvernig þetta þróaðist. Dillashaw var ekki með með tak á fæti Cejudo á leið í „single leg“ þegar dómarinn stöðvaði bardagann eins og hann taldi. Hann var þó að reyna að hreyfa sig og koma sér í betri stöðu en var á sama tíma að fá högg í sig.

Dillashaw vill ekkert heitar en að fá annað tækifæri gegn Cejudo og þá aftur í fluguvigt. Dillashaw er ennþá ríkjandi bantamvigtarmeistari en vill frekar fara aftur í fluguvigt til að mæta Cejudo í annað sinn. „Eins og þið sjáið er ég smá pirraður. Þetta þarf að gerast aftur, og þá aftur í fluguvigt. Þetta er bull. Ég lagði hart að mér í 12 vikur og svo var þessu stolið frá mér á 30 sekúndum.“

Dillashaw lagði mikið á sig til að komast niður í fluguvigt í fyrsta sinn fyrir bardagann. Ferlið var langt og strangt en var afar vel undirbúið. Dillashaw vill verða tvöfaldur meistari og segir að sér hafi liðið mjög vel í bardaganum.

„Mér leið í rauninni betur núna [heldur en í bantamvigt]. Það eru engar afsakanir. Mér leið mjög vel og hafði góða orku. Ég hélt að ég yrði með flugeldasýningu í kvöld, ég hafði það á tilfinningunni.“

Dillashaw óskaði Cejudo til hamingju með sigurinn en velti því fyrir sér hvernig hann gæti fagnað eftir svona sigur. Cejudo taldi dómarann hafa gert rétt með því að stöðva bardagann en Dana White, forseti UFC, sagði að þetta hefði verið hræðileg ákvörðun hjá dómaranum.

„Hvernig er hægt að vera svona ánægður með svona sigur? Hann tapaði auðvitað ekki beltinu sínu, getur fætt fjölskylduna og borgað reikninga. Gott hjá honum, vertu ánægður. En ég væri ekki ánægður með að vinna svona, það er á hreinu. Ég myndi ekki kalla mig tvöfaldan meistara með því að vinna svona,“ sagði Dillashaw.

Dillashaw var augljóslega í uppnámi á blaðamannafundinum og var gráti næst. „Ég er mjög bitur núna. Ég er mjög pirraður. Ég er við það að fara að gráta núna, ég lagði svo hart að mér. Þetta er erfitt.“

Cejudo vill núna fara upp í 135 punda bantamvigtina og mæta Dillashaw aftur þar. Dana White var ekki viss hver næstu skref beggja verða enda er framtíð fluguvigtarinnar enn í óvissu.

„Ég er miklu betri en Henry Cejudo. Ég trúi því innilega. En því miður fékk ég ekki tækifæri til að sýna það.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular