Yfirþjálfari Jose Aldo, Andre Pederneiras, segir að höggið sem rotaði Aldo hafi verið heppni í bardaganum gegn Conor McGregor. Þá segir hann einnig að Aldo eigi skilið að fá annan bardaga gegn nýja fjaðurvigtarmeistaranum.
Þetta sagði hann í viðtali við brasilísku vefsíðuna Combate. Í viðtalinu hélt hann því einnig fram að Aldo hafi verið of sigurviss fyrir bardagann. „Ég myndi ekki segja að hann hafi verið kvíðinn fyrir bardagann. Kannski of sigurviss því honum leið mjög vel. Hann var mjög öruggur um sigur. Hann hugsaði ‘ef ég kýli mun höggið lenda’. Þetta er ákvörðun sem var tekin á brotabroti úr sekúndu. Hann ákvað að sækja og Conor svaraði með gagnhöggi til að verjast,“ sagði Pederneiras um bardagann en McGregor rotaði Aldo eftir aðeins 13 sekúndur.
„Hvernig getiði sagt að ofurmeistari eins og Aldo hafi tekið ranga ákvörðun? Ef þið horfið á bardagann sjáiði Aldo hreyfa hausinn sinn til lofts er hann sótti með þessa beinu hægri og höggið frá Conor lendir á hökunni. McGregor ætlaði að hitta ofarlega á hausinn en Aldo hreyfði hausinn sinn upp. McGregor getur ekki sagt að þetta hafi verið útreiknað högg eins og hann heldur fram. Ég tel að þetta hafa verið heppni miðað við hvernig höggið lenti á hökunni þegar Aldo sótti fram.“
Pederneiras vill að Jose Aldo fái annað tækifæri gegn Conor McGregor enda fá meistarar oft tækifæri til að ná titlinum aftur í næsta bardaga tapi þeir beltinu. „Það væri ekki sanngjarnt ef hann fær ekki strax annað tækifæri á beltinu. Við vitum að það eru engar reglur um hvort meistari eigi að fá strax annað tækifæri á beltinu ef hann tapar því eða ekki. Nema auðvitað ef meistarinn er með sítt ljóst hár og selji vel. Á ég ekki bara að lita hárið á Aldo?“ Á hann þarna við Rondu Rousey en hún mun fá titilbardaga á næsta ári eftir að hafa tapað fyrir Holly Holm í einhliða bardaga.
„Ég sé ekki annað í stöðunni en annan bardaga gegn Conor. Þá getum við fengið alvöru bardaga. Í mínum huga var þetta ekki alvöru bardagi heldur högg sem hitti og kláraði bardagann fljótt,“ sagði Pederneiras að lokum.
Það er ólíklegt að Pederneiras verði að ósk sinni en talið er að McGregor muni næst berjast um léttvigtarbeltið gegn Rafael dos Anjos.
Svona tala menn í afneitun í boxi sem MMA er ekkert sem heitir hepni menn eru búinr að æfa og æfa og æfa sumt sem þeir gera virðist vera áreinslulaust og virka svo létt að menn trúi því ekki að það geti verið staðreind. Á bakvið eitt högg liggja ómældar klukkustundir endurtekningar aftur og aftur höggið hjá Conor var slegið til að hitta ekki bara eithvað útí loftið Aldo gerði mistök og honum var refsað fyrir svo einfalt var það
Þetta myndband er sérlega áhugavert. Þar sem Conor virðist leika bardagann nákvæmlega eins og hann fór í búningsherberginu áður.
Þetta var engin heppni, það sést greinilega þegar hreyfingar þeirra eru krufnar í hægri endursýningu.