Þorgrímur Þórarinsson tapaði fyrir Dalius Sulga eftir dómaraákvörðun Á FightStar bardagakvöldinu. Bardaginn var afar jafn en Sulga gerði aðeins meira að mati dómaranna.
Þetta var annar bardagi Þorgríms í MMA. Einhver ruglingur var greinilega á inngöngulögunum þar sem Sulga gekk inn undir laginu Ferðalok en íslensku áhorfendurnir létu það hafa lítil áhrif á sig og sungu með.
Það var mikið um „clinch“ baráttur í bardaganum og nokkuð um ólögleg hnéspörk í klofið. Þorgrímur varð fyrir barðinu á þeim þrívegis og hitti óvart í eitt skiptið sjálfur. Dómarinn þurfti nokkrum sinnum að gera hlé á bardaganum til að aðvara menn en tók engin stig þar sem um óviljaverk var að ræða.
Þorgrímur var nálægt því að klára bardagann í 2. lotu þegar hann náði bakinu á Sulga og var búinn að læsa „rear naked choke“ hengingu þegar lotan kláraðist. Nokkrar sekúndur í viðbót og Þorgrímur hefði sennilega klárað bardagann.
Í 3. lotu virtist Þorgrímur hnjáa Sulga ólöglega í andlitið en atvikið sást illa í útsendingunni. Dómarinn varaði hann við og fékk lækninn til að meta Sulga. Læknirinn gaf Sulga leyfi til að halda áfram.
Þorgrímur reyndi fellu en því miður endaði hann undir. Þorgrímur stóð upp skömmu seinna en Sulga reyndi „guillotine“ hengingu. Þorgrímur losaði sig úr hengingunni en þá var skammt eftir af lotunni. Svo fór að Sulga sigraði Þorgrím eftir einróma dómaraákvörðun. Bardaginn var afar jafn en dómararnir hafa líklegast gefið Sulga 1. og 3. lotuna. Góð reynsla fyrir Þorgrím.