spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaÞorgrímur Þórarinsson: Karókí miklu erfiðara en að stíga í búrið

Þorgrímur Þórarinsson: Karókí miklu erfiðara en að stíga í búrið

Þorgrímur Þórarinsson er einn af Íslendingunum sem berst á FightStar kvöldinu í London á laugardaginn. Þetta verður annar bardagi Þorgríms en við heyrðum í honum á dögunum.

Þorgrímur ‘Baby Jesus’ Þórarinsson (1-0) er 25 ára bardagamaður á leið í sinn annan áhugamannabardaga. Þorgrímur mætir Dalius Sulga (4-3) í veltivigt en fyrsta bardagann sigraði Þorgrímur með tæknilegu rothöggi í 2. lotu. Síðan þá hefur hann tekið miklum framförum að eigin sögn.

„Ég hef bætt mig tæknilega á öllum sviðum en hef verið að leggja mesta áherslu á hendurnar. Er með vaxtarverki í hnúunum eftir að hafa kýlt meira en ég hef gert nokkru sinni áður. Minn styrkleiki er samt áfram dirty wrestling-ið og gólfið. Nú er ég bara búinn að bæta við mig vopnum til að setja það betur upp,“ segir Þorgrímur.

„Ég finn það samt að hendurnar eru komnar á þann stað að ef þær lenda clean verður erfitt fyrir hann að éta það. Burtséð frá því hef ég auðvitað gert gríðarlegar breytingar á mínu æfingaumhverfi síðan ég barðist síðast. Ég gæti ekki verið ánægðari með þær breytingar og er feginn að við höfum látið slag standa. Er að bæta mig hraðar en nokkru sinni fyrr og vakna graður alla daga.“

Þorgrímur var einn af þeim sem sagði skilið við Mjölni á dögunum og keppir ekki lengur fyrir hönd Mjölnis. „Þegar maður er ósáttur við hlutina getur maður vælt, kvartað og farið í fýlu eða gert eitthvað í þeim. Sá sem bíður eftir að aðrir láti drauma sína rætast mun bíða alla ævi. Það ætla ég ekki að gera.“

Tobbi

Eins og áður segir hefur Þorgrímur verið að vinna í boxinu sínu og þar hefur hann notið aðstoðar Kolbeins Kristinssonar, atvinnuboxara, og Vilhjálms Hernandez, þjálfara.

„Ég er búinn að vera í einkatímum hjá bæði Kolla og Villa Hernandez. Erum rétt byrjaðir að klóra í yfirborðið og mér hefur nú þegar farið mikið fram. Verð farinn að rota menn með hægri og vinstri áður en langt um líður. Ég tengi vel við Kolla og er hrifinn af því hvernig hann þjálfar. Hann er reynslumikill og hefur gefið mér mikið af góðum ráðum. Mér líður vel uppi í Hnefaleikastöð, þar er gott að vera og Villi hefur tekið okkur opnum örmum. Ég er honum mjög þakklátur fyrir það.“

Að stíga inn í hringinn eða búrið vekur upp ótta hjá flestum eins og eðlilegt er. Þorgrímur upplifði þó talsvert meira ótta þegar hann tók hljóðnema í hönd og söng í karóki!

„Tilhugsunin um að stíga upp á svið að syngja fyrir framan fólk fær mig til að svitna. Hver einasta fruma í líkama mínum öskrar EKKI SÉNS. Þess vegna varð ég að gera þetta, sigra óttann. Ég er að æfa mig í því að láta óttann ekki stjórna mér og þetta var góð æfing í því. Fyrst tókum við Sigurður vinur minn Candy Shop með 50 Cent. Það sló heldur betur í gegn. Síðan var gullfalleg, ung dama sem dró mig með sér í dúet við lagið Don‘t go breaking my heart. Ruglað chemistry í gangi þar. Síðan hef ég því miður ekki séð hana meir. Auglýsi eftir henni hér með ef einhver veit hver þessi dularfulla stúlka er. Ef ég ber þetta saman við að stíga í búrið þá var karókíið miklu erfiðara.“

Tobbi Fightstar

Þorgrímur mætir andstæðingi sem er töluvert reyndari en hann og hefur Þorgrímur aðeins litið á hann. „Þetta er karatestrákur og vill hann halda fjarlægð og sparka mikið. Hendir mikið af háum spörkum og er með gott fjarlægðarskyn. Ágætis hné og honum líður vel í Thai-clinchinu. Það sem ég hef séð af honum í gólfinu var ekki upp á marga fiska svo ég reikna með að láta reyna á felluvörnina hjá honum. Þetta er töluvert reyndari strákur en sá sem ég mætti síðast, hefur barist sjö sinnum svo ég á von á að hann sé öflugur.“

Þorgrímur er þó ekki í nokkrum vafa um hvernig bardaginn fer. „Sé þetta ekki fara öðruvísi en mér í vil. Ríf hann með mér í gólfið og klára með playground choke eftir smá ground’n’pound,“ segir Þorgrímur að lokum.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular