Tuesday, June 18, 2024
spot_img
HomeForsíðaÞriðjudagshugleiðingar eftir UFC 182

Þriðjudagshugleiðingar eftir UFC 182

jones cormier

Mánudagshugleiðingarnar koma seinna en vanalega og verða því Þriðjudagshugleiðingar þessa vikuna.  UFC 182 var risa bardagakvöld en stóð kannski ekki alveg undir væntingum.

Við þurftum auka dag fyrir hugleiðingar þessa vikuna. Það eru blendnar tilfinningar eftir bardaga Jon Jones og Daniel Cormier sem tók smá tíma að melta. Það var átakanlegt að horfa á Cormier tapa og brotna niður á blaðamannafundinum, þurrkandi tárin af kinnunum. Stutt fimm sekúnda myndband af Cain Velasquez að hugga hann baksviðs sveið líka sálina. Þetta er hins vegar stór hluti af því sem gerir íþróttina spennandi, þ.e. þetta mannlega drama.

Bardaginn var kallaður „Bad blood“ út af raunverulegum óvinskap á milli þessara manna sem kristallaðist í slagsmálum á blaðamannafundi sem minnti á tíma Mike Tyson. Jones var málaður sem vondi kallinn og Cormier var Davíð með steinsleggjuna sem átti að jarða Golíat. En svo gerðist svolítið óvænt, sleggjan beit ekki. Cormier náði ekki að nota sitt aðalvopn, glímuna, gegn Jones. Þvert á móti var það Jones sem náði nokkrum fellum og virtist hafa yfirhöndina í návígi, sérstaklega í síðari lotunum þar sem hann stjórnaði Cormier upp við búrið eins og Randy Couture forðum daga.

Á heildina litið stóðu báðir menn sig mjög vel. Þetta var slítandi bardagi sem þreytti þá báða. Þung skrokkhögg frá Jones gerðu Cormier lífið leitt og virtust soga úr honum kraftinn. Þetta er bardagi sem opnuðu augu margra um hæfileika og getu Jon Jones en hann verður nú að teljast einn besti MMA bardagamaður allra tíma.

Jones er óvenjulegur fýr með skrítna köttinn sinn og Instagram skilaboð sem virðast oft á tíðum glórulaus. Hvort sem fólk elskar hann eða hatar þá er hann nú orðin skærasta stjarna UFC og skylduáhorf hvenær sem hann berst. Samkvæmt Dana White fóru Pay Per View tölurnar yfir 750.000 en slíkt hefur ekki gerst síðan UFC 168 þegar Anderson Silva barðist síðar.

Næsti andstæðingur Jones ætti að verða sigurvegarinn af Alexander Gustafsson og Anthony Johnson bardaganum en sigri Jones verður kannski hægt að tala um súper bardaga á móti Cain Velasquez. Það má alltaf vona.

Restin af kvöldinu var í raun ekki mjög spennandi. Flestir bardagarnir fóru allar þrjár loturnar og það eru fáir sem standa upp úr fyrir utan kannski Paul Felder sem var hrikalega flottur og steinrotaði Danny Castillo með „spinning back fist“. Aðrir nýliðar eins og Kyoji Horiguchi og Cody Garbrandt lofuðu líka góðu en sýndu á sama tíma að þeir eiga langt í land ætli þeir að ná á toppinn.

paul-felder-knocked-out-danny-castillo

Hector Lombard minnti líka á sig þó svo að hann hafi ekki náð að klára hinn seiga Josh Burkman. Lombard vill berjast við Rory MacDonald næst en gæti þó fengið Matt Brown. Í næstsíðasta bardaga kvöldins sigraði svo Donald „Cowboy“ Cerrrone hinn unga og efnilega Myles Jury. Cerrone sýndi frábæra takta í gólfinu, stjórnaði bardaganum standandi og sparkaði svo í Jury í lokin eins og hann væri að skamma hann. Eins og sönn hetja mun Cerrone berjast aftur í janúar þótt ótrúlegt sé og það á móti manni sem hefur sigrað hann tvisvar, Ben Henderson. Takist honum að sigra hann verður varla hægt að neita honum um titilbardaga á móti Anthony Pettis.

cerrone

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular