Monday, May 20, 2024
HomeForsíðaTJ Dillashaw og bantamvigtin í UFC

TJ Dillashaw og bantamvigtin í UFC

dillashaw baraoTJ Dillashaw er ríkjandi meistari í bantamvigt UFC. Ekki er ljóst hver næsti andstæðingur meistarans verður en ljóst er að áskorendurnir eru af skornum skammti í dag.

Allt benti til þess að næsta titilvörn Dillashaw yrði gegn fyrrum bantamvigtarmeistaranum Dominick Cruz. Cruz var bantamvigtarmeistari WEC og síðar UFC áður en hann þurfti að láta beltið af hendi vegna meiðsla. Eftir þrjú ár frá búrinu snéri hann aftur í september 2014 og valtaði yfir Takeya Mizugaki. Bardagaaðdáendur slefuðu yfir tilhugsuninni um bardaga meistaranna – Cruz gegn Dillashaw.

Því miður verður ekkert af þeim bardaga í bráð. Dominick Cruz sleit aftur krossband en í þetta sinn í hægra hné. Hann hafði áður verið frá í þrjú ár eftir að hafa slitið krossband í vinstra hné og verður nú frá í u.þ.b. 12 mánuði. Þetta voru hræðilegar fréttir fyrir bardagaaðdáendur og ekki síst Cruz sjálfan.

Næstur í röðinni ætti að vera Raphael Assuncao. Brassinn hefur ekki hlotið mikla athygli þrátt fyrir að sigra sjö bardaga í röð í bantamvigt UFC. Þegar TJ Dillashaw fékk titilbardagann gegn Renan Barao á UFC 173 voru margir hissa á að UFC hefði litið framhjá Assuncao – sérstaklega í ljósi þess að Assuncao sigraði Dillashaw í október 2013. Síðar kom í ljós að Assuncao hefði verið meiddur á þeim tíma og því ekki getað barist á tilsettum tíma. Fyrst að Cruz er meiddur ætti Assuncao að vera næstur en Assuncao er einnig meiddur. Assuncao ökklabrotnaði á æfingu nýlega en tilkynningin kom sama dag og fréttir af meiðslum Cruz birtust. Ekki góður dagur fyrir bantamvigtina.

Þegar Cruz og Assuncao eru teknir úr jöfnunni er líklegasti andstæðingur Dillashaw fyrrum meistarinn Renan Barao. Dillashaw gjörsigraði Barao óvænt í maí og rotaði hann í 5. lotu. Þeir áttu svo að mætast aftur í lok ágúst en daginn fyrir bardagann þurfti Barao að draga sig úr keppni þar sem niðurskurðurinn reyndist honum um of. Barao sigraði Mitch Gagnon í desember og er eins og staðan er í dag líklegasti kosturinn fyrir Dillashaw. Meistarinn sjálfur hefur verið að jafna sig á meiðslum í olnboga síðan hann varði beltið sitt gegn Joe Soto.

tj og faberAnnar andstæðingur gæti þó verið í myndinni, Urijah Faber. Faber er í 3. sæti á styrkleikalista UFC í bantamvigtinni og hefur lengi verið meðal þeirra bestu í léttari þyngdarflokkunum. Vandamálið er að Faber er liðsfélagi og einn af þjálfurum Dillashaw og því afar ólíklegt að þeir vilji mæta hvor öðrum í búrinu. Faber er sá sem fékk Dillashaw til að koma í MMA og á mikið í árangri Dillashaw.

Það er því í rauninni bara Barao sem er líklegur kostur þessa stundina. Sá bardagi heillar ekki marga enda voru yfirburðir Dillashaw miklir í fyrri bardaga þeirra. Hver er næstur í röðinni takist Dillashaw að sigra Barao aftur?

Bantamvigtin er því fremur óspennandi á toppnum þessa stundina. Ekki er öll von úti en þyngdarflokkurinn gæti orðið mjög skemmtilegur á næstu árum. Menn eins og Aljamain Sterling, Pedro Munhoz, Joe Soto, Thomas Almeida, Chris Holdsworth og Cody Garbrandt eru allir upprennandi bardagamenn á góðum aldri og gætu hrist upp í þyngdarflokkinum á næstu árum.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular