Það var á þessum degi fyrir þremur árum síðan sem Conor McGregor háði frumraun sína í UFC. Þá mætti hann Marcus Brimage í Svíþjóð og var stjarna fædd þetta kvöld.
Það hefur ansi mikið vatn runnið til sjávar frá því við sáum Conor McGregor fyrst í UFC. Þá mætti hann Marcus Brimage á UFC on Fuel TV: Mousasi vs. Latifi þann 6. apríl 2013. Í dag er hann stærsta stjarnan í íþróttinni, umdeildur, vinsæll og talsvert ríkari.
Þegar Conor McGregor gekk leið sína að búrinu þann dag var hann ber að ofan með írska fánann á bakinu. Hann var ekki einu sinni með styrktaraðila og var aðeins annar Írinn í sögu UFC til að keppa í UFC.
McGregor hafði áður verið fjaður- og léttvigtarmeistari Cage Warriors bardagasamtakanna áður en hann keppti í UFC. Hann var kynntur sem æfingafélagi Gunnars Nelson enda var SBG í Dublin ekki með fleiri UFC bardagamenn á þeim tíma.
McGregor vakti ágætis athygli fyrir bardagann og reif kjaft í The MMA Hour, étandi bláber, nokkrum vikum fyrir bardagann. Brimage var ekki sáttur með ummæli Írans og ætlaði að loka þverrifunni á honum með góðu rothöggi.
Það tókst ekki enda fór McGregor létt með Marcus Brimage og kláraði hann á 67 sekúndum. Brimage er ekki sá eini sem hefur látið McGregor æsa sig upp enda hefur það verið eitt af hans einkennismerkjum í UFC.
Fyrir bardagann var McGregor á atvinnuleysisbótum en tilkynnti á blaðamannafundinum eftir bardagann að nú væri hann kominn með vinnu og þyrfti ekki á bótunum að halda. „60 Gs Baby“ eru ein af hans mörgu frægu ummælum enda fékk hann góðan bónus fyrir frammistöðu sína í búrinu.
Fyrir bardagann birti The Irish Mirror eina stutta grein um bardaga Conor McGregor á meðan aðrir miðlar (fyrir utan MMA vefsíður eins og SevereMMA) skrifuðu ekki orð um bardagann. Í dag má McGregor ekki birta eina mynd á Instagram án þess að það sé í öllum helstu miðlum Írlands.
Restina af sögunni þekkja allir. Það er eiginlega ótrúlegt hversu stór stjarna McGregor er í dag en það eru ekki nema þrjú ár síðan hann var óþekktur Íri á atvinnuleysisbótum.
https://www.youtube.com/watch?v=zGFcfSPek7M