Friday, April 26, 2024
HomeForsíðaTravis Fulton - Barðist yfir 360 bardaga í MMA og boxi!

Travis Fulton – Barðist yfir 360 bardaga í MMA og boxi!

travis-fultonÞegar aðdáendur fletta spjallsíðum um MMA kemur oftar en ekki upp nafnið Travis Fulton. Sá herramaður er athyglisvert eintak af manni en hann á 310 MMA bardaga að baki og 51 box bardaga! Travis Fulton er amerískur boxari og MMA bardagamaður. Hann er 36 ára þungavigtarmaður og hefur þar á meðal átt bardaga í UFC og WEC.

Þann 26. júlí árið 1996 barðist hann sinn fyrsta bardaga 19 ára gamall gegn Dave Strasser. Hann hafði glímubakgrunn og heillaðist mikið af MMA. Á næstu tveimur árum barðist hann 50 bardaga og þar á meðal 5 bardaga í einum mánuði. Á þessum tveimur árum sigraði hann 37 bardaga, tapaði 11 og gerði tvö jafntefli.

Hann barðist gegn Pete Williams á UFC 20 en tapaði. Hann fékk annað tækifæri á UFC 21 og sigraði þá David Dodd en þetta var þó í seinasta skipti sem hann steig inn í átthyrninginn. Á einum tímapunkti reyndi hann að komast í TUF raunveruleikaseríuna, þá sem keppandi í 205 punda flokknum, en komst ekki inn. Fulton er sagður vera rasisti og því óttaðist UFC sennilega að gefa honum fleiri tækifæri. 

Fulton æfði lítið sem ekkert en vildi þess í stað berjast eins oft og hann gæti. Fulton er með 310 MMA bardaga að baki en þar af eru 250 sigrar. Af þessum 250 sigrum hafa aðeins sjö komið eftir dómaraákvörðun. Á einum tímapunkti á ferli hans sigraði hann 40 bardaga í röð! Það eru fleiri bardagar en flestir bardagamenn ná að taka þátt í á öllum sínum ferli! Hann hefur barist við mörg þekkt nöfn en yfirleitt tapað fyrir þeim. Þetta eru stór nöfn á borð við Dan Severn, Matt Lindland, Forrest Griffin, Ben Rothwell, Andrei Arlovski, Ricco Rodriguez, Renato Sobral og Rich Franklin.

Þegar menn hafa barist jafn oft og Fulton er hægt er að rekja nánast alla bardagamenn til hans á einn eða annan hátt. Sem dæmi þá barðist Jens Pulver við BJ Penn, sem barðist við Lyoto Machida, sem barðist við Rich Franklin sem barðist við Fulton. Gunnar Nelson sigraði Damarques Johnson, Johnson tapaði fyrir Mike Swick, Swick sigraði Joe Riggs og Riggs tapaði einmitt fyrir Travis Fulton.

Það er endalaust hægt að leika sér að tölum og bardagaskorum hjá Fulton en frá mars 2004 sigraði hann 106 bardaga og tapaði aðeins 8 þar til hann lagði hanskana á hilluna. Það skal þó tekið fram að andstæðingarnir voru oft arfaslakir. Ein þjóðsaga segir að umboðsmaður hans hafi leitað að drukknum mönnum á bar sem voru tilbúnir að berjast við Fulton þá og þegar í MMA bardaga.

Fulton hefur sigrað 250 bardaga, tapað 49 og átt 10 jafntefli. Ekki nóg með að berjast í MMA heldur kláraði hann feril sinn með bardagaskorið 19-32 í atvinnumanna hnefaleikum. Samkvæmt nýjustu fréttur hefur Fulton loks lagt hanskana á hilluna eftir 361 bardaga í boxi og MMA.

Hér að neðan má sjá bardaga með honum en eftir bardagann veittist andstæðingur hans að honum með látum.

Brynjar Hafsteinsson
Brynjar Hafsteinsson
-Greinarhöfundur -Félagsfræðinemi HÍ -MMA-spekingur frá 1999 -Sparkboxari
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular