Gunnar Nelson var ekki eini Íslendingurinn sem barðist um helgina. Reykjavík MMA var með þrjá keppendur á Caged Steel bardagakvöldinu í Doncaster um helgina.
Þeir Jón Ingi Ástþrúðarson, Kristof Porowski og Ingþór Örn Valdimarsson börðust allir á kvöldinu. Fyrstur af strákunum var Jón Ingi Ástþrúðarson en hann mætti Englendingnum Lewis Burton í áhugamannabardaga í veltivigt. Þetta var fyrsti MMA bardagi Jóns Inga en Burton var fyrir með einn sigur í jafn mörgum bardögum.
Jón Ingi átti frábæra frumraun en hann kláraði Burton með tæknilegu rothöggi í 1. lotu. Jón Ingi er aðeins 18 ára gamall og er þetta nafn sem vert er að taka eftir.
Næstur í röðinni var Kristof Porowski en hann mætti Evaldas Leinickas í 176 punda hentivigt. Porowski sigraði með tæknilegu rothöggi í 2. lotu en þetta var fyrsti MMA bardagi Porowski.
Síðastur af Íslendingunum var Ingþór Örn Valdimarsson en hann mætti Richard Taylor í atvinnubardaga. Ingþór er svart belti í brasilísku jiu-jitsu og hefur verið lengi í bardagasenunni á Íslandi. Hann tók sinn fyrsta atvinnubardaga í Danmörku árið 2007, sama kvöld og Gunnar Nelson barðist sinn fyrsta MMA bardaga. Ingþór byrjaði mjög vel og átti fyrstu lotuna frá A til Ö. Önnur lota byrjaði nokkuð vel en svo tókst Taylor að komast ofan á. Þar náði Taylor að klára Ingþór með „baseball“ hengingu.
Ingþór er nún 0-3 sem atvinnumaður í MMA.