Í fyrri titilbardaga kvöldsins fengum við nýjan meistara. Luke Rockhold sigraði Chris Weidman með tæknilegu rothöggi í 4. lotu.
Bardaginn var afar jafn framan af. Chris Weidman sigraði fyrstu lotuna og náði fellu í fyrstu lotu. 2. lotan var jöfn en í 3. lotu tókst Rockhold að meiða meistarann verulega. Chris Weidman reyndi snúningsspark sem Rockhold sá og tók meistarann niður. Þar náði hann bakinu og svo „mount“ stöðu þar sem hann lét höggin dynja á Weidman.
Dómarinn Herb Dean hefði auðveldlega getað stoppað bardagann í 3. lotu en leyfði Rockhold að halda áfram að láta höggin dynja á meistaranum. Weidman át olnboga og hnefahögg í rúmar 30 sekúndur. Í 4. lota náði Rockhold fellu og komst aftur í „mount“. Í þetta sinn ætlaði hann ekki að leyfa Weidman að klára lotuna. Rockhold lét höggin aftur dynja á honum sem varð til þess að dómarinn Herb Dean stöðvaði bardagann.
Luke Rockhold er því nýr millivigtarmeistari UFC eftir sigur á Chris Weidman með tæknilegu rothöggi eftir 3:12 í 4. lotu.
Eftir bardagann sagði Rockhold þetta allt vera óraunverulegt og átti hann erfitt með að meðtaka þetta allt. Luke Rockhold er vel að sigrinum kominn eftir frábæra frammistöðu.
Chris Weidman var blár, marinn og blóðugur er Joe Rogan talaði við hann. Weidman viðurkenndi að snúningssparkið hafi ekki verið gáfulegt. Weidman lofaði því að hann myndi snúa aftur.