UFC 249 verður í Tachi Palace spilavítinu á friðlendusvæði indjána samkvæmt New York Times. Spilavítinu hefur verið lokað í mánuð en UFC fær lyklana til að halda viðburði næstu tvo mánuði.
UFC 249 átti að fara fram í New York þann 18. apríl. Vegna kórónaveirunnar ríkir samkomubann nánast alls staðar í Bandaríkjunum og bann á stóra viðburði. Þrátt fyrir tilmæli almannavarna og heilbrigðisyfirvalda í Bandaríkjunum hefur UFC ákveðið að vera með bardagakvöld næstu vikurnar.
Dana White, forseti UFC, hefur ekki viljað gefa upp hvar UFC 249 fer fram. Hann hefur hingað til neitað að gefa upp staðsetninguna svo „kvikindin geri ekki innrás og byrji að hringja símtöl,“ eins og hann orðaði það og á þar væntanlega við fjölmiðla. Eina sem Dana hefur viljað gefa upp er að bardagarnir verða sýndir á ESPN fyrir luktum dyrum.
New York Times og fleiri halda því fram að UFC 249 fari fram í Tachi Palace spilavítinu í Kaliforníu. Spilavítið, sem lokaði dyrum sínum þann 20. mars vegna veirunnar, er á friðlendusvæði indjána.
Fjölmörg bardagakvöld hafa verið haldin þar og var WEC með nánast alla fyrstu viðburði sína þar. Þá tók íþróttasambandið í Kaliforníu (CSAC) þátt í viðburðinum, skaffaði dómara og sá um að allt færi fram samkvæmt settum reglum. Núna mun CSAC ekki koma nálægt bardagakvöldinu.
CSAC felldi niður öll bardagakvöld í Kaliforníu í maí og hvetur fólk til að halda sér heima. Með því að halda bardagakvöldið á friðlendusvæði indjána þarf UFC ekki að fá samþykki frá CSAC. Spilavíti á friðlendusvæðum hafa áður hýst bardagakvöld sem fá ekki samþykki frá íþróttasamböndum fylkjanna. Yfirleitt eru þetta minni bardagasamtök sem ekki eru að fara eftir settum reglum eða með óhreint mjöl í pokahorninu.
Samband hringlækna (The Association of Ringside Physicians), læknar sem starfa á bardagakvöldum, hefur fordæmt viðburðinn og mælir til þess að bardagaíþróttir fari ekki fram á þessum tímum.
„Allir bardagaviðburðir í þessum heimsfaraldri setur íþróttamenn, starfsmenn og alla sem koma nálægt viðburðinum í óþarfa hættu á að smitast og verða smitberar. Auk þess þurfa bardagaíþróttamenn oft læknisaðstoð eftir bardagann en við viljum ekki sjá neitt auka álag á heilbrigðiskerfi sem er nú þegar að drukkna,“ segir í yfirlýsingu frá sambandinu.
UFC mun halda viðburði í spilavítinu næstu tvo mánuði en verður einnig með viðburði á einkaeyju sem Dana White hefur tryggt sér. Viðburðirnir á eyjunni verða fyrir bardagakvöldin sem áttu að fara fram utan Bandaríkjanna.
UFC 249 fer fram þann 18. apríl en þeir Tony Ferguson og Justin Gaethje mætast í aðalbardaga kvöldsins.