Saturday, May 18, 2024
HomeErlentUFC fjármál: Skuldir

UFC fjármál: Skuldir

Lítið hafði verið vitað um fjármál UFC þar til MMA vefsíðan Bloody Elbow fór að búta saman upplýsingum úr ýmsum áttum. Í fyrstu var gerð greining á tekjum UFC og nú skoðum við skuldirnar.

Í síðasta mánuði fór MMA Fréttir yfir tekjuliðina. Ein helsta niðurstaðan var sú að bardagamenn í UFC eru að fá lægra hlutfall af tekjum en í öðrum stórum íþróttagreinum í Bandaríkjunum. Tekjur segja hins vegar ekki alla söguna. Til að átta sig betur á fjárhagslegri stöðu sambandsins verðum við að kafa dýpra. Í dag tökum við þetta næsta skref, færum okkur úr rekstrarreikningi yfir í efnahagsreikning og lítum á skuldahlið stærsta MMA sambands veraldar.

Í grein Bloody Elbow er skuldastaða félagsins rakin frá árinu 2005, fjórum árum eftir kaup Zuffa á UFC. Á þeim tíma var UFC rekið með tapi og varð í raun ekki lánshæft fyrr en árið 2006 þegar fyrstu skuldir við banka líta dagsins ljós. Í árslok 2006 var skuld við bankastofnanir 15 milljónir dollara en tók fljótlega stökk upp á við árinu eftir. Árið 2007 tók Zuffa, LLC 325 milljónir dollara lán í Deutsche Bank, auk 25 milljón dollara ádráttarláns. Þar sem ádráttarlán er ekki skuld nema dregið sé á lánið verður litið framhjá þeim í töflu.

Stóra lánið var sett upp til fimm ára með vaxtagreiðslum og samtals 1% greiðslu af höfuðstóli á ári, þ.e. einskonar kúlulán þar sem höfuðstóllinn er nánast allur á gjalddaga í lok lánstíma. Athygli vekur að lánið var ekki notað í reksturinn heldur fór bróðurparturinn í arðgreiðslu til eiganda, eða 199 milljónir dollara. Sama ár þénaði ein stærsta stjarna UFC á þeim tíma, Matt Hughes, 360 þúsund dollara.

ufc-ukpressconference

Til viðbótar við ofangreint lán bættist við 100 milljón dollara lán árið 2009 og 60 milljón dollara lán árið 2012. Árið 2013 var ofangreindum lánum framlengt í nýju 450 milljón dollara láni til sjö ára. Í dag eru skuldir Zuffa, LLC vegna UFC 475 milljón dollarar, eða um 68 milljarðar íslenskra króna. Mjög lítið hlutfall af höfuðstól þessara skulda hefur verið greiddur til baka síðan fyrsta lánið var tekið árið 2007, eða samtals 30 milljónir dollara.

skuldir tekjur

tafla

Það er áhugavert að líta til þess hversu lítið af þessum lánum hefur verið varið í kostnað og uppbyggingu félagsins. Samkvæmt greiningu Bloody Elbow hefur 269 milljón dollurum verið varið í arðgreiðslur til eigenda. Það eru um 35 milljarðar króna beint í vasa Dana White, Frank og Lorenzo Fertitta.

Af því sem eftir stendur var 60 milljónum dollara varið til kaupa á Pride FC árið 2007 en kaupverðið var tilkynnt 70 milljón dollarar á sínum tíma. Strikeforce fékkst fyrir talsvert minna árið 2011 á 40 milljón dollara en af því voru 34 milljónir dollarar fengnir að láni.

En eru þetta miklar skuldir? Sú spurning er alltaf afstæð og það er erfitt að meta það án þess að hafa upplýsingar um kostnað og þar af leiðandi hagnað. Það telst almennt mjög há skuldsetning ef tekjur á ári og skuldir við bankastofnanir er svipuð fjárhæð en sé til verðmætis litið þá er niðurstaðan kannski önnur. Hið virta fjármálatímarit Forbes verðmetur UFC á 1.650 milljón dollara eða um 216 milljarða króna svo eignarhlutur eigenda getur verið um 154 milljarðar króna.

fertitta-conor

Til upprifjunar (úr síðustu grein) þá eru meðaltekjur bardagamanna í UFC um 13,6% af árstekjum UFC. Miðað við árið 2014 voru það um 71 milljónir dollara eða um 17 milljónir króna á mann. Áætluð greiðslubyrði á ári fyrir þessar 475 milljónir dollara eru um 25 milljónir dollara, vextir og höfuðstólsgreiðsla. Það skilur eftir 497 milljónir dollara á ári fyrir hinum ýmsu kostnaðaliðum. Að frádregnum launum ættu að vera um 426 milljónir dollarar eftir.

Það er sjálfsagt mjög dýrt að leigja stóra leikvanga, borga hinum ýmsu starfsmönnumum um allan heim laun, auk skrifstofukostnaðar, ferðakostnaðar, lækniskostnaðar og svo mætti lengi telja. Án þess að vita meira um þessa kostnaðarliði getum við ekki sagt með vissu hvort að bardagamenn ættu að fá meira greitt fyrir sitt vinnuframlag en það er margt sem bendir til þess.

Næst mun Bloody Elbow gera greiningu á hagnaði UFC. Með meiri upplýsingum getum við svarað fleiri spurningum. Framhald síðar.

-Dollarar eru umreiknaðir á genginu 131-

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular