0

UFC hættir við öll komandi bardagakvöld

UFC hefur ákveðið að fella niður öll komandi bardagakvöld á meðan heimsfaraldrinum stendur yfir. UFC ætlaði að vera með þétta dagskrá en hafa nú þurft að hætta við bardagakvöld næstu vikurnar.

Þetta tilkynnti Dana White í samtali við ESPN fyrr í kvöld. UFC ætlaði að halda UFC 249 þann 18. apríl á friðlendusvæði indjána þrátt fyrir tilmæli sóttvarnarlækna og heilbrigðisyfirvalda um að draga sig í hlé.

„Við fengum símtal í dag [fimmtudag] frá toppunum hjá Disney og ESPN. Ég hef sagt það frá því við byrjuðum að vinna með ESPN að samstarfið hefur verið ótrúlegt. Þetta hefur verið frábært samstarf. ESPN hefur gert okkur mjög gott en þeir báðu okkur um að hætta við bardagakvöldið næstu helgi,“ sagði Dana White.

UFC ætlaði að vera með bardagkvöld í hverri viku í Tachi Palace spilavítinu í Kaliforníu og á einkaeyju. Ekkert verður af þeim bardagakvöldum en hæstráðendur Disney (eigendur ESPN) vildu greinilega ekki sjá ESPN sýna bardagakvöld í miðjum heimsfaraldri.

„Þrátt fyrir að við höfum að fullu verið tilbúin fyrir UFC 249 hefur ESPN óskað eftir því að við frestum viðburðinum og komandi viðburðum vegna Covid-19 faraldursins þar til annað kemur í ljós,“ sagði í tilkynningu frá UFC sem kom skömmu eftir yfirlýsingu Dana White.

Dana lofaði þó því að UFC verði fyrsta stóra íþróttasambandið sem mun byrja að halda viðburði aftur og lofaði því að halda bardagakvöld á einkaeyju. „Bardagaeyjan er til í alvörunni. Þetta er alvöru eyja. Verið er að byggja grunnstoðirnar þar núna og þetta mun gerast og það verður sýnt á ESPN,“ sagði Dana.

Það verður því ekkert UFC á næstunni en stutt er síðan Dana White lýsti því yfir að UFC myndi halda bardagakvöld í hverri viku.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.