Friday, March 29, 2024
HomeErlentRíkisstjóri Kaliforníu vildi ekki leyfa UFC að halda bardaga

Ríkisstjóri Kaliforníu vildi ekki leyfa UFC að halda bardaga

Dana White tilkynnti í gær að UFC myndi ekki halda bardagakvöld næstu vikurnar. Ríkisstjóri Kaliforníu óskaði eftir því að bardagakvöldið færi ekki fram.

Ríkisstjóri Kaliforníu hafði samband við hæstráðendur hjá Disney og lýsti yfir áhyggjum sínum að ESPN ætlaði að sýna frá UFC 249. Disney á ESPN og voru það efstu ráðamenn hjá Disney og ESPN sem báðu Dana White um að hætta við UFC 249. Dana varð að óskum þeirra í gær.

Sjá einnig: UFC hættir við öll komandi bardagakvöld

Ríkisstjóri Kaliforníu, Gavin Newsom, hafði miklar áhyggjur af viðburðinum enda átti bardagakvöldið að fara fram á friðlendusvæði indjána í Kaliforníu (Tachi Palace spilavítið). Newsom hringdi í hæstráðendur hjá Disney og óskaði eftir því að bardagakvöldið færi ekki fram samkvæmt New York Times en höfuðstöðvar Disney eru í Kaliforníu.

Með því að halda bardagakvöldið á friðlendusvæði indjána var UFC að reyna að komast framhjá útgöngubanni sem sett hefur verið á í flestum fylkjum Bandaríkjanna – þar á meðal í Kaliforníu.

Íþróttasambandið í Kaliforníu (CSAC) neitaði að veita samþykki fyrir bardagakvöldinu og neitaði að sinna sínum störfum á bardagakvöldinu vegna veirunnar. UFC hefði því þurft að útvega lækna, dómara og annað starfsfólk í kringum bardagana sem íþróttasamböndin sjá venjulega um.

Tachi-Yokut ættbálkurinn á Tachi Palace spilavítið en ættbálkurinn er með alræðisvald yfir landinu sínu og getur sett sínar eigin reglur. Ríkisstjóri Kaliforníu vildi forðast óþægilegar og flóknar aðstæður með ættbálkinum og hafði samband við Disney sem óskaði svo eftir að UFC 249 færi ekki fram.

UFC 249 átti að fara fyrsta bardagakvöldið af mörgum sem fara átti fram í Tachi Palace spilavítinu. UFC ætlaði að vera með bardagakvöld í hverri viku þar en einnig á einkaeyju. Allt átti þetta að vera sýnt á ESPN en nú hefur UFC lagt árar í bátinn næstu vikurnar.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular