spot_img
Thursday, December 26, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentUFC London: Aðalbardagi kvöldsins á milli Jimi Manuwa og Corey Anderson

UFC London: Aðalbardagi kvöldsins á milli Jimi Manuwa og Corey Anderson

ufc london 2017Eftir að bardaga Gunnars Nelson og Alan Jouban lýkur fer aðalbardagi kvöldsins fram. Þar mætast þeir Corey Anderson og Jimi Manuwa í léttþungavigt.

Heimamaðurinn Jimi Manuwa (16-2) er einn sá mest spennandi í léttþungavigtinni. Hann er með ógnvænlegan höggþunga og er vinsæll bardagamaður.

Manuwa byrjaði seint í MMA en eftir að hafa rifið brjóstvöðva þegar hann var að taka 180 kg í bekkpressu ákvað hann að prófa bardagalistir. Þá var hann 28 ára bílasali en á skömmum tíma tókst honum að komast í UFC.

Í dag er hann með 14 rothögg í 16 sigrum og er 5-2 í UFC. Hann er með fjögur rothögg í UFC en hefur ekki beint verið að slökkva á mönnum. Gegn Kyle Kingsbury stöðvaði læknirinn bardagann eftir 2. lotu þar sem Kingsbury var mjög bólginn í framan eftir þung högg Manuwa. Cyrille Diabate meiddist á ökkla og þurfti að hætta eftir fyrstu lotu en bardaginn var skráður sem tæknilegt rothögg. Ryan Jimmo meiddist svo á kálfa er þeir mættust og var sá bardagi einnig skráður sem tæknilegt rothögg þrátt fyrir að Manuwa hafi ekki beint rotað hann. En gegn Ovince St. Preux var enginn vafi. Manuwa steinrotaði hann í 2. lotu og var það nauðsynlegur sigur fyrir hann.

Bæði töpin hans komu eftir rothögg gegn sterkum andstæðingum, Alexander Gustafsson og Anthony Johnson. Þess má geta að þetta er í fjórða sinn sem Manuwa er á sama bardagakvöldi og Gunnar.

Corey Anderson vann 19. seríu The Ultimate Fighter þar sem hann stóð uppi sem sigurvegari. Anderson er sterkur glímumaður og reyndi að komast á Ólympíuleikana 2012 í frjálsri glímu en mistókst. Glímumaðurinn Ben Askren suðaði í Anderson að skella sér í MMA. Anderson var lítið spenntur fyrir því en ákvað að kíkja á eina æfingu bara til að fá Askren til að hætta að suða. Anderson var strax yfir sig hrifinn af MMA.

Hann var aðeins með þrjá atvinnubardaga þegar hann komst í TUF og eru því 70% bardaga hans á ferlinum í UFC. Anderson hefur aðeins klárað tvo af átta bardögum sínum í UFC og er það eitthvað sem hann þarf að laga hjá sér. Hans fyrsta tap á ferlinum kom gegn Gian Villante með rothöggi í 3. lotu en hann naut mikilla yfirburða allan bardagann þangað til hann var rotaður.

Í kvöld gegn Manuwa verður hann að taka bardagann niður og brjóta Manuwa niður. Anderson hefur oft verið opinn fyrir höggum og það er hættulegt gegn Jimi Manuwa. Manuwa á mesta möguleika á sigri standandi og það þarf Anderson að taka af Manuwa.

Bardaginn er aðalbardaginn á UFC bardagakvöldinu í London en aðalhluti bardagakvöldins hefst kl 21 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular