UFC lýsandinn Brian Stann hefur sagt upp störfum hjá UFC. Þetta tilkynnti hann á Instagram í dag en hann ætlar að reyna fyrir sér á öðrum vígstöðum.
Brian Stann barðist í millivigt UFC í nokkur ár en þegar hann lagði hanskana á hilluna hóf hann störf sem lýsandi hjá UFC. Eftir að Joe Rogan færði sig í minna hlutverk sem lýsandi hefur Stann fengið fleiri stærri kvöld og hlotið mikið lof fyrir.
Hann ætlar nú að söðla um og hefur tekið að sér stjórnunarstöðu í fasteignabransanum. Stann mun auk þess hefja MBA nám og þarf nú ekki að ferðast eins mikið líkt og hann gerði er hann starfaði hjá UFC. Stann ferðaðist 26 helgar á síðasta ári vegna vinnu sinnar hjá UFC og átti það sinn þátt í ákvörðun hans.
Það verður athyglisvert að sjá hver mun fylla hans skarð en menn eins og Kenny Florian, Dominick Cruz, Dan Hardy og Daniel Cormier hafa einnig starfað sem lýsendur og mun sennilega einn af þeim fylla hans skarð.