Friday, March 29, 2024
HomeErlentJohn Kavanagh: UFC þarf að setja fordæmi í áfrýjun Gunnars

John Kavanagh: UFC þarf að setja fordæmi í áfrýjun Gunnars

John Kavanagh var í The MMA Hour í gær. Þar talaði hann um bardaga Floyd Mayweather og Conor McGregor en kom einnig inn á áfrýjun Gunnars Nelson vegna augnpotanna í bardaganum gegn Santiago Ponzinibbio.

Gunnar Nelson var rotaður af Santiago Ponzinibbio í aðalbardaganum á UFC bardagakvöldinu í Skotlandi í júlí. Eftir bardagann sást Ponzinibbio pota nokkrum sinnum í augað á Gunnari áður en hann kláraði hann með höggum. Gunnar og hans lið hafa áfrýjað úrslitum bardagans en UFC hefur ekki enn tekið ákvörðun varðandi áfrýjunina. Þar sem ekkert íþróttasamband er í Skotlandi var það UFC sem sá um regluverk og skipun dómara á bardagakvöldinu. Áfrýjunin barst því til UFC en ekki t.d. íþróttasambands Nevada fylkis ef bardagann hefði verið í Las Vegas.

John Kavanagh sagði að hann hefði ekki séð augnpotin fyrst en vissi að eitthvað hefði verið að þegar Gunnar sagðist ekki sjá þegar bardaganum var lokið. Kavanagh segir að síðasta augnpotið hafi verið það versta enda var Gunnar rotaður aðeins sekúndubrotum síðar. „Ef þetta er ekki brot sem hefur bein áhrif á úrslit bardagans, hvers konar brot eru það þá sem hafa áhrif á úrslit bardagans?“ spyr Kavanagh.

Kavanagh segir að Gunnar hefði átt að gefa til kynna eftir fyrsta potið að hann hefði fengið putta í augað. Það er aftur á móti ekki öruggt að dómarinn hefði gert hlé á bardaganum enda hafa bardagamenn engan rétt til þess að gera hlé á bardaganum. Hann sagði einnig að ómögulegt hefði verið fyrir Gunnar að gera hlé á bardaganum eftir síðasta augnpotið enda var hann rotaður sekúndubrotum seinna. Það var því enginn tími fyrir Gunnar til að gera hlé.

Kavanagh segir að dómarinn Leon Roberts sé góður dómari en sá því miður ekki augnpotin. Tæknin er til staðar til að sjá þetta betur í endursýningu og þarf UFC að setja fordæmi að mati Kavanagh. Annars sendi þetta röng skilaboð til bardagamanna að það sé einfaldlega allt í lagi að pota í augað á andstæðingnum og rota hann. Þetta verður ekki auðveld ákvörðun og ýmsar lagalegar flækjur til staðar en UFC þarf að fara varlega í sinni ákvörðun.

Kavanagh sagði að lokum að Gunnar hefði verið með óskýra sjón í tvo daga eftir bardagann en hafi sem betur fer ekki hlotið varanlegan skaða á auganu. Viðtalið má hlusta á hér að neðan þar sem hann talar auðvitað um bardaga Conor McGregor gegn Floyd Mayweather en viðtalið byrjar á umræðu um Gunnar.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular