Allt bendir til þess að UFC muni heimsækja Danmörku í fyrsta sinn í maí. Bardagakvöldið hefur þó ekki verið staðfest af UFC.
Það er pólska vefsíðan MMAnews.pl sem greinir frá þessu. Vefsíðan hefur heimildir fyrir því að Daninn Christian Colombo mæti hinum pólska Damian Grabowski á kvöldinu. Bardagakvöldið á að fara fram þann 27. maí í Royal Arena í Kaupmannahöfn.
UFC hefur nokkrum sinnum heimsótt Svíþjóð en ekki heimsótt önnur Norðurlönd. Nokkrir danskir bardagamenn eru í UFC í dag eins og fyrrnefndur Colombo, Nicholas Dalby, Damir Hadzovic og Joachim Christensen.
Hugsanlega gæti þetta verið bardagakvöldið sem Gunnar endar á þó það sé kannski full langt í það. Norðmaðurinn Emil Weber Meek hefur nú þegar lýst yfir áhuga á að berjast á kvöldinu og má búast við að sjá fullt af bardagamönnum frá Norðurlöndunum á kvöldinu.