Mikið hefur verið um skrítna dóma í UFC undanfarið og vilja sumir meina að dómaramálin innan samtakanna séu brotin. Nokkrir umdeildir dómar féllu um helgina á UFC 307 og oftar en ekki voru Sal D´Amato og Chris Lee að verki sem hafa verið mikið orðaðir við þessa umræðu undanfarið.
Rán er sterkt orð þegar kemur að umdeildum ákvörðunum og á kannski ekki við alla bardagana sem hér verða nefndir en margir vilja meina að Carla Ersparza hafi verið illa rænd í sínum kveðjubardaga. Esparza var búin að segja það fyrir bardagann sinn að hann yrði hennar seinasti á ferlinum en hún mætti Teciu “Tiny Tornado” Pennington (áður Torres) í 2. bardaga kvöldsins. Esparza er tiltölulega nýbökuð móðir en ætlaði að taka einn loka bardaga áður en hún myndi leggjast í helgan stein og einbeita sér að móðurhlutverkinu. Dómararnir gáfu Teciu sigurinn með einróma ákvörðun. Allir 3 lýsendurnir í útsendingunni tjáðu að þeim fannst dómurinn rangur og Joe Rogan sagði: “Í hvaða heimi er þetta 30-27?” þar sem honum fannst Esparza 100% taka 1. lotu og voru Jon Anik og Daniel Cormier hjartanlega sammála því. Samt sem áður var aðeins einn dómari sem gaf henni lotuna.
Esparza var fyrsti strávigtarmeistari UFC og hélt beltinu tvisvar á ferlinum. Hún átti mjög hjartnæma ræðu í viðtalinu sínu við Joe Rogan sem brast næstum í grát sjálfur.
Alexander Hernandez sigraði Austin Hubbard á klofinni dómarákvörðun í 5. bardaga kvöldsins. Tveir dómarar gáfu Hernandez fyrstu tvær loturnar og þ.a.l. sigurinn 29-28 á meðan að Chris Lee gaf Austin Hubbard allar 3 loturnar, 30-27.
Iasmin Lucindo sigraði Marinu Rodriguez í bardaganum þar á eftir, einnig á klofinni dómaraákvörðun, en um afar jafnan bardaga var að ræða og líklega ekki hægt að taka þennan bardaga inn í þessa umræðu.
Stephen Thompson og Joaquin Buckley mættust í bardaganum þar á eftir sem endaði með svakalegu rothöggi í 3. lotu en þegar dómaraspjöldin eru skoðuð kemur í ljós að dómarnir voru allir á þvers og kruss við hvorn annan. Derek Cleary gefur þeim sitthvora lotuna á meðan Sal D´Amato gefur Buckley báðar en Steven Faragher gefur Thompson báðar. Því má spyrja sig hvort dómarar séu að fara eftir sömu viðmiðum.
Jose Aldo og Mario Bautista mættust á aðal kortinu og hefur mikið verið rökrætt um þann bardaga. Bautista reyndi síendurtekið að taka Aldo niður en Aldo varðist hverri einustu fellu og varð bardaginn meira og minna að clinch hnoði upp við búrið. Sumir vilja meina að Bautista hafi átt skilið sigurinn fyrir stjórnunina sem hann hafði í clinchinu en aðrir benda á að 10 af 10 felluvörnum Aldo eigi að skora honum í vil þar sem viðmiðið er árangursríkt striking eða grappling.
Í næst síðasta bardaga kvöldsins mættust Raquel Pennington og Juliana Pena fyrir bantamvigtartitil kvenna sem endaði með klofinni dómaraákvörðun. Sal D´Amato og Mike Bell, sem einnig hefur verið viðloðandi vafasamar ákvarðanir undanfarið, gáfu Pena sigurinn en 1. lota var lotan sem skar úr um úrslitin. Pena lennti að vísu fleiri höggum en Pennington virtist valda meiri skaða með sínum höggum og þar sem skaði á að vera fyrsta viðmið dómara vilja margir meina að Pennington hafi átt skilið lotuna og þ.a.l. sigurinn.
Margir hafa kallað eftir meiri gegnsæi í dómaramálum og vilja fá dómara til að sitja undir svörum á blaðamannafundum rétt eins og bardagamennirnir sjálfir. Aðrir hafa jafnvel kallað eftir open scoring, semsagt að gefið sé upp eftir hverja lotu hver úrskurðurinn sé svo bardagamenn séu ekki í neinum vafa um stöðuna. En eitt er víst að umdeildar ákvarðnir eru að verða síalgengari og stór hluti aðdáendahóps UFC eru allt annað en sáttir.