spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaUpphitun fyrir lokakvöld The Ultimate Fighter 18: Team Rousey vs. Team Tate...

Upphitun fyrir lokakvöld The Ultimate Fighter 18: Team Rousey vs. Team Tate (fyrsti hluti)

TUF-18-Finale-poster-1

Á laugardagskvöld fara úrslit átjándu þáttaraðar raunveruleikaþáttarins The Ultimate Fighter (TUF) fram í Las Vegas. Þetta er fyrsta þáttaröðin þar sem konur taka þátt svo þetta kvöld verður fyrsti kvenkyns sigurvegari TUF krýndur. Chris Holdworth mætir David Grant í úrslitum karla en enn sem komið er er ekki ljóst hver mætir Julianna Peña í úrslitum kvenna.

Aðalbardagi kvöldsins verður svo þriðja viðureign Gray Maynard og Nate Diaz, sem mættust fyrst þegar þeir voru keppendur í fimmtu þáttaröð TUF.

 

Akira Corrassani vs. Maximo Blanco – Fjaðurvigt

En við byrjum aðalkort kvöldsins á tveimur lítt þekktum bardagamönnum, hinum sænska Akira Corassani, sem keppti í 14. þáttaröð TUF, og Maximo Blanco, sem kom inn í UFC úr Strikeforce.

Corassani keppti í 14. þáttaröð TUF. Fyrsti bardagi hans í UFC var gegn Andy Ogle og Corassani sigraði með klofnum dómaraúrskurði. Mörgum fannst Ogle vera rændur sigrinum, svo það var ekki laust við að þessi sigur væri umdeildur. Corassani tókst hins vegar að festa sig í sessi með öruggari sigri gegn Robbie Peralta í apríl á þessu ári.

Corassani er fyrst og fremst „striker“, enda með svart belti í Tae-Kwon-Do á meðan hann hefur bara fjólublátt belti í BJJ. Hann er með ágæta felluvörn og fína höggtækni en hefur átt í erfiðleikum þegar hann er settur á bakið. Það má því búast við því að hann vilji beita felluvörn sinni til að halda bardaganum standandi og neyða andstæðinginn í kickbox bardaga. Það gæti þó reynst hættulegt, því Corassani hefur aldrei náð rothöggi á meðan Blanco hefur unnið sjö af níu sigrum með rothöggi eða tæknilegu rothöggi.

Það er ólíklegt að Corassani takist að ráða við Blanco í glímu, því helstu styrkleikar Blanco eru glíma og rothöggskrafturinn. Glímuhæfni hans skilaði honum skólastyrk við háskóla í Japan og þar byrjaði hann að keppa í MMA. Hann er einn af þessum glímumönnum sem hefur tekist að nýta kraftinn sem hann notar við fellur í höggin sín og er því afar höggþungur.

Hann náði misjöfnum árangri framan af en komst svo á skrið í ágúst 2009 og vann sex bardaga í röð, þar af fimm með rothöggi eða tæknilegu rothöggi. Það varð til þess að hann fékk samning við Strikeforce í Bandaríkjunum. Pat Healy sigraði hann með hengingu í fyrsta Strikforce bardaganum, en eftir tapið fór Blanco niður í fjaðurvigt og mætti svo Marcus Brimage í UFC-frumraun sinni. Blanco tapaði með klofnum dómaraúrskurði eftir jafnan bardaga.

Blanco keppti síðast gegn Sam Sicilia á lokakvöldi TUF 17 í apríl á þessu ári og vann með dómaraúrskurði. Þar með náði hann sér í fyrsta sigurinn síðan 2010.

Blanco og Corassani eru báðir bardagamenn sem verða að halda áfram að vinna bardaga í UFC ef þeir vilja halda starfinu. Blanco, sem hefur bara unnið 60% af bardögum sínum hingað til, þarf sérstaklega á sigri að halda. Hann þarf að sýna að hann eigi erindi í UFC.

Þetta er spennandi bardagi, því Corassani getur ekki treyst á glímuhæfnina til að forðast rothöggskraft Blanco og Blanco getur ekki treyst á rothöggskraftinn því Corassani er á blaði betri standandi. Það verður því forvitnilegt að sjá hvernig þeir reyna að leysa þrautina sem þeir standa frammi fyrir á laugardagskvöld.

Spá MMA frétta: Blanco er betri glímumaður og tekur þetta á dómaraákvörðun.

Jessamyn Duke vs. Peggy Morgan – Bantamvigt kvenna

Jessamyn Duke og Peggy Morgan voru báðar keppendur í 18. þáttaröð TUF en duttu báðar út úr keppni í fyrstu umferð. Hér fá þær annað tækifæri til að sýna hvað í sér býr.

Peggy Morgan sigraði bardagann til að komast inn í TUF-húsið með yfirburðum, hún kláraði andstæðinginn með föstum höggum í gólfinu strax í fyrstu lotu. Í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar var hún hins vegar sigruð af Sarah Moras með miklum yfirburðum. Moras tók hana niður, lenti mikið af góðum höggum í gólfinu og náði svo armbar-lás í fyrstu lotu.

Morgan keppti sem áhugamaður í bæði boxi og kickboxi á fyrri árum. Hún hafði hins vegar afar litla reynslu af MMA fyrir TUF. Hún hafði aðeins æft í um 18 mánuði og bara keppt tvisvar sem atvinnumaður, en unnið báða bardagana eftir dómaraúrskurð. Hún starfar sem aðjúnkt í Southern New Hampshire University, þar sem hún kennir bókmenntir.

Morgan mun án efa reyna að halda bardaganum standandi svo hún geti nýtt hnefaleikareynslu sína.

Jessamyn Duke hefur svipaða reynslu og Morgan sem atvinnumaður, tvo sigra, en kláraði andstæðinginn í bæði skiptin. Hún býr líka að löngum og farsælum áhugamannaferli þar sem hún vann tvo titla.

Duke komst inn í TUF-húsið með triangle-hengingu í fyrstu lotu en tapaði svo gegn Raquel Pennington í fyrstu umferð eftir erfiðan og spennandi þriggja lotu bardaga sem er af mörgum talinn einn besti, ef ekki besti, bardagi þáttaraðarinnar. Í þeim bardaga sýndi Duke sparkhæfni sína, en hún er með mjög góðan grunn í Muay Thai.

Duke og Morgan æfðu mikið saman í þáttunum vegna þess að þær eru svipað byggðar, báðar mjög langar og grannar. Morgan er með forskot á Duke hvað varðar boxreynslu og faðmlengd en Duke telur sig samt hafa forskot standandi því hún er með fjölbreyttari höggtækni en Morgan. Hún beitir spörkum, standandi glímu og hnéspörkum ekki síður en hnefunum.

Duke er líklega með betri glímutækni og uppgjafartök, þannig að hún gæti leitað að fellu ef hlutirnir ganga ekki vel standandi. Morgan hefur sennilega ekki þann möguleika, hún virðist vera fremur einhæfur bardagamaður.

Spá MMA frétta: Þar sem Duke hefur hellt sér af fullum krafti út í atvinnumennsku í MMA, hefur meiri reynslu og virðist fjölhæfari bardagamaður telur höfundur hana sigurstranglegri.

spot_img
spot_img
spot_img
Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular