Í vikunni fórum við yfir bardagana sem fara fram um helgina í Manchester. Hægt er að lesa fyrri hluta umfjöllunarinnar hér: (Fyrsti hluti. Annar hluti).
Í dag verður farið yfir aðalbardaga kvöldsins sem stendur á milli hins brasilíska Lyoto Machida (19-4) og Bandaríkjamannsins Mark Munoz (13-3) í millivigtinni. Michael Bisping átti upprunalega að mæta Munoz en þurfti að hætta við eftir að hann varð fyrir meiðslum á auga. Machida var því fenginn til að leysa bretann af. Þessi bardagi mun marka frumraun Machida í millivigtinni en margir gera miklar væntingar til hans í þeim þyngdarflokki.
Lyoto Machida
Árið 2009 var Machida heimsmeistari í léttþungavigtinni, búinn að vinna alla 16 bardagana sína og var af mörgum talinn ósigrandi. Síðan þá hefur hann þó átt misjöfnu gengi að fagna. Machida er þekktastur fyrir karatestíl og óhefðbundna vinkla sem hann nýtir í högg og spörk. Machida er líka með svart belti í BJJ og er góður í að halda bardaganum standandi. Þá eru glímu- og júdóhæfileikar hans oft vanmetnir, en dæmi um það má sjá í þessari hreyfimynd þar sem hann tekur Tito Ortiz niður með fallegri fellu (e. takedown):
Machida býr yfir ótrúlegri nákvæmni í höggum sínum og getur rotað hvern sem er en hann á t.d. eitt glæsilegasta rothögg síðari ára, gegn Randy Couture. Það spark líktist frekar einhverju úr Karate Kid en MMA:
Machida er svokallaður ‘counter striker’ sem bregst frekar við höggum andstæðings síns og þó að þetta hafi oftast virkað vel hefur það stundum komið honum í vandræði t.d. í síðasta bardaga sínum gegn Phil Davis. Þar passaði Davis sig á að vera varkár og gefa fá færi á sér, en kláraði síðan hverja lotu með fellu sem nægði til að tryggja honum sigurinn.
Mark Munoz
Mark Munoz glímdi í bandarísku háskólaglímunni fyrir Oklahoma State og var tvisvar NCAA All-American (efstu 8 í þyngdarflokknum á landsvísu fá nafnbótina All-American). Þrátt fyrir þetta hefur Munoz gengið brösulega að yfirfæra glímuhæfileikana yfir í MMA, en hann hefur aðeins klárað 27% af þeim fellum sem hann hefur reynt í bardögum sínum. Munoz barðist síðast gegn Tim Boetsch þar sem hann sigraði með miklum yfirburðum. Fram að þeim bardaga hafði Munoz verið frá keppni og meðal annars glímt við meiðsli og þunglyndi.
Munoz hefur átt það til að vera lengi í gang og þrátt fyrir að vera höggþungur er hann ekki sérlega snöggur, sem gæti orðið vandamál gegn hinum snögga Machida. Machida verður þó að passa sig að hleypa Munoz ekki of nálægt því Munoz er með höggþunga til að klára bardagann í einu höggi, eins og sást gegn C.B. Dollaway:
Styrkleikar Munoz felast þó aðallega í að ná andstæðingnum í gólfið og klára með “ground and pound” og höggum sem hefur verið lýst sem “Donkey Kong” höggum. Dæmi um það sást gegn Kendall Grove þar sem hann sigraði með tæknilegu rothöggi:
Þetta verður að teljast erfið viðureign fyrir Munoz. Hann hefur aðeins yfirburði í glímunni en eins og við höfum séð er Machida enginn aukvissi í glímunni né á gólfinu. Machida tókst að verjast margra fellutilrauna Phil Davis og því verður að teljast ólíklegt að Munoz muni taka Machida niður að vild.
Spá MMAfrétta: Machida er of sterkur fyrir Munoz og mun sigra með tæknilegu rothöggi.