Thursday, June 13, 2024
spot_img
HomeForsíðaFöstudagstopplistinn: Topp 10 bestu bardagamenn úr The Ultimate Fighter þáttunum

Föstudagstopplistinn: Topp 10 bestu bardagamenn úr The Ultimate Fighter þáttunum

Núna er átjánda serían af The Ultimate Fighter (hér eftir TUF) í gangi, fyrir utan tvær brasilískar og eina ástralska seríu. Margir góðir UFC bardagamenn hafa komið úr þáttunum. Hér eru þeir 10 bestu en auðvitað má deila um listann.

10. John Dodson (4-1 í UFC)

Þetta val verður umdeilt en hlustið á. Dodson hefur bara barist fimm sinnum í UFC en hann er almennt talinn annar eða þriðji bestur í heimi á eftir meistaranum Mighty Mouse sem sigraði hann naumlega og hugsanlega Joseph Benevidez. Það er eitthvað sem menn eins og Ryan Bader og Roy Nelson hafa aldrei getað sagt. Dodson vann ekki bara TUF heldur rotaði hann T.J. Dillashaw í úrslitunum sem er ansi magnað. Dodson er mögulega hraðasti bardagamaður sem UFC hefur átt og er auk þess ótrúlega höggþungur. Hann gæti farið langt.

Stærstu sigrar: T.J. Dillashaw, Tim Elliott, Jussier Formiga, Darrell Montague.

9. Michael Bisping (14-5 í UFC)

Hertoginn frá Englandi er umdeildur náungi en klárlega einn sá besti sem komið hefur úr TUF þáttunum. Bisping er alhliða góður en kickbox er hans sterkasta hlið. Hann hefur tapað sínum stærstu bardögum (Rashad Evans, Dan Henderson, Wanderlei Silva, Chael Sonnen og Vitor Belfort) en hann virðist getað unnið alla nema þá allra bestu. Bisping hefur gert mikið fyrir íþróttina í Bretlandi og er enn einn vinsælasti bardagamaður Englands.

Stærstu sigrar: Matt Hamill, Chris Leben, Yoshihiro Akiyama, Jason Miller, Brian Stann, Alan Belcher.

8. Kenny Florian (12-5 í UFC)

Í fyrstu TUF seríunni var Florian þögli jiu jitsu gaurinn sem allir vanmátu. Hann barðist í veltivigt og komst alla leið í úrslitin og vann meðal annars Chris Leben óvænt. Á ferlinum barðist hann þrisvar um titil á móti Sean Sherk, B.J. Penn og Jose Aldo. Þó svo að hann tapaði í öll skiptin stóð hann sig alltaf vel og lét meistarana hafa fyrir hlutunum. Florian þróaðist úr BJJ gaur í alhliða MMA bardagamann og var einskonar frumkvöðull hvað varðar olnbogaársir. Hann gat skorið þykka nautasteik með þessum oddhvössu beinum, spyrjið bara Sherk.

Stærstu sigrar: Joe Lauzon, Roger Huerta, Joe Stevenson, Clay Guida, Takanori Gomi.

7. Josh Koscheck (15-7 í UFC)

Koscheck er MMA gaurinn sem allir elska að hata. Hann er með hræðilega klippingu og virkar á mann eins og algjör hálfviti. Hann hefur barist oftast í UFC af öllum TUF þáttakendum frá upphafi, unnið marga en tapað þeim stærstu eins og eina tækifæri hans til að verða meistari á móti Georges St. Pierre. Koscheck er ennþá í hópi með þeirra bestu en ferill hans er á hraðri niðurleið.

Stærstu sigrar: Chris Lytle, Frank Trigg, Anthony Johnson, Paul Daley, Matt Hughes, Mike Pierce.

6. Nate Diaz (11-7 í UFC)

Diaz stóð undir nafni stóra bróður síns þegar hann valtaði yfir samkeppnina í TUF. Á leið sinni í úrslitin vann hann þrjá bardaga, alla með uppgjafarbragði (e. submission). Eftir skrítinn sigur í úrslitunum á móti Manny Gamburyan (hann fór úr axlarlið) átti hann gott tímabil í léttvigt þar sem hann sigraði 7 af 10 bardögum. Í kjölfarið þyngdi hann sig upp í veltivigt og lenti í vandræðum á móti of stórum andstæðingum, þ.e. Rory MacDonald og Dong-Hyun Kim. Eftir það létti hans sig aftur niður í léttvigt og átti frábæra syrpu, meðal annars eftirminnilegt stríð á móti Donald Cerrone. Hann fékk í kjölfarið sitt eina tækifæri til að berjast um titil en tapaði einhliða bardaga á móti Ben Henderson. Síðasti bardagi hans var hans fyrsta tap á rothöggi fyrir Josh Thomson, en hann kemur örugglega tvíefldur til baka.

Stærstu sigrar: Manny Gamburyan, Melvin Guillard, Marcus Davis, Takanori Gomi, Donald Cerrone, Jim Miller.

5. Matt Serra (7-7 í UFC)

UFC 119: Matt Serra vs Chris Lytle

Matt Serra kom ekki úr TUF þáttunum eins og hinir á þessum lista. Hann vann fjórðu seríu sem var endurkomu (e. comeback) serían en hafði þá barist átta sinnum í UFC, meðal annars við B.J. Penn og Karo Parisyan en hann tapaði báðum þeim bardögum. Stóra stundin hans var auðvitað þegar honum tókst að rota George St. Pierre í fyrstu lotu og verða UFC meistari í veltivigt. GSP hefndi grimmilega fyrir tapið eins og Cain Velasquez gerði á móti Junior Dos Santos en sigurinn í fyrsta bardaganum verður ekki af honum tekinn. Mér finnst samt ekki hægt að setja Serra ofar á listann þar sem hann tapaði mörgum af hans stærstu bardögum, m.a. á móti Matt Hughes og Shonie Carter (spinning back fist!).

Stærstu sigrar: Ivan Menjivar, Chris Lytle, George St. Pierre, Frank Trigg.

4. Diego Sanchez (13-6 í UFC)

Diego er einn magnaðasti persónuleiki í UFC. Hann er greinilega pínu klikkaður en á góðan hátt. Hann er þekktur fyrir mikla árásargirni og hjarta. Stríðin á móti Nick Diaz, Clay Guida og Gilbert Melendez,  munu tryggi arfleifð hans í íþróttinni. Hann tapaði fyrir B.J. Penn í hans einu tilraun til að verða meistari og veitir þeim bestu ennþá góða samkeppni í dag (Ellenberger, Melendez) þrátt fyrir átta ár af stríðum. Höfuðleðrin á ferilskránni eru ansi tilkomumikil.

Stærstu sigrar: Kenny Florian, Nick Diaz, Karo Parisyan,  Joe Riggs, Joe Stevenson, Clay Guida, Martin Kampmann, Takanori Gomi.

sanchez

3. Gray Maynard (9-2-1-1 no contest í UFC)

Maynard tapaði fyrir Nate Diaz í 5. Seríu en kom eins og stormsveifur í UFC. Reyndar var fyrsti bardaginn á móti Rob Emerson úrskurðaður ógildur (e. no contest) eftir furðulegt atvik þar sem báðir menn rotuðust samstundis. Maynard náði að hefna fyrir tapið á móti Diaz og sigraði samtals átta bardaga í röð, þar með talið fyrsta bardagann á móti Frankie Edgar. Samtals börðust þeir þrisvar og skildu í raun jafnir eftir einn sigur á mann og jafntefli. Maynard náði aldrei titlinum en er þó ekki búinn að gefast upp þrátt fyrir slæmt tap á móti T.J. Grant í síðasta bardaga. Þrátt fyrir ekkert belti kemst Maynard hátt á þennan lista út af þeim nöfnum sem hann hefur á ferilskránni. Sjáið nöfnin að neðan og sannfærist.

Stærstu sigrar: Dennis Siver, Frankie Edgar, Jim Miller, Roger Huerta, Nate Diaz, Kenny Florian, Clay Guida.

UFC 125: Frankie Edgar vs Gray Maynard

2. Forrest Griffin (10-5 í UFC)

Fyrsta TUF serían var þéttskipuð af hæfileikaríkum bardagamönnum. Griffin var ólíklegur sigurvegari. Í raun er hann er ekki afburðamaður á neinu sviði en komst langt á vinnusemi og hörku. Ferlinn hans var nokkuð sveiflukenndur en barðist við flesta af þeim bestu í hans þyngd og auðvitað Anderson Silva. Það er samt best að minnast ekki Griffin út frá Silva bardaganum þar sem hann var gjörsamlega jarðaður. Þegar ég minnist hans hugsa ég um gaurinn sem sparkaði lappirnar undan Rampage Jackson, lét Shogun gefast upp og barðist við Bonnar til síðasta blóðdropa.

Stærstu sigrar: Stephan Bonnar, Shogun Rua, Quinton Jackson, Tito Ortiz (tvisvar), Rich Franklin.

Forrest-Griffin

1.Rashad Evans (13-3-1 í UFC)

evans

Evans er án efa sigursælasti bardagamaður sem komið hefur úr TUF þáttunum. Hann vann ekki bara titilinn heldur rotaði hann ríkjandi meistara sem er númer 9 á þessum lista. Að vísu tapaði hann honum strax aftur eins og Serra og Griffin en hann hefur sigrað nokkra fyrrverandi UFC meistara (4) og barist í nokkrum af eftirminnilegustu bardögum í sögu sambandsins. Evans er afburða glímumaður með harða hægri hendi og stórt hjarta. Þeir sem ekki muna þá barðist hann í þungavigt í TUF þáttunum og enginn bjóst við því að hann gæti unnið.

Stærstu sigrar: Tito Ortiz, Michael Bisping, Chuck Liddell, Forrest Griffin, Quinton Jackson, Phil Davis, Dan Henderson.

 

Aðrir góðir sem vert er að minnast á:

Ryan Bader, Joe Lauzon, Chris Leben, Melvin Guillard, Chris Lytle, Roy Nelson, George Sotiropoulos, Stephan Bonnar, Mike Swick, Keith Jardine, Diego Brandao, Matt Hamill, Mac Danzig, Tony Ferguson, Brendan Schaub, Ross Pearson, Joe Stevenson, Ed Herman, Kendall Grove, Amir Sadollah, Court McGee, Jonathan Brookins, Michael Johnson, Ramsey Nijem, Dennis Bermudez, T.J. Dillashaw, Michael Chiesa, Rony „Jason“ Mariano Bezerra, Godofredo „Pepey“ Castro, Cezar Ferreira, Norman Parke, Travis Luder.

RELATED ARTICLES

4 COMMENTS

  1. Ég fýla Lauzon en hann hefur tapað stærstu bardögum sínum fyrir utan Pulver bardagann. Stærstu sigrar fyrir utan það eru á móti Guillard og Varner. Hann tapaði hinsvegar fyrir Florian, Stout, Sotiropoulos, Pettis, Johnson og Miller. Hann er góður en hefur aldrei verið einn af þeim allra bestu.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular