Monday, May 20, 2024
HomeErlentUFC London: Upphitunarbardagar kvöldsins

UFC London: Upphitunarbardagar kvöldsins

UFC bardagakvöldið í London fer fram á laugardaginn. Áður en okkar maður stígur á svið eru nokkrir áhugaverðir bardagar sem vert er að fylgjast með.

Léttvigt: Joe Duffy gegn Reza Madadi

Síðasti upphitunarbardagi kvöldsins er á milli Írans Joe Duffy og Svíans Reza Madadi en báðir eru þeir vinsælir í heimalöndum sínum. Duffy er 3-1 í UFC og hafa allir bardagar hans verið þrælskemmtilegir. Duffy var lengi vel helst þekktur fyrir að vera síðasti maðurinn til að vinna Conor McGregor en nú er öllum sama um það eftir sigur Nate Diaz á Conor. Þetta verður síðasti bardaginn hans á núgildandi samningi við UFC og ætlar hann að koma sér í góða stöðu með sigri. Madadi er 3-2 í UFC en síðast sáum við hann rota Yan Cabral á UFC bardagakvöldinu í Rotterdam. Madadi sat inni í tvö ár fyrir innbrot í töskubúð.

Léttþungavigt: Darren Stewart gegn Francimar Barroso

Þeir Darren Stewart og Francimar Barroso mættust í nóvember síðastliðnum. Bardaginn endaði með tæknilegu rothöggi Stewart í vil en bardaginn var síðar dæmdur ógildur eftir að endursýning sýndi að höfuð þeirra skullu saman sem var upphafið af endinum. Þeir munu því mætast aftur á laugardaginn. Þetta var fyrsti bardagi Stewart í UFC en hann er ósigraður í átta bardögum. Barroso er með þrjá sigra og tvö töp í UFC og hefur lítið farið fyrir honum í UFC.

Þungavigt: Daniel Omielańczuk gegn Timothy Johnson

Eini þungavigtarbardagi kvöldsins er á milli tveggja ruma sem eru nálægt botninum í þyngdarflokkinum. Omielańczuk er 4-3 í UFC og tapaði síðast fyrir Stefan Struve á UFC 204. Vörubílstjórinn Timothy Johnson er 2-2 í UFC en þetta er þriðji bardaginn hans í röð í Evrópu. Hvorugur hefur verið rotaður á ferlinum en samanlagt eru þeir með 13 sigra eftir uppgjafartök.

Léttvigt: Marc Diakiese gegn Teemu Packalén

Eftir tvo sigra í sínum fyrstu bardögum í UFC fær Marc Diakiese Finnann Teemu Packalén. Miklar vonir eru bundnar við Diakiese og er hann ein af vonarstjörnum Breta í MMA. Packalén er öflugur glímumaður sem hefur klárað alla sigrana sína og er 1-1 í UFC.

Millivigt: Tom Breese gegn Oluwale Bamgbose

Tom Breese fer nú upp í millivigt eftir að hafa áður verið risi í veltivigt. Breese byrjaði mjög vel í UFC og kláraði fyrstu tvo bardagana sína með tilþrifum. Hann hefur ekki náð að halda sama dampi og fékk sitt fyrsta tap á ferlinum í sínum síðasta bardaga. Það verður áhugavert að sjá hann fara upp í millivigt en þar mætir hann sparkboxaranum Oluwale Bamgbose. Bamgbose er með geggjaða klippingu og er hættulegur standandi.

Veltivigt: Leon Edwards gegn Vicente Luque

Mjög spennandi bardagi í veltivigt milli tveggja skemmtilegra bardagamanna. Leon Edwards hefur verið að taka stöðugum framförum og vann síðast Albert Tumenov í október. Vicente Luque hefur unnið fjóra bardaga í röð og klárað þá alla með miklum tilþrifum. Gæti orðið einn af skemmtilegri bardögum kvöldsins.

Bantamvigt: Ian Entwistle gegn Brett Johns

Ian Entwistle er afar óhefðbundinn bardagamaður. Hann hendir sér í „heel hook“ stanslaust sem hefur skilað honum einum sigri í UFC en hefur líka komið honum í mikil vandræði. Entwistle er með sjö sigra efitr uppgjafartök í 1. lotu. Ef Brett Johns getur passað sig á hælkrókunum ætti hann að vera í góðum málum.

Millivigt: Bradley Scott gegn Scott Askham

Tveir miðlungs millivigtarmenn sem skiptast á að tapa og vinna og hafa aldrei unnið tvo bardaga í röð í UFC. Tveir Englendingar að mætast svo það ætti að vera ágætis stemning í höllinni.

Bantamvigt kvenna: Lina Lansberg gegn Lucie Pudilova

Eini kvennabardagi kvöldsins. Lina Lansberg var síðast í aðalbardaganum á UFC bardagakvöldi í Brasilíu þegar hún mætti Cyborg í hentivigt en er hér í fyrsta bardaga kvöldsins. Hún mætir nú Lucie Pudilova frá Tékklandi en þetta er endurat en þær mættust í Svíþjóð árið 2015. Þá vann Lansberg en síðan þá hefur Pudilova unnið alla þrjá bardagana sína.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl 17:30 og verður í beinni útsendingu á Fight Pass rás UFC. Aðalhluti bardagakvöldsins hefst svo kl 21 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular