UFC 261 fór fram í nótt þar sem þrír titilbardagar voru á dagskrá. Hér má sjá öll úrslit kvöldsins.
Bardagakvöldið var það fyrsta hjá UFC síðan í mars 2020 þar sem áhorfendur voru viðstaddir. Um 15 þúsund áhorfendur voru í VyStar Veterans Arena í Flórída á UFC 261 og létu vel í sér heyra.
Bardagakvöldið olli ekki vonbrigðum og fengu áhorfendur svo sannarlega nóg fyrir peninginn. Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Kamaru Usman og Jorge Masvidal um veltivigtartitilinn. Fyrsta lota var skemmtileg þar sem Usman var nokkuð aggressívur standandi en Masvidal alltaf ógnandi. Usman náði fellu en Masvidal notaði olnbogana vel af bakinu og náði að koma sér upp.
Í 2. lotu hélt Usman áfram að pressa og smellhitti með fallegri hægri og hrundi Masvidal í gólfið. Usman fylgdi því eftir með nokkrum hamarshöggum í gólfinu og rotaði Jorge Masvidal. Frábær sigur fyrir Usman en hann stóð við stóru orðin og kláraði Masvidal. Þetta er aðeins 2. tap Masvidal eftir rothögg á ferlinum í 50 bardögum. Fyrsta tapið átti sér stað árið 2008 og er þetta því góð rós í hnappagatið hjá Usman.
Í næstsíðasta bardaga kvöldsins mættust þær Weili Zhang og Rose Namajunas. Strax í 1. lotu lenti Namajunas vinstra hásparki og rotaði meistarann Weili Zhang. Zhang mótmælti en dómarinn stöðvaði bardagann réttilega og hefur Rose Namajunas nú endurheimt strávigtarbeltið sitt sem hún tapaði árið 2019.
Í fyrsta titilbardaga kvöldsins mættust þær Valentina Shevchenko og Jessica Andrade. Valentina fór leikandi létt með Andrade og kastaði henni til og frá eins og tuskudúkku í 1. lotu. Í 2. lotu náði Valentina 7. fellunni og komst í „mounted cruzifix“ í gólfinu þar sem hún lét olnbogana dynja á Andrade. Andrade var pikkföst og komst hvorki lönd né strönd og þurfti dómarinn að stöðva bardagann eftir rúmar þrjár mínútur í 2. lotu. Andrade átti að vera ein stærsta áskorun Valentinu enda fyrrum strávigtarmeistari en Valentina var mun betri.
Hræðilegt atvik átti sér stað í bardaga Uriah Hall og Chris Weidman. Eftir aðeins nokkrar sekúndur sparkaði Weidman en lenti illa á sköflungi Hall og mölbrotnaði sköflungur Weidman. Þetta var nákvæmlega eins og þegar Anderson Silva braut sköflunginn sinn eftir spark gegn einmitt Chris Weidman árið 2013. Hræðileg meiðsli og við vorum við myndbandinu hér að neðan sem sýnir meiðslin.
Öll önnur úrslit kvöldsins má sjá hér að neðan.
Aðalhluti bardagakvöldsins
Titilbardagi í veltivigt: Kamaru Usman sigraði Jorge Masvidal með rothöggi (punch) eftir 1:02 í 2. lotu.
Titilbardagi í strávigt kvenna: Rose Namajunas sigraði Zhang Weili með rothöggi (head kick) eftir 1:18 í 1. lotu.
Titilbardagi í fluguvigt kvenna: Valentina Shevchenko sigraði Jéssica Andrade með tæknilegu rothöggi (elbows) eftir 3:19 í 2. lotu.
Millivigt: Uriah Hall sigraði Chris Weidman með tæknilegu rothöggi (leg injury) eftir 17 sekúndur í 1. lotu.
Léttþungavigt: Anthony Smith sigraði Jimmy Crute með tæknilegu rothöggi (doctor stoppage) eftir 5:00 í 1. lotu.
ESPN2 / ESPN+ upphitunarbardagar:
Veltivigt: Randy Brown sigraði Alex Oliveira með uppgjafartaki (rear-naked choke) eftir 2:50 í 1. lotu.
Veltivigt: Dwight Grant sigraði Stefan Sekulić eftir klofna dómaraákvörðun.
Millivigt: Brendan Allen sigraði Karl Roberson með uppgjafartaki (ankle lock) eftir 4:55 í 1. lotu.
Fjaðurvigt: Patrick Sabatini sigraði Tristan Connelly eftir dómaraákvörðun.
ESPN2 / ESPN+ upphitunarbardagar:
Bantamvigt: Danaa Batgerel sigraði Kevin Natividad með tæknilegu rothöggi (punches) eftir 50 sekúndur í 1. lotu.
Léttvigt: Rodrigo Vargas sigraði Rong Zhu eftir dómaraákvörðun.
Fluguvigt: Jeff Molina sigraði Qileng Aori eftir dómaraákvörðun.
Strávigt kvenna: Ariane Carnelossi sigraði Na Liang með tæknilegu rothöggi (punches) eftir 1:28 í 2. lotu