UFC var með bardagakvöld í Las Vegas í nótt. Í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Derrick Lewis og Aleksei Oleinik en hér má sjá úrslit kvöldsins.
Þeir Derrick Lewis og Aleksei Oleinik buðu upp á skemmtilegan bardaga. Lewis byrjaði af miklum krafti og tók Oleinik niður. Þar lét hann þung högg dynja á Oleinik en sá gamli snéri taflinu við og komst ofan á í gólfinu. Þar reyndi Oleinik tvisvar að ná Lewis í „scarf hold“ og kreysti Oleinik af alefli. Lewis þraukaði en viðurkenndi eftir á að uppgjafartakið hefði verið djúpt. Oleinik reyndi síðan „keylock“ í lok 1. lotu en tíminn rann út.
Lewis byrjaði af sama krafti í 2. lotu og byrjaði á fljúgandi hné og smellhitti síðan með góðri hægri sem felldi Oleinik. Í gólfinu lét hann höggin dynja á Oleinik og stöðvaði dómarinn bardagann eftir 21 sekúndu í 2. lotu. Flottur sigur hjá Lewis en þetta var hans 11. sigur í UFC eftir rothögg og er enginn í þungavigtinni með fleiri sigra eftir rothögg en hann. Lewis segist vilja léttast meira áður en hann tekur sinn næsta bardaga.
Chris Weidman náði sér í sinn fyrsta sigur síðan 2017. Weidman mætti Omari Akhmedov í millivigt og var bardaginn nokkuð jafn. Weidman vann 1. lotuna og Akhmedov 2. lotu en báðir voru orðnir mjög þreyttir eftir tvær lotur. Það var mikið um fellur og tók það vel á fyrir báða. Það var allt undir fyrir síðustu lotuna og náði Weidman fellu nokkuð snemma í lotunni, komst í yfirburðarstöðu og var þar út bardagann sem tryggði honum sigur. Mikilvægur sigur fyrir fyrrum millivigtarmeistarann Weidman.
Hér má sjá öll úrslit kvöldsins.
Aðalhluti bardagakvöldsins:
Þungavigt: Derrick Lewis sigraði Aleksei Oleinik með tæknilegu rothöggi eftir 21 sekúndu í 2. lotu.
Millivigt: Chris Weidman sigraði Omari Akhmedov eftir dómaraákvörðun (29-27, 29-27, 29-28).
Millivigt: Darren Stewart sigraði Maki Pitolo með uppgjafartaki (guillotine choke) eftir 3:41 í 1. lotu.
Bantamvigt kvenna: Yana Kunitskayasigraði Julija Stoliarenko eftir dómaraákvörðun (30-26, 30-27, 30-27).
Hentivigt: Beneil Dariush sigraði Scott Holtzman með rothöggi (spinning back elbow) eftir 4:38 í 1. lotu.
ESPN+ upphitunarbardagar:
Hentivigt (174,5 pund): Tim Means sigraði Laureano Staropoli eftir dómaraákvörðun.
Millivigt: Kevin Holland sigraði Joaquin Buckley með tæknilegu rothöggi (punch) eftir 32 sekúndur í 3. lotu.
Léttvigt: Nasrat Haqparast sigraði Alexander Muñoz eftir dómaraákvörðun (30-27, 30-27, 30-27).
Millivigt: Andrew Sanchez sigraði Wellington Turman með rothöggi (punch) eftir 4:14 í 1. lotu.
Fjaðurvigt: Gavin Tucker sigraði Justin Jaynes með uppgjafartaki (rear-naked choke) eftir 1:43 í 3. lotu.
Fjaðurvigt: Youssef Zalal sigraði Peter Barrett eftir dómaraákvörðun.
Bantamvigt: Irwin Rivera sigraði Ali AlQaisi eftir klofna dómaraákvörðun.