Valgerður Guðsteinsdóttir er stödd í Edmonton, Alberta í Kanada þar sem hún mun mæta fyrrverandi Muay Thai heimsmeistaranum, ósigraða boxaranum og heimakonunni Jordan Dobie í kvöld, eða öllu heldur í nótt, og verður bardaganum streymt í beinni útsendingu á UFC Fight Pass.
Við Íslendingar munum þurfa að vaka frekar lengi frameftir til að ná okkar konu í beinni útsendingu en við erum 6 klukkustundum á undan Kanadískri klukkunni og Valgerður er í þriðja síðasta bardaga kvöldsins. Viðburðurinn er haldinn af Unified Boxing Promotions og fer fram á spilavítinu River Cree Resort & Casino.
Valgerður mætti í hlaðvarpið Fimmtu Lotuna í síðustu viku og sagði þar að undirbúningur fyrir bardagann hafi gengið mjög vel. Hún sagði að þetta væri besta camp sem hún hafi náð og mesti tími sem hún hafi fengið til undirbúnings svo gera má ráð fyrir bestu útgáfu af Valgerði sem við höfum séð. Hún vigtaði sig inn í gær og náði auðveldlega vigt. Bardaginn hennar er einn af þremur aðal bardögunum og fer Valgerður því í aukaleg viðtöl hjá UFC Fight Pass sem mun sannarlega hjálpa hennar vörumerki.
Valgerður átti gott ár í fyrra þar sem hún keppti tvisvar og vann báða sína bardaga og mun leitast eftir því að sigra sinn þriðja bardaga í röð þegar hún stígur inn í hring í kvöld.
Hér má sjá allt aðalkortið sem verður í beinni á UFC Fight Pass. Þarna eru margir MMA bardagamenn, t.d. heimamaðurinn KB Bhullar sem barðist í UFC.