VBC heldur til Dublin í Írlandi um helgina á æfingamót í Brasilísku Jiu-Jitsu haldið af Grappling Industries.
Það er heill hellingur af þátttakendum sem heldur út en alls fara 21 ungmenni á aldrinum 5-15 ára og einnig 4 fullorðnir.
Eiður Sigurðsson yfirþjálfari barnastarfsins hjá VBC leiðir hópinn og mun einnig keppa sjálfur á mótinu. Hann þarf varla að kynna fyrir þeim sem þekkja senuna en hann hefur verið einn fremsti glímumaður landsins um áraraðir. Hallur Sigurðsson og Sigurdís Helgadóttir sem hafa komið hrikalega sterk inn í BJJ senuna á skömmum tíma halda einnig út. Hallur sem er gamall boxari vann gull á síðasta Íslandsmeistaramóti í hvítbeltingaflokki og Sigurdís, sem vann sinn flokk og opna flokkinn á Hvítur á Leik mótinu eftir að hafa aðeins æft íþróttina í örfáa mánuði, kom sér einnig á pall á Íslandsmeistaramótinu síðasta í blábeltingaflokki. Auk þeirra keppir einnig Birgir Þór Stefánsson sem er yfirþjálfari Muay Thai hjá VBC en hann er að fara keppa í Brasilísku Jiu Jitsu í fyrsta skipti. Birgir keppir aðeins í Nogi en hinir keppendurnir keppa bæði í Gi og Nogi.
Eiður Sigurðsson
Á mótinu, a.m.k. í fullorðinsflokkum, verður skipt upp í flokka sem geta innihaldið allt að 5 keppendur. Hver keppandi getur þá fengið 4 glímur, 8 glímur ef keppt er bæði í Gi og Nogi, og því mikil reynsla í boði.
Krakkar og masters/seniors keppa á laugardeginum en fullorðnir á sunnudeginum.
Hallur Sigurðsson Sigurdís Helgadóttir Birgir Þór Stefánsson