ViaPlay hóf göngu sína sér á landi í apríl á þessu ári. Í ágúst byrjaði ViaPlay á Íslandi að sýna UFC og verður ViaPlay með sýningaréttinn út næsta ár.
Á Viaplay er í boði sérframleitt efni, kvikmyndir, þáttaraðir, barnaefni og beinar útsendingar fra íþróttaviðburðum. Þetta er Norræn streymisveita sem á nú sýningarréttinn á keppnum eins og Formúla 1, þýski fótboltinn og UFC hér á landi.
UFC var sýnt á Stöð 2 Sport frá 2014 og til ársins 2019 og gerði stöðin vel í að kynna íþróttina fyrir landanum á þeim tíma. Sýningarrétturinn kláraðist í lok síðasta árs og tók ViaPlay yfir á þessu ári. ViaPlay mun sýna UFC hér á landi út árið 2021 í það minnsta.
„ViaPlay hefur átt réttinn á UFC í Skandinavíu síðan 2016. Það hefur verið ánægjulegt að taka þátt í uppvexti íþróttarinnar á Norðurlöndum,“ segir Kim Mikkelsen, yfirmaður íþróttadeildar hjá ViaPlay.
Áskrift á ViaPlay Total sem inniheldur kvikmyndir, þáttaraðir og íþróttir kostar 1.599 kr. á mánuði en Pay Per View er ekki innifalið þar. „Við erum með Pay Per View fyrir UFC og box á ViaPlay. En við munum ekki rukkka sérstaklega fyrir Pay Per View á númeruðu UFC kvöldunum eins og þekkist í Bandaríkjunum. Það verða einhver box kvöld og UFC kvöld á Pay Per View en það verður auglýst með góðum fyrirvara.“
Bardagaaðdáendur sem eru í áskrift hjá ViaPlay þurfa því ekkert að borga aukalega fyrir UFC 254 sem fer fram nú á laugardaginn.
Auk þess að vera með bardagakvöld í beinni verður ViaPlay líka með annað UFC efni. „ViaPlay er með um það bil 100 klukkustundir af VOD efni frá UFC sem áskrifendur hafa aðgang að, þannig að þetta eru ekki bara bardagakvöldin. Við erum ekki með réttinn á Bellator en áskrifendur mega eiga von á fleiri íþróttum og deildum á næsta ári,“ segir Kim að lokum.
UFC 254 fer fram á laugardaginn og hefst aðalhluti bardagakvöldsins kl. 18:00. Bardagakvöldið verður sýnt á ViaPlay þar sem hægt er að velja um lýsingu á ensku eða íslensku. Það verður áfram hægt að horfa á UFC í beinni á Fight Pass rás UFC en UFC rukkar aukalega fyrir númeruðu bardagakvöldin eins og UFC 254.