Vitor Belfort mun berjast sinn síðasta MMA bardaga á ferlinum nú á sunnudaginn. Belfort mætir þá Uriah Hall og ætlar að hætta eftir tveggja áratuga feril í MMA.
Hinn fertugi Vitor Belfort tók sinn fyrsta MMA bardaga í október 1996. Hann sást fyrst í Bandaríkjunum á UFC 12 árið 1997 og lýkur ferlinum á UFC Fight Night: Stephens vs. Choi á sunnudaginn.
Belfort hefur átt langan og sigursælan feril en hefur sömuleiðis verið umdeildur. Hann hefur fallið á lyfjaprófum og var lengi vel í TRT meðferðinni á meðan hún var leyfileg.
Sjá einnig: Vitor Belfort og TRT
Belfort er með 40 MMA bardaga að baki og er sá sem er með flest rothögg í sögu UFC eða 12 talsins. Þá á hann einnig metið yfir flesta sigra í 1. lotu í UFC eða 13 talsins.
Hann hefur nú ákveðið að bardaginn gegn Hall verði hans síðasti en þetta lét hann eftir sér í hlaðvarpinu UFC Unfiltered. Hann er með mörg járn í pípunum og ætlar að gefa skrokknum frí eftir langan feril. Bardaginn gegn Uriah Hall verður því hans síðasti á ferlinum og gæti orðið skemmtileg viðureign.