Friday, May 3, 2024
HomeErlent10 áhugaverðustu bardagarnir í ágúst 2020

10 áhugaverðustu bardagarnir í ágúst 2020

Eftir þéttan júlí mánuð tekur annar þéttur ágúst mánuður við. Einn stór titilbardagi er á dagskrá hjá UFC en annars er lítið um gull í mánuðinum en engu að síðu mjög áhugaverðir bardagar.

UFC er með fimm bardagakvöld í ágúst og verður því nóg um að vera í mánuðinum. Bellator er með tvö bardagakvöld og ONE Championship þrjú en fáir staðfestir bardagar eru komnir á seinna bardagakvöld Bellator og á ONE bardagakvöldin. Kíkjum á þetta.

10. Michael Chandler gegn Benson Henderson (Bellator 243, 7. ágúst)

Þessi bardagi er endurat en Chandler vann fyrri bardagann eftir klofna dómaraákvörðun í nóvember 2016. Bellator hefur tvívegis reynt að setja bardagann aftur saman en fallið niður vegna meiðsla Henderson og síðan vegna Covid fyrr á árinu.

Spá: Chandler vinnur aftur eftir dómaraákvörðun.

9. Pedro Munhoz gegn Frankie Edgar (UFC Fight Night 175, 22. ágúst)

Þessi bardagi hefur verið lengi í smíðum. Bardaginn átti fyrst að vera á UFC 251 í júlí en var færður um viku. Skömmu síðar greindist Munhoz með kórónaveiruna og féll því bardaginn aftur niður. Bardaginn var settur aftur á dagskrá á UFC 252 en var færður á þetta minna bardagakvöld sennilega til að vera aðalbardagi kvöldsins. Munhoz var á góðri siglingu þar til hann tapaði fyrir Aljamain Sterling en hann hefur ekki barist í eitt ár núna. Edgar hefur verið á leið í bantamvigt núna í langan tíma og tekur skrefið loksins í ágúst.

Spá: Frankie Edgar á lítið eftir. Munhoz klárar hann með TKO í 2. lotu.

8. Jennifer Maia gegn Joanne Calderwood (UFC Fight Night: Brunson vs. Shahbazyan, 1. ágúst)

Þessi bardagi er mikilvægur í fluguvigt kvenna. Joanne Calderwood var komin með titilbardaga gegn Valentina Shevchenko. Meistarinn er meidd og er ekki vitað hvenær hún snýr aftur en í stað þess að bíða eftir Shevchenko tekur Calderwood þennan bardaga gegn Maia. Calderwood hefur unnið þrjá af síðustu fjórum og gulltryggir sér titilbardaga með sigri.

Spá: Calderwood vinnur eftir dómaraákvörðun.

7. Chris Weidman gegn Omari Akhmedov (UFC Fight Night: Lewis vs. Oleinik, 8. ágúst)

Fyrrum fórnarlamb Gunnars, Omari Akhmedov, hefur unnið fimm af síðustu sex bardögum sínum og fær hér stóran bardaga gegn fyrrum millivigtarmeistaranum Chris Weidman. Weidman er kominn aftur niður í millivigt eftir misheppnaða tilraun í léttþungavigt. Fimm töp í síðustu sex bardögum, allt eftir rothögg, er eins slæmt og það verður. Akhmedov er með þungar hendur og Weidman er ekki með bestu hökuna.

Spá: Þetta verður mjög áhugavert þar sem báðir eru á gjörólíkum stað á ferlinum. Weidman kreistir fram sigur eftir dómaraákvörðun með seiglu.

6. Junior dos Santos gegn Jairzinho Rozenstruik (UFC 252, 15. ágúst)

Eftir 10 sigra í röð er Jairzinho að koma til baka eftir sitt fyrsta tap. Jairzinho var rotaður af Francis Ngannou fyrr á árinu en fær nú tækifæri gegn fyrrum meistara. Junior dos Santos hefur verið rotaður í síðustu tveimur bardögum sínum og er fastur í hliðvarðarstöðu í grennd við toppinn í þungavigt.

Spá: Junior dos Santos er tæknilega betri en Jairzinho er sprækur og rotar JDS í 2. lotu.

5. Derek Brunson gegn Edmen Shahbazyan (UFC Fight Night: Brunson gegn Shahbazyan, 1. ágúst)

Þessi bardagi fer loksins fram í kvöld en hann átti upphaflega að vera í mars. Bardaginn var færður á bardagakvöld sem féll síðan niður vegna kórónaveirunnar en loksins getur hann farið fram. Hérna á að henda Derek Brunson í einn þann efnilegasta í millivigtinni. UFC gerði það sama með Brunson fyrir Israel Adesanya og Robert Whittaker. Smá próf en ekki of erfitt. Shahbazyan er bara 22 ára gamall og þegar kominn með fjóra sigra í UFC.

Spá: Það er ástæða fyrir því að hæpið á bakvið Shahbazyan er svona mikið og á hann að standast þetta próf. Shahbazyan klárar Brunson í 1. lotu.

4. Anthony Smith gegn Aleksandar Rakić (UFC Fight Night 176, 29. ágúst)

Þessi bardagi er mikilvægur fyrir léttþungavigtina. Báðir eru að koma af tapi og þurfa sigur til að halda sér við toppinn. Smith tapaði illa fyrir Glover Teixeira fyrr í sumar en Rakic tapaði fyrir Volkan Oezdemir í desember. Rakic er að klífa upp stigann en hefur ekki enn náð topp 5 sigri. Smith var á sama stað áður en hann vann Alexander Gustafsson og spurning hvort hann falli enn neðar með tapi.

Spá: Erfitt að spá í þetta en segjum að Smith vinni eftir dómaraákvörðun.

3. Sean O’Malley gegn Marlon Vera (UFC 252, 15. ágúst)

Sean O’Malley hefur verið geggjaður síðan hann kom til baka fyrr á þessu ári eftir tveggja ára fjarveru. Tveir sigrar, tvö rothögg og það á innan við fimm mínútum samanlagt. Andstæðingur hans að þessu sinni er Marlon Vera en hann var á fimm bardaga sigurgöngu þar til hann tapaði fyrir Song Yadong fyrr í sumar. Stenst O’Malley þetta próf með glæsibrag eins og hann hefur gert hingað til?

Spá: Marlon Vera verður aðeins erfiðari en hinir andstæðingarnir en O’Malley klárar þetta með TKO í 2. lotu.

2. Yair Rodríguez gegn Zabit Magomedsharipov (UFC Fight Night 176, 29. ágúst)

Þessi verður einfaldlega rosalegur! Það getur ekki annað verið en þetta veðrur aðalbardagi kvöldsins. Bardaginn er mikilvægur í fjaðurvigtinni og gæti úrskurðað næsta áskoranda fyrir Alexander Volkanovski. Báðir eru miklir skemmtikraftar og verður þetta hörku bardagi.

Spá: Erfitt að spá í þetta. Zabit þreytist þegar líður á bardagann og Yair tekur síðustu þrjár loturnar eftir góða byrjun Zabit. Yair vinnur eftir dómaraákvörðun.

1. Stipe Miocic gegn Daniel Cormier (UFC 252, 15. ágúst)

Loksins munu þessir klára trílogíu sína. Cormier kláraði fyrri bardagann með rothöggi í 1. lotu og Miocic þann seinni með tæknilegu rothöggi í 4. lotu. Sama hvernig fer verður þetta lokabardagi Cormier. Hann vill endurheimta beltið og gera það með meiri glímu eins og hann gerði í 1. lotu í síðasta bardaga. Þetta verður alvöru þungavigtarorusta en Dana White, forseti UFC, segir að sigurvegarinn hér verði sjálfkrafa besti þungavigtarmaður í sögu UFC.

Spá: Þetta verður jafnt eins og sá síðasti en í þetta sinn vinnur Miocic eftir dómaraákvörðun.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular