Sunday, September 8, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu bardagarnir í maí 2021

10 áhugaverðustu bardagarnir í maí 2021

Maí mánuður er kominn og er kominn tími til að skoða bestu bardaga mánaðarins. Maí lítur vel út á pappírum en hér eru 10 áhugaverðustu bardagarnir að okkar mati.

UFC er með fjögur bardagakvöld í mánuðinum, Bellator með tvö og ONE eitt bardagakvöld. Bellator missti áhugaverðasta bardaga sinn í mánuðinum (Yoel Romero gegn Anthony Johnson) í vikunni en er með nokkra ágætis bardaga. UFC á því þennan mánuð að okkar mati.

10. Yan Xiaonan gegn Carla Esparza (UFC Fight Night: Font vs. Garbrandt, 22. maí)

Þessi er mikilvægur í strávigtinni enda gæti sigurvegarinn hér fengið tækifæri gegn nýja (gamla) strávigtarmeistaranum Rose Namajunas. Yan Xiaonan hefur unnið alla sex bardaga sína í UFC en þó ekki tekist að klára neinn af þeim. Carla Esparza var auðvitað fyrsti strávigtarmeistari UFC og er nú aftur komin í nálægð við titilinn með fjórum sigrum í röð. Esparza hefur ekki beint verið að rústa sínum andstæðingum en sigrarnir telja.

Spá: Þetta verður jafnt en Xianon vinnur eftir dómaraákvörðun.

9. Angela Hill gegn Amanda Ribas (UFC Vegas 26, 8. maí)

Amanda Ribas lenti illa í því síðast þegar hún barðist og var rotuð snemma í 2. lotu. Ribas var með mikið hæp á bakvið sig fyrir þann bardaga en hefur verið sett í kælinn. Hún getur komið sér aftur í góðvild aðdáenda með góðri frammistöðu gegn Angela Hill. Hill er alltaf skemmtileg og vann Ashley Yoder í mars eftir tvö töp þar á undan.

Spá: Þessi ætti að verða skemmtilegur en Ribas kemst aftur á sigurbraut og klárar Hill með uppgjafartaki í 2. lotu.

8. Shane Burgos gegn Edson Barboza (UFC 262, 15. maí)

Þessi fjaðurvigtarbardagi gæti orðið flugeldasýning. Shane Burgos er ófeiminn við að skiptast á höggum og Edson Barboza elskar að láta höggin telja. Burgos hefur unnið sex af átta bardögum sínum og hefur þrisvar verið í besta bardaga kvöldsins. Barboza er með ansi góða ferilskrá en hefur tapað fimm af síðustu sjö bardögum sínum. Barboza tapar aðallega fyrir þeim bestu og spurning hvort Burgos sé þar á meðal.

Spá: Þetta verður stríð en Burgos vinnur eftir dómaraákvörðun þar sem hann stjórnar pressunni.

7. Neil Magny gegn Geoff Neal (UFC Vegas 26, 8. maí)

Áhugaverður bardagi í veltivigt. Geoff Neal byrjaði sinn feril í UFC ansi vel en lenti á vegg síðast þegar hann mætti Stephen Thompson. Neal tapaði fremur einhliða en er staðráðinn í að komast aftur á sigurbraut. Reynsluboltinn Neil Magny er alltaf lúmskur og oft sýnd veiði en alls ekki gefin. Hann átti fremur daufa frammistöðu síðast þegar hann tapaði fyrir Michael Chiesa en fram að því hafði hann unnið þrjá bardaga í röð.

Spá: Magny er langur og snjall að koma bardaganum þangað sem hann vill en Neal er hættulegri. Neal sigrar eftir dómaraákvörðun.

6. Jack Hermansson gegn Edmen Shahbazyan (UFC 262, 15. maí)

Þó þessi bardagi sé einn af upphitunarbardögum kvöldsins á UFC 262 er hann samt mjög áhugaverður. Edmen Shabazyan var sjóðandi heitur 2019 þar sem hann hafði unnið alla 11 bardaga sína og leit hrikalega vel út. Hann var eitt mesta efnið í millivigt og varð umræðan enn háværari þegar hann kláraði Brad Tavares í 1. lotu. Honum var hins vegar pakkað saman af Derek Brunson í fyrra og sýndi að hann á enn margt ólært til að komast á toppinn. Jack Hermansson náði sér ekki heldur á strik í sínum síðasta bardaga þar sem hann tapaði fyrir Marvin Vettori og þarf að minna á sig með góðri frammistöðu. Mikilvægur bardagi fyrir báða og áhugavert að sjá hvað þeir hafa lært eftir síðustu töp.

Spá: Erfitt að rýna í þennan en segjum að Edmen komi sterkur til baka og roti Hermansson í 2. lotu.

5. Rob Font gegn Cody Garbrandt (UFC Fight Night: Font vs. Garbrandt, 22. maí)

Cody Garbrandt komst aftur á sigurbraut í fyrra þegar hann rotaði Raphael Assuncao með einu besta rothöggi ársins. Garbrandt ætlaði að fara niður í fluguvigt en bara ef hann fengi titilbardaga strax. Á meðan núverandi meistari, Deiveson Figueiredo, er með bardaga í plönunum ætlar Garbrandt greinilega að halda áfram í bantamvigt. Rob Font hefur komið verulega á óvart og unnið þrjá bardaga í röð – nú síðast gegn Marlon Moraes. Hann hefur lítið getað barist undanfarin ár en virðist vera stöðugt að bæta sig.

Spá: Þó Rob Font sé öflugur þá er Garbrandt ennþá mjög hættulegur. Eftir nokkuð jafnan bardaga klárar Garbrandt þetta með rothöggi í 3. lotu.

4. Tony Ferguson gegn Beneil Dariush (UFC 262, 15. maí)

Þessi verður rosalegur í léttvigtinni. Eftir 12 sigra í röð hefur Tony Ferguson tapað tveimur bardögum í röð. Nú er spurning hvort hinn 37 ára Ferguson sé ennþá á topp 5 í léttvigtinni en fallið gæti verið hratt ef hann tapar aftur hér. Beneil Dariush hefur unnið 6 bardaga í röð og aldrei verið betri. Þetta verður hins vegar hans stærsta áskorun og þarf Dariush að vera upp á sitt allra besta til að vinna.

Spá: Tony Ferguson er ekki alveg búinn og klárar Dariush með TKO í 3. lotu eftir algjört stríð.

3. Dominick Reyes gegn Jiří Procházka (UFC Fight Night: Reyes vs. Prochazka, 1. maí)

Þessi verkalýðsslagur í kvöld verður mikilvægur í léttþungavigtinni. Ríkjandi meistari Jan Blachowicz mætir Glover Teixeira næst en sigurvegarinn hér gæti fengið næsta titilbardaga – og þá sérstaklega ef Prochazka vinnur. Dominick Reyes hefur tapað tveimur bardögum í röð en bæði töpin komu í titilbardögum. Hér þarf hann að minna á sig ef hann ætlar að halda sér meðal þeirra bestu í léttþungavigt. Tékkinn Jiri Prochazka byrjaði vel í UFC með sigri á Volkan Oezdemir í fyrra en þar áður var hann léttþungavigtarmeistari Rizin. Það væri stór yfirlýsing hjá Prochazka að sigra Reyes og spurning hvort honum takist það í kvöld.

Spá: Óhefðbundinn stíll Prochazka mun valda Reyes vandræðum framan af en hann nær að aðlagast og Reyes vinnur eftir dómaraákvörðun.

2. Leon Edwards gegn Nate Diaz (UFC 262, 15. maí)

Þessi kom upp úr þurru. Nate Diaz, sem ekki hefur barist síðan í ágúst 2019, mætir hér Leon Edwards í fimm lotu bardaga í veltivigt þrátt fyrir að þetta sé ekki aðalbardagi kvöldsins né titill í húfi. Leon Edwards er á langri sigurgöngu en í hans síðasta bardaga potaði hann illa í auga Belal Muhammad með þeim afleiðingum að bardaginn var dæmdur ógildur. Edwards leit þó vel út fram að því og verður áhugavert að sjá hvað hann getur gert gegn Nate Diaz. Það vita allir hvað Nate Diaz kemur með að borðinu en hann gæti tryggt sér óvæntan titilbardaga í veltivigt með sigri.

Spá: Leon Edwards gerir þetta ljótt og óspennandi en vinnur Diaz eftir dómaraákvörðun.

1. Charles Oliveira gegn Michael Chandler (UFC 262, 15. maí)

Loksins kemur einhver niðurstaða í léttvigtina. Khabib Nurmagomedov er formlega hættur og hefur látið beltið af hendi. Fyrrum Bellator meistarinn Michael Chandler kom inn með hvelli í UFC þegar hann rotaði Dan Hooker í 1. lotu. Charles Oliveira hefur verið í UFC síðan 2010 og er að toppa núna. Oliveira hefur unnið átta bardaga í röð og nú er komið að titilbardaganum sem hann hefur svo lengi þráð. Það verður síðan að koma í ljós hvað Dustin Poirier gerir gegn Conor McGregor í júlí til að skera úr um hver sé besti léttvigtarmaður heims.

Spá: Chandler tekur þetta eftir dómaraákvörðun þar sem hann heldur uppi háum hraða sem Oliveira ræður ekki við.

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular