Saturday, July 27, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíða10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í nóvember 2013

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í nóvember 2013

Það er nóg um að vera í nóvember. Stórir titilbardagar og nokkrir mjög áhugaverðir og mikilvægir bardagar sem skera úr um hver færist ofar í goggunarröðinni. Síðast reyndust 6 af 10 spádómum réttir, vonandi gengur betur í þetta skipti. And now….!

10. Fight for the Troops 3, 6. nóvember : Liz Carmouche vs. Alexis Davis (bantamvigt)

Hér er á ferðinni kvennabardagi sem hefur fengið lítið umtal. Á kvöldi þar sem Tim Kennedy og Rafael Natal er aðal bardaginn er þessi áhugaverðastur í mínum augum. Hér mætast Carmouche sem hefur komist næst því að sigra Ronda Rousey og Davis sem hefur sigrað sex af síðustu sjö bardadögum. Báðar hafa barist við margar af þeim bestu og sigurvegarinn ætti að vera mjög nálægt því að skora á meistarann.

Spá: Báðar konur eru alhliða góðar en Davis er með svart belti í jiu jitsu á meðan Carmouche er með blátt. Carmouche er hinsvegar baráttujaxl og mun vera í toppformi fyrir hermennina enda var hún sjálf í hernum. Ég held að Carmouche taki þetta á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu eftir blóðugt stríð.

9. Bellator 106, 2. nóvember: Pat Curran vs. Daniel Straus 2 (fjaðurvigt)

Pat Curran er kannski lítið þekktur en hann er einn besti bardagamaður í fjaðurvigt í heiminum. Hann hefur sigrað síðustu 6 bardaga og 10 af síðustu 11 (eina tapið var á móti Eddie Alvarez). Hér mætir hann Straus sem hann sigraði árið 2009 en hefur unnið sér inn tækifæri til að skora á Bellator meistarann með því að sigra 5 bardaga í röð og þar með talið útsláttarkeppni Bellator í fjaðurvigtinni.

Spá: Curran er einfaldlega betri og vinnur þennan bardaga en sennilega á stigum þar sem Straus er seigari en bingókúla.

8. UFC 167, 16. nóvember: Josh Koscheck vs. Tyron Woodley (veltivigt)

Þetta er mjög áhugaverður bardagi af því að þessir tveir eru svo gott sem spegilmynd af hvor öðrum. Báðir eru afburða glímukappar en þó ekki í BJJ. Báðir eru líka höggþungir og vilja rota andstæðinginn. Spurningin er, hver stjórnar glímunni og hver nær að lokum að rota hinn?

Spá: Koscheck er reynslubolti en er farinn að dala. Það má þó ekki gleyma því að hann barðist við Johnny Hendricks í fyrra og stóð sig mjög vel. Þrátt fyrir óvænt tap fyrir Jake Shields er Woodley yngri og á uppleið. Woodley sigrar, jafnvel með rothöggi.

7. The Ultimate Fighter Finale, 30. nóvember: Gray Maynard vs. Nate Diaz 3 (léttvigt)

Þessir kappar er jafn ólíkir og Dana White og Dolly Parton. Maynard er þessi klassíski háskóla glímumaður (jock) á meðan Diaz er þessi harði götustrákur sem kann að slást. Þessir tvær mættust fyrst í fimmtu seríu af The Ultimate Fighter árið 2007 þar sem Diaz sigraði með uppgjafarbragði. Þeir börðust svo aftur árið 2010 þar sem Maynard sigraði á stigum.

Spá: Í fyrstu tveimur bardögunum náði Maynard aldrei að nota sinn helsta styrk sem er glíman. Diaz er hættulegur á gólfinu sem sannaðist í fyrsta bardaganum og kannski var Maynard smeikur við það árið 2010. Ég held að Maynard taki Diaz í glímu kennslustund í þetta skiptið líkt og hann gerði við Kenny Florian og sigri á stigum.

6. UFC 167, 16. nóvember:  Rory MacDonald vs. Robbie Lawler (veltivigt)

Þegar Rory sigraði Jake Ellenberger með stungunni og með því að… horfa á hann, ákvað UFC að gera eitthvað í því og láta hann fá “RUTHLESS” Robbie Lawler næst. Lawler er búinn að vera á mikilli siglingu síðan hann fór úr Strikeforce í UFC. Hann byrjaði á að rota Josh Koscheck og Bobby Voelker og fær nú tækifæri á móti ungum manni sem allir halda að eigi eftir að verða stór stjarna og framtíðar meistari.

Spá: Já, Lawler er búinn að vera flottur undanfarið en hann hefur bara sigrað 5 af síðust 10 bardögum. MacDonald ætti að taka þennan bardaga nokkuð örugglega en það verður samt gaman að sjá hann takast á við höggþungan, reyndan og árásagjarnan andstæðing. Rory vinnur á tæknilegu rothöggi í annarri lotu.

5. The Ultimate Fighter Finale, 30. nóvember: Demetrious Johnson vs. Joseph Benavidez 2 (fluguvigt)

Þessa stundina eru þessir tveir klárlega bestir í fluguvigt. John Dodson er að narta í hælana á Benevidez en enginn mótmælir því að Joseph sé hér að fá annað tækifæri á móti meistaranum Mighty Mouse Johnson.

Spá: Í fyrsta bardaganum var Johnson alltaf skrefi á undan. Benevidez er sennilega betri en hann var þá og hefur vonandi lagað eitthvað af því sem fór úrskeiðis en ég held að Johnson sé líklegri til að endurtaka leikinn og vinna aftur á stigum.

4. UFC 167, 16. nóvember: Rashad Evans vs. Chael Sonnen (létt þungavigt)

Chael Sonnen gengur yfirleitt beint að andstæðingi sínum, kýlir hann nokkrum sinnum og tekur hann niður. Það verður mjög erfitt að gera það á móti Rashad Evans. Það er eitt að taka Shogun niður en Evans er fyrsta flokks glímumaður sem hann sannaði t.d. á móti Phil Davis. Sonnen virðist þó sigra alla nema þá allra bestu (Jon Jones, Anderson Silva) á meðan Evans virðist vera aðeins á niðurleið. Hann hefði getað tapað fyrir Dan Henderson á stigum og þá hefði hann verið búinn að tapa þremur í röð.

Spá: Ég held að Evans sé slæmur stíll fyrir Sonnen. Hann mun halda bardaganum standandi þar sem hann er betri. Evans tekur þetta á stigum, sé ekki rothögg eða uppgjöf í spilunum.

3. Fight night 3, 29. nóvember: Vitor Belfort vs. Dan Henderson 2 (létt þungavigt)

Þessar goðsagnir mættust fyrst árið 2006 í Pride 32. Sá bardagi var líka í léttþungavigt en þá sigraði Henderson á stigum. Í þeim bardaga notaði Henderson glímuhæfileika sína til að stjórna Belfort á gólfinu og hann mun líklega þurfa að gera það sama núna til að vinna. Þá var Henderson á sigurbraut en Belfort hafði tapað 4 af síðustu 6 bardögum. Núna er þetta nánast öfugt.

Spá: Henderson er frábær glímumaður en er orðinn ástfanginn af yfirhandar hægri króknum sínum (H-bomb). Á móti Belfort er það slæm hugmynd. Hann mun sennilega reyna það en hætta við og nota glímuna. Vandamálið er að Belfort er betri að verjast slíkri árás en hann var í gamla daga eins og sást t.d. á móti Anthony Johnson. Belfort þreytir og sigrar Henderson.

Vitor-Belfort

2. Bellator 106, 2. nóvember: Michael Chandler vs. Eddie Alvarez 2 (léttvigt)

Fyrsti bardaginn á milli þessa kappa var einn besti bardagi undanfarinna ára (hann má sjá hér). Hann var eins og hvirfilvindur, fullkominn stormur eins og Looney Tunes teiknimynd. Þessi bardagi er talsvert öðruvísi en sá fyrsti að því leyti að nú er Chandler meistarinn og Alvarez er að koma til baka eftir mjög langa fjarveru.

Spá: Á pappír eru þessir menn mjög jafnir. Báðir myndu spjara sig vel í UFC en aðeins einn getur verið Bellator meistarinn. Chandler hefur litið hrikalega vel út undanfarið og Alvarez er búinn að vera of lengi frá. Ég held að Chandler klári hann aftur, segjum í annarri lotu.

alvarez_eddie

1. UFC 167, 16. nóvember: Georges St-Pierre vs. Johny Hendricks (veltivigt)  

Án efa mest spennandi bardagi nóvember mánaðar. Johny Hendricks hefur sigrað síðustu 6 bardaga sína og yfir það heila 10 af 11 bardögum sínum í UFC. Hann virðist hafa fullkominn stíl til að sigra St. Pierre, brjálæðislega höggþyngd og glímuhæfileika til að halda bardaganum standandi. Það er a.m.k. kenningin. St. Pierre hefur hingað til tekið niður að vild glímukappa á borð við Matt Hughes, Josh Koscheck og Jon Fitch. Þetta eru tveir bestu bardagamennirnir í veltivigt og allt gæti gerst.

Spá: Hendricks gæti rotað GSP líkt og hann gerði á móti Fitch og Kampmann en ég held að GSP sé of klókur til þess. Enginn notar hreyfingu, stungu, fellur og spörk eins og hann. Ég held að þetta verði annað meistarastykki frá meistaranum.

GSP

RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular