spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í ágúst 2017

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í ágúst 2017

Það er erfitt að fylgja eftir mánuði eins og júlí þar sem MMA hunang draup af hverju strái. Ágúst er einn versti mánuðurinn í langan tíma í MMA heiminum en segja má að allt sé steindautt. UFC verður með eitt lítið kvöld í Mexíkó, Bellator og Invicta FC verða líka með kvöld en það er lítið um stór nöfn.

Sá bardagi sem stendur upp úr er alls ekki MMA. Hnefaleikaviðureign Conor McGregor og Floyd Mayweather mun setja allt á hliðina og hreinlega eigna sér mánuðinn. Svo einfalt er það.

10. UFC Fight Night 114, 5. ágúst – Brad Scott gegn Jack Hermansson (millivigt)

Brad Scott er efnilegur Englendingur sem barðist við Robert Whittaker í úrslitum í The Ultimate Fighter Smashes þáttunum. Jack Hermansson er Svíi með þungar hendur. Þetta ætti að verða skemmtilegt.

Spá: Hermansson rotar Scott í fyrstu lotu.

9. UFC Fight Night 114, 5. ágúst – Martín Bravo gegn Humberto Bandenay (fjaðurvigt)

Martín Bravo er ósigraður og nokkuð spennandi bardagamaður frá Mexíkó. Hann mætir hinum 22 ára Humberto Bandenay frá Perú sem hefur unnið fimm bardaga í röð.

Spá: Bandenay sigrar með armlás í annarri lotu.

8. Invicta FC 25,  31. ágúst – Yana Kunitskaya gegn Raquel Pa´aluhi (bantamvigt kvenna)

Þessi bardagi er um laust belti í bantamvigt kvenna sem Tonya Evinger skildi eftir þegar hún ákvað að berjast við Cyborg í síðasta mánuði.

Spá: Kunitskaya sigrar á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

7. UFC Fight Night 114, 5. ágúst – Henry Briones gegn Rani Yahya (bantamvigt)

Það er alltaf gaman að sjá Rani Yahya berjast en hann er einn besti jiu-jitsu bardagamaðurinn í UFC. Yahya hefur átt ágætis feril í UFC en flestir sigrar hans hafa verið gegn minni spámönnum. Henry Briones er 36 ára Mexíkani með talsverða reynslu eftir 10 ára feril. Hann hefur tapað síðustu tveimur bardögum og verður því að finna svar við kæfandi glímustíl Yahya.

Spá: Yahya dregur Briones í gólfið og lætur hann líta illa út. Sigrar á stigum.

6. UFC Fight Night 114, 5. ágúst – Sam Alvey gegn Rashad Evans (millivigt)

Það er hálf sorglegt að horfa á gamla meistara berjast áfram þrátt fyrir að vera ekki mikið meira en skugginn af sjálfum sér. Fyrir stuttu sáum við B.J. Penn tapa fyrir Dennis Siver og nú er röðin komin aftur að Rashad Evans sem tapaði síðast fyrir Daniel Kelly. Tapi hann núna verður það fjórða tapið í röð.

Spá: Evans reynir sitt besta en verður rotaður í annarri lotu af „Smile´n” Sam Alvey.

5. UFC Fight Night 114, 5. ágúst – Dustin Ortiz gegn Hector Sandoval (fluguvigt)

Dustin Ortiz hefur tapað fjórum að síðustu sex bardögum sínum í UFC en hann er hins vegar talsvert betri en ferill hans gefur til kynna. Árið 2014 sigraði Ortiz t.d. Ray Borg sem skorar næst á Demetrious Johnson. Nú mætir hann Hector Sandoval sem æfir með Team Alpha Male og hefur unnið tvo af þremur bardögum sínum í UFC.

Spá: Ortiz notar glímuna og sigrar á stigum.

4. Bellator 182, 25. ágúst – Andrey Koreshkov gegn Chidi Njokuani (veltivigt)

Andrey Koreshkov tapaði í hans síðasta bardaga titilinum í veltivigt til Douglas Lima. Nú snýr hann aftur trítilóður gegn Chidi Njokuani sem hefur unnið alla sína fjóra bardaga í Bellator. Sigurvegarinn er líklegur til að skora á meistarann fljótlega, hvort sem það verður Lima eða Rory MacDonald.

Spá: Korsekov sigrar á rothöggi í fyrstu lotu.

3. UFC Fight Night 114, 5. ágúst – Randa Markos gegn Alexa Grasso (strávigt kvenna)

Hin unga Alexa Grasso frá Mexíkó átti að verða stjarna en tap gegn Felice Herrig í febrúar setti ákveðið spurningamerki við það. Hún hefur hins vegar enn mikinn tíma, enda aðeins 23 ára gömul. Næsta verkefni er hin seiga Randa Markos sem ætti að veita mælistiku á getu Grasso. Markos er sterk glímukona en í hennar síðasta bardaga sigraði hún fyrrum meistaranum, Cörlu Esparza.

Spá: Grasso þarf að upplifa sitt annað tap á ferlinum, Markos sigrar á stigum.

Alan Jouban
Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.

2. UFC Fight Night 114, 5. ágúst – Alan Jouban gegn Niko Price (veltivigt)

Hinn huggulegi Alan Jouban snýr aftur eftir tap gegn Gunnari Nelson fyrr á árinu. Jouban er efnilegur en aldurinn vinnur ekki með honum, orðinn 35 ára gamall. Ætli hann að koma sér í toppbaráttuna verður hann að sigra þann 5. ágúst. Niko Price er ekki mjög þekktur en hann er ungur, ósigraður og banhungraður American Top Team bardagamaður. Price hefur klárað alla sína andstæðinga nema einn og er því stórhættulegur.

Spá: Ég held með Jouban en hallast að Price, TKO í þriðju lotu.

1. UFC Fight Night 114, 5. ágúst – Sergio Pettis gegn Brandon Moreno (fluguvigt)

Hinn mexíkanski Brandon Moreno er smám saman að verða lítil stjarna í fluguvigtinni. Hinn 23 ára Moreno er með þrjú töp á ferlinum en þau komu öll árin 2011 og 2012. Síðan þá hefur ferill Moreno verið fullkominn að meðtöldum þremur flottum sigrum í UFC gegn Louis Smolka, Ryan Benoit og Dustin Ortiz. Á móti honum í búrinu verður litli bróðir Anthony Pettis, Sergio, sem er líka 23 ára. Pettis hefur tapað í UFC fyrir Alex Caceres og fyrrnefndum Ryan Benoit en hefur litið mjög vel út í hans síðustu þremur bardögum. Þetta er framtíðin í fluguvigt, hvor þeirra er betri á þessu stigi á ferlinum?

Spá: Moreno verður á heimavelli en það dugar ekki til. Pettis nýtir sér betri hraða og tækni og sigrar á stigum.

Heiðursbardagi, 26. ágúst – Conor McGregor gegn Floyd Mayweather Jr. (154 pund)

Þessi bardagi er ekki beint MMA en það er ekki hægt að líta alveg framhjá honum. Það hefur mikið verið fjallað um þennan risastóra viðburð á netmiðlum og svo sem ekki miklu hægt að bæta við. McGregor er stærsta stjarnan í MMA og það sama er hægt að segja um Mayweather í heimi hnefaleikanna. Þessi bardagi verður box svo allt verður Mayweather mikið í hag. Mayweather er varnarsnillingur sem hefur barist við alla þá bestu og útboxað þá alla. Aldur og fjarvera Mayweather frá íþróttinni er helsta von McGregor en hann hefur æskuna og faðmlengdina fram yfir boxarann. Það má deila um gildi bardagans og möguleika McGregor en eitt er víst að þetta verður rosaleg skemmtun.

Spá: McGregor mun ná inn einu og einu höggi snemma en það verður Mayweather sem sigrar þennan bardaga mjög örugglega á stigum.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular