spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í apríl 2019

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í apríl 2019

Apríl er alveg þokkalegur mánuður fyrir MMA hunda. Sólin er lágt á lofti en það glyttir í sumarið.

10. UFC 236, 13. apríl – Curtis Millender gegn Belal Muhammad (veltivigt)

Curtis Millender er upprennandi bardagamaður í veltivigtinni en eftir þrjá sigra í röð var hann tekinn í bakaríið af Elizeu Zaleski dos Santos. Millender var kominn á styrkleikalistann um skamma stund og er ekki langt frá topp 15 baráttunni. Hann tapaði í mars og vildi greinilega ólmur komast í annan bardaga sem fyrst Muhammad er alltaf skemmtilegur bardagamaður en hann vann fjóra bardaga í röð þar til hann tapaði fyrir Geoff Neal.

Spá: Millender er tæknilega betri bardagamaður og vinnur eftir dómaraákvörðun.

9. UFC on ESPN 3, 27. apríl – Greg Hardy gegn Dmitrii Smoliakov (þungavigt)

Greg Hardy tilraunin heldur áfram. Gaurinn er efnilegur en hann skeit á sig síðast með ólöglegu hné og tapaði. Hér er hann settur aftur í næstsíðasta bardaga kvöldsins gegn óþekktum náunga sem hann ætti að geta unnið. Andstæðingurinn tapaði báðum bardögum sínum í UFC gegn ómerkilegum andstæðingum en sigur gegn 8-8 andstæðingi í Kalíngrad var nóg til að sannfæra UFC um að sækja hann aftur. Eða í það minnsta nóg til að vera fallbyssufóður fyrir Hardy. Látum reyna á þetta.

Spá: Þetta heppnast að þessu sinni. Hardy rotar Smoliakov í fyrstu lotu.

8. UFC 236, 13. apríl – Wilson Reis gegn Alexandre Pantoja (fluguvigt)

Hér mætast tveir topp fimm bardagakappar í fluguvigt. Pantoja er einn af þeim fáu í toppbaráttunni sem fékk aldrei að mæta Demetrious Johnson. Toppbaráttan er þó mjög óljós í þyngdarflokknum þar sem meistarinn berst næst í bantamvigt. Næstir í röðinni ættu að vera Joseph Benavidez og Jussier Formiga en hver veit hvað gerist.

Spá: Reis notar glímuna og sigrar á stigum.

7. UFC on ESPN 3, 27. apríl – Glover Teixeira gegn Ion Cuțelaba (léttþungavigt)

Þessi bardagi myndi passa vel inn í blóðuga Conan bíómynd. Glover myndi vera með ljónaskinn á bakinu og Cutelaba með grænu andlitsmálninguna og gaddahanska. Glover er að verða gamall en þetta virðist virðist vera hæfilegur bardagi fyrir hann.

Spá: Teixeira sigrar með uppgjafartaki í annarri lotu.

6. UFC on ESPN 3, 27. apríl – John Lineker gegn Cory Sandhagen (bantamvigt)

John Lineker er „must see TV“. Hér tekst hann á við Cory Sandhagen sem er búinn að klára síðustu fimm andstæðinga sína, þar af þrjá í UFC. Lineker er ekkert grín og ef hann er hliðarvörður myndi ég bara koma aftur næsta dag. Þetta verða átök.

Spá: Höggin munu fljúga, haka Lineker heldur, Lineker sigrar, TKO í fyrstu lotu.

5. UFC 236, 13. apríl – Ovince Saint Preux gegn Nikita Krylov (léttþungavigt)

Hinn stórskemmtilegi Nikita Krylov snýr aftur í apríl en hann hefur aldrei séð skorspjöld dómaranna í 30 MMA bardögum. Í þetta skipti mætir hann OSP sem náði honum í sitt fræga „Von Flue choke“ þegar þeir mættust fyrst árið 2014. Verður þetta endurtekning eða eitthvað allt annað?

Spá: OSP sigrar með uppgjafartaki í fyrstu lotu, þó ekki „Von Flue“ í þetta skipti.

4. UFC fight night 149, 20. apríl – Alexey Oleynik gegn Alistair Overeem (þungavigt)

Þessi bardagi verður aðalbardaginn á öðru bardagakvöldi UFC í Rússlandi. Upphaflega átti Overeem að mæta Alexander Volkov en hann þurfti að draga sig í hlé eftir að USADA greip í taumana svo Oleynik tók þennan bardaga með stuttum fyrirvara. Overeem þarf ekki að kynna en Oleynik er fyrst og fremst þekktur fyrir „Ezekiel choke“ uppgjafartakið sem hann hefur náð margoft á ferlinum.

Spá: Overeem nær að forðast uppgjafartökin og sigrar með tæknilegu rothöggi í fjórðu lotu.

3. Bellator 220, 27. apríl – Rory MacDonald gegn Jon Fitch (veltivigt)

Veltivigtarmót Bellator heldur áfram með þessum UFC-lega bardaga á milli Rory MacDonald og Jon Fitch. Sigurvegarinn mætir Neiman Gracie og sigurvegarinn af þeim bardaga mætir sigurvegaranum af Douglas Lima og Michael Page bardaganum sem fram fer 11. maí. Fitch er 41 árs en hann er búinn að vinna fimm bardaga í röð, á hann séns í Rory?

Spá: Svarið er nei, MacDonald sigrar á stigum.

 

2. UFC 236, 13. apríl – Kelvin Gastelum gegn Israel Adesanya (millivigt)

Hér verður barist um bráðabirgðarbelti og auðvitað réttinn til að mæta Robert Whittaker. Adesanya er nýstirnið en hann hefur farið mjög hratt upp listann, kannski of hratt. Gastelum er vinnuhesturinn sem átti kannski aldrei að komast svona langt en hann skal ekki vanmeta. Kannski fáum við endurtekningu á Gastelum gegn Hall bardaganum og kannski sýnir Adesanya okkur framtíðina, verður spennandi að sjá.

Spá: Gastelum mun berjast hetjulega en Adesanya sigrar með tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

1. UFC 236, 13. apríl – Max Holloway gegn Dustin Poirier (léttvigt)

Dustin Poirier var fyrsti andstæðingur Max Holloway í UFC árið 2012. Poirier sigraði þá örugglega með uppgjafartaki í fyrstu lotu en margt hefur breyst síðan þá. Holloway hefur undanfarin ár fest sig í sessi sem einn besta bardagamann allra tíma í fjaðurvigt. Á sama tíma hefur Poirier haldið sig í léttvigt, staðið sig frábærlega en aldrei áður komist í titilbardaga. Þeir berjast hér um bráðabirgðarbelt í léttvigt sem er algjört bull en sigurvegarinn gæti hugsanlega mögulega fengið bardaga gegn Khabib í haust.

Spá: Holloway útboxar Poirier og sigrar á stigum.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular