spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í febrúar 2019

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í febrúar 2019

Febrúar er frábær mánuður fyrir harða MMA aðdáendur. Það er lítið um súperstjörnur, bara góðir bardagar og nóg af þeim.

10. UFC on ESPN 17. febrúar – Alex Caceres gegn Kron Gracie (fjaðurvigt)

Kron Gracie er sonur Rickson Gracie og þar með afabarn sjálfs Helio Gracie. Með þessari sögu fylgja innbyggðar væntingar en hingað til hefur Kron staðið vel undir þeim og klárað fyrstu fjóra andstæðinga sína í MMA með uppgjafartaki. Nú er hann hins vegar kominn í djúpu laugina í UFC en Alex Caceres virðist fullkomið próf á þessum tímapunkti. Spurningin er hvort þetta sé of fljótt?

Spá: Þetta verður barningur en Kron nælir sér í uppgjafartak í annarri lotu og sigrar.

9. UFC Fight Night 144, 2. febrúar – Demian Maia gegn Lyman Good (veltivigt)

Demian Maia hefur farið í gegnum erfitt tímabil upp á síðkastið, þrjú töp í röð, þó gegn þremur bestu mönnunum í þyngdarflokknum þessa stundina (Woodley, Covington og Usman). Good er…góður bardagakappi sem barðist lengi utan UFC og hefur litið vel út upp á síðkastið. Í gegnum Bellator feril hans stóð hann sig vel en tapaði alltaf stóru bardögunum. Mun sú saga halda áfram gegn Maia?

Spá: Hinn 41 árs gamli Maia minnir á sig með fallegu uppgjafartaki í fyrstu lotu.

8. UFC on ESPN 17. febrúar – James Vick gegn Paul Felder (léttvigt)

James Vick hefur tvisvar verið rotaður í fyrstu lotu en í öllum hinum bardögunum hans (13) hefur hann sigrað. Paul Felder hefur átt góðan en frekar sveiflukenndan feril en hér er hann kominn aftur niður í léttvigt eftir smá tilraun á móti Mike Perry í júlí. Felder er grótharður og alltaf skemmtilegur á að horfa.

Spá: Felder rotar Vick í annarri lotu.

7. UFC on ESPN 17. febrúar – Jimmie Rivera gegn Aljamain Sterling (bantamvigt)

Aljamin Sterling er stöðugt að bæta sig. Síðustsu tveir sigrar gegn Brett Johns og Cody Stamann voru mjög sannfærandi. Nú mætir hann Jimmie Rivera sem hefur bara tapað fyrir Marlon Moraes í sjö UFC bardögum. Sá sem sigrar er kominn í góða stöðu í topp fimm en þarf sennilega að bíða eftir titilbardaga í þétt setnum þyngdarflokki.

Spá: Aljo „Funk master“ Sterling sigrar á uppgjafartaki í 2. lotu.

6. UFC Fight Night 144, 2. febrúar – Raphael Assunção gegn Marlon Moraes (bantamvigt)

Enginn hefur náð að sigra Marlon Moraes síðan 2011 nema Raphael Assunção. Nú þarf hann gera það aftur þar sem hann virðist ómögulega geta fengið titilbardaga í UFC þrátt fyrir brjálaða velgengni. Þetta verður mjög áhugavert og sem betur fer verða þetta fimm lotur.

Spá: Moraes hefnir fyrir tapið og sigrar á TKO í fjórðu lotu.

5. UFC Fight Night 144, 2. febrúar – José Aldo gegn Renato Moicano (fjaðurvigt)

Þessi getur ekki klikkað. Renato Moicano ætti að geta tryggt sér titilbardaga með sigri á José Aldo en það er auðvitað alls ekki gefið. Stíll beggja ætti að bjóða upp á skemmtilegan kickbox bardaga. Ég er að sjá fyrir mér eitthvað eins og Edson Barboza og Dan Hooker en held að þetta endi ekki eins.

Spá: Moicano útboxar Aldo og sigrar á stigum.

4. Bellator 216, 16. febrúar – Michael Page gegn Paul Daley (veltivigt)

Michael Page er ósigraður í 13 bardögum en fyrst núna fáum við að sjá hversu góður hann er. Þessi bardagi er liður í veltivigtarmóti Bellator svo það er mikið í húfi. Paul Daley er höggþungur reynslubolti og fullkomið próf fyrir Page. Sigurvegarinn mætir Douglas Lima.

Spá: Page rotar Daley í fjörugri fyrstu lotu.

3. UFC 234, 10. febrúar – Israel Adesanya gegn Anderson Silva (millvigt)

Þetta gæti orðið algjör snilld eða hræðileg mistök. Báðir þessir kappar eru snillingar en Anderson Silva er orðinn helvíti gamall og ég veit ekki með að setja hann á móti ósigruðu undri eins og „The Last Stylebender“. Hluti af mér segir stoppið þetta brjálæði en svo er líka annar hluti sem getur ekki beðið.

Spá: Adesanya sigrar, vonandi bara á stigum.

2. UFC on ESPN 17. febrúar – Francis Ngannou gegn Cain Velasquez (þungavigt)

Loksins er komið að endurkomu Cain Velasquez. Þetta er maðurinn sem átti að drottna yfir þungavigt árum saman en raunin hefur verið önnur. Hann fær heldur betur hættulegan andstæðing en Francis Ngannou er mögulega höggþyngsti maður sem hann hefur mætt. Það er líklegt að annar muni valta yfir hinn en hvort verður það æskan og höggþyngdin eða reynslan og glíman sem ræður för?

Spá: Cain minnir á sig með afgerandi sigri, TKO í fjórðu lotu.

1. UFC 234, 10. febrúar – Robert Whittaker gegn Kelvin Gastelum (millivigt)

Robert Whittaker hefur ekki tapað síðan hann barðist við Stephen Thompson árið 2014 í veltivigt. Síðan þá hefur hann unnið níu bardaga í röð, unnið og haldið titlinum í millivigt og hann er enn bara 28 ára gamall. Kelvin Gastelum er næsti áskorandi þrátt fyrir að hafa tapað fyrir Chris Weidman árið 2017. Vandræðagangur í millivigt hjálpaði aðeins til en hann átti mjög góða sigra gegn Michael Bisping og Jacare Souze og verðskuldar þetta tækifæri.

Spá: Whittaker sigrar á stigum og heldur titlinum.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular