Friday, April 26, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Assuncao vs. Moraes

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Assuncao vs. Moraes

UFC er með mjög skemmtilegt bardagakvöld í Brasilíu annað kvöld. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Raphael Assuncao og Marlon Moraes en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagakvöldið.

UFC heimsækir Fortaleza í Brasilíu í þriðja sinn á morgun. Talað var um að færa bardagakvöldið þar sem mikið ofbeldi hefur ríkt á svæðinu að undanförnu. Um 400 handtökur áttu sér stað á fyrstu tveimur vikum ársins en UFC ákvað að halda bardagakvöldinu í Fortaleza.

Titilbardagi í vændum

Í aðalbadaga kvöldsins mætast þeir Marlon Moraes og Raphael Assuncao. Þetta er í annað sinn sem þeir mætast en fyrri bardaginn var ekkert sérstaklega skemmtilegur. Það var fyrsti bardagi Moraes í UFC og endaði Assuncao á að vinna eftir klofna dómaraákvörðun. Síðan þá hefur Moraes unnið þrjá bardaga í röð og stöðugt litið betur út í hverjum bardaga. Assuncao hefur alla tíð átt erfitt með að fá stóra bardaga þrátt fyrir að hafa unnið 11 af síðustu 12 bardögum sínum þar sem hans eina tap kom gegn T.J. Dillashaw. Sigurvegarinn hér fær sennilega titilbardaga en vonandi bjóða þeir upp á fimm lotu skemmtun.

Jose Aldo á lokametrunum

Jose Aldo sagði á dögunum að hann ætli sér að leggja hanskana á hilluna þegar hann klárar þá þrjá bardaga sem hann á eftir af núgildandi samningi. Aldo ætlar að berjast þessa þrjá bardaga á þessu ári og er hann því á lokametrunum á ótrúlegum ferli. Hann er samt bara 32 ára gamall og sýndi lipra takta gegn Jeremy Stephens síðast þegar hann barðist. Á morgun mætir hann Renato Moicano sem er á góðri siglingu. Sigri Moicano fær hann sennilegast titilbardaga gegn Max Holloway en það sama gildir ekki um Aldo enda hefur hann þegar tapað tvisvar fyrir núverandi meistara. Þetta ætti að verða hörku bardagi sem mun engan svíka.

Kemst Demian Maia aftur á sigurbraut?

Demian Maia hefur verið í brasi að undanförnu og tapað þremur bardögum í röð. Er það vegna þess að hann var að mæta þremur bestu mönnunum í veltivigtinni (Tyron Woodley, Colby Covington og Kamaru Usman) eða er farið að hægjast verulega á honum? Það ætti að koma betur í ljós á morgun þegar hann mætir Lyman Good. Good hefur bara barist þrjá bardaga á síðustu fjórum árum en síðast sáum við hann rota Ben Saunders eftir aðeins 33 sekúndur í nóvember. Fáum við að sjá Maia sýna snilli sína enn einu sinni eða stimplar Good sig vel inn í veltivigtina?

Ungstirni í léttþungavigt

Það þrá allir að sjá léttþungavigtina fá unga og spennandi bardagamenn. Hinn 26 ára gamli Johnny Walker gæti verið slíkur en hann átti góða frumraun í UFC í nóvember. Þrátt fyrir að bera nafn eins og skoskt viskí er Walker brasilískur og verður því á heimavelli gegn Justin Ledet. Walker er skemmtilegur karakter og hefur sýnt skemmtilega takta í búrinu.

Ekki gleyma

Það er talsvert um góða bardaga á bardagakvöldinu en það er ekki alltaf þannig á þessum brasilísku minni bardagakvöldum. Enginn er með fleiri sigra eftir uppgjafartök en Charles Oliviera en hann mætir David Teymur og ætti það að verða hörku bardagi í léttvigtinni. Thiago Alves hefur átt erfitt undanfarið en hann mætir Max Griffin og má vænta þess að það verði skemmtilegur bardagi í veltivigtinni. Fyrrum strávigtarmeistari Invicta, Livia Renata Souza, átti góða frumraun í UFC og mætir hún Sarah Frota á morgun en Frota var 3 kg of þung í viguninni í dag.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 22 en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 1 á Stöð 2 Sport.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular