spot_img
Friday, January 3, 2025
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í febrúar 2020

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í febrúar 2020

Það er strax kominn febrúar en það er eins og jólin hafi verið í gær. Það er ýmislegt spennandi um að vera þennan mánuðinn en eitt stendur upp úr og það er Jon Jones. Er komið að því að hann tapi titlinum?

10. UFC Fight Night 169, 29. febrúar – Ion Cuțelaba gegn Magomed Ankalaev (léttþungavigt)

Ankalaev er nokkuð spennandi nýliði í UFC frá Rússlandi. Hann er 27 ára með ferilinn 13-1 og hefur núna unnið þrjá í röð í UFC, tvo með rothöggi. Hann fær hér erfitt próf gegn hellisbúanum Ion Cutelaba sem rotaði Khalil Rountree í hans síðasta bardaga.

Spá: Ankalaev sigrar, TKO í annarri lotu.

9. UFC 247, 8. febrúar – Mirsad Bektić gegn Dan Ige (fjaðurvigt)

Dan Ige er ekki mjög þekktur en hann er búinn að vera hrikalega flottur upp á síðkastið og er með fjóra sigra í röð. Fjaðurvigt er einn þéttasti þyngdarflokkurinn svo það verður erfitt að vinna sig upp. Bektić er ekki í topp 15 en hann er ferlega góður svo þetta verður mjög áhugavert.

Spá: Ige kemst í gegnum prófið, sigrar með uppgjafartaki í fyrstu lotu.

8. UFC 247, 8. febrúar – Jimmie Rivera gegn Marlon Vera (bantamvigt)

Marlon Vera er orðin smá stjarna í Ekvador og gæti orðið stjarna Vestanhafs ef hann heldur áfram að vinna. Vera er búinn að klára fimm andstæðinga í röð en mætir nú grjóthörðum gæja. Rivera er kannski ekki að vinna alla bardagana sína en hann er mjög erfiður fyrir hvern sem er. Hann hefur tapað tveimur í röð en fór þá þrjár lotur með bæði Petr Jan og Aljamain Sterling. Ef Vera kemst í gegnum Rivera ætti hann að skjótast upp í topp tíu.

Spá: Rivera verður of erfiður fyrir Vera. Rivera sigrar á stigum.

7. UFC 247, 8. febrúar – Derrick Lewis gegn Ilir Latifi (þungavigt)

Þetta er furðulegur bardagi sem sennilega enginn bjóst við. Svíinn stutti og þykki hefur alla tíð barist í léttþungavigt svo þetta var frekar óvænt. Derrick Lewis er erfið frumraun í þungavigt en vonandi mæta báðir í góðu formi svo við fáum fjöruga viðureign.

Spá: Lewis rotar Latifi í þriðju lotu.

6. UFC Fight Night 167, 15. febrúar – Corey Anderson gegn Jan Błachowicz (léttþungavigt)

Corey Anderson er á góðri siglingu þessa dagana – búinn að vinna fjóra í röð og farinn að biðja um titilbardaga. Hann þarf hins vegar að komast í gegnum hinn seiga Jan Blachowicz fyrst eða komast í gegnum hann aftur. Þessir kappar mættust fyrst árið 2015 þar sem Anderson sigraði á stigum, ætli eitthvað hafi breyst síðan þá?

Spá: Báðir eru sennilega orðnir betri en ég held að niðurstaðan verði sú sama. Anderson á stigum.

5. UFC Fight Night 167, 15. febrúar – Diego Sanchez gegn Michel Pereira (veltivigt)

Þessi bardagi er snar klikkaður, ég veit ekki hverju við eigum að búast við en það verður sennilega skemmtilegt. Pereira barðist eins og fífl í hans síðasta bardaga en hann er greinilega hæfileikaríkur engu að síður. Sanchez er orðinn frekar gamall og slitinn en hann er ennþá góður glímumaður og ef hann lifir af fyrstu lotuna gegn Peirara gæti þetta orðið áhugavert.

Spá: Pereira rotar Sanchez í fyrstu lotu með fljúgandi bakflipps þyrlu sparki.

4. UFC 247, 8. febrúar – Valentina Shevchenko gegn Katlyn Chookagian (fluguvigt kvenna)

Valentina heldur áfram titilvörnum í fluguvigt kvenna. Hingað til hefur hún virkað gjörsamlega óstöðvandi en ætli það sé nokkuð að fara að breytast? Katlyn Chookagian er góð en það verður að teljast mjög ólíklegt að hún geti ógnað Bullet. Stílar þessara kvenna eru þannig að það er hætta á leiðinlegum bardaga þar sem lítið gerist en vonum það besta.

Spá: Valentina tekur þetta örugglega, TKO í þriðju.

3. UFC Fight Night 169, 29. febrúar – Joseph Benavidez gegn Deiveson Figueiredo (fluguvigt)

Þar sem Henry Cejudo lét frá sér beltið í fluguvigt fá þeir næstu í röðinni tækifæri til að grípa það. Að vísu er Jussier Formiga númer tvö á lista en hvað um það, hann tapaði fyrir Benavidez í júní. Augu allra eru núna á Joseph Benavidez. Árum saman er hann búinn að vera næst besti gaurinn í þyngdarflokknum og þetta er hans stóra tækifæri að verða loksins meistari.

Spá: Figueiredo er góður en þetta er stund Benavidez. Hann rotar Figureido í annarri lotu.

2. UFC Fight Night 168, 23. febrúar – Paul Felder gegn Dan Hooker (léttvigt)

Loksins fær Paul Felder að taka þátt í aðalbardaga UFC bardagakvölds. Hér mætir hann Dan Hooker í Nýja-Sjálandi í hrikalega spennandi fimm lotu bardaga. Báðir eru þekktir fyrir skemmtilega standandi bardaga og frábæra tækni. Ég býst því við standandi stríði sem mun reyna á báða. Megi sá harðari vinna.

Spá: Felder er frábær en Hooker er minn maður. Hooker sigrar á stigum.

1. UFC 247, 8. febrúar – Jon Jones gegn Dominick Reyes (léttþungavigt)

Það er alltaf gaman að fá Jon Jones aftur í búrið. Hann er ennþá besti bardagamaður í heimi og í raun enn ósigraður. Að því sögðu þá hafa síðustu tveir bardagar hans ekki verið hans bestu frammistöður sem vekur spurningar hvort hann sé farinn að dala. Ef það er raunin gæti þetta orðið mjög áhugavert næsta laugardagaskvöld þar sem andstæðingurinn er stórhættulegur. Dominick Reyes er stór, ungur, ósigraður og spólgraður bardagakappi sem hefur rotað menn eins og Jared Cannonier og Chris Weidman. Ef einhver getur unnið Jones er Reyes ekki ólíklegur. Kannski verður þetta sögulegt kvöld.

Spá: Það er erfitt að spá á móti Bones. Segjum að Jones taki þetta á stigum.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular