spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í júní 2018

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í júní 2018

Júní mánuður snýst nánast eingöngu um einn viðburð, UFC 225 í Chicago. Kvöldið er drekkhlaðið af spennandi bardögum og auðvitað titilbardaga í millivigt. En nei, CM Punk komst ekki á listann.

10. UFC 225, 9. júní – Joseph Benavidez gegn Sergio Pettis (fluguvigt)

Það er til marks um hversu frábært bardagakvöld UFC 225 er að gullmoli eins og þessi bardagi leynist snemma um kvöldið og mun sennilega fá litla athygli. Þennan bardaga má líta á sem aðra tilraun Sergio Pettis til að skora á einn af þeim allra bestu. Hann tapaði fyrir Henry Cejudo í desember og mætir nú manni sem sigrar alla nema ríkjandi meistara, Joseph Benavidez.

Spá: Benavidez heldur uppteknum hætti og sigrar Pettis á stigum.

9. UFC 225, 9. júní – Ricardo Lamas gegn Mirsad Bektić (fjaðurvigt)

Á rosalegu bardagakvöldi gæti þessi orðið bardagi kvöldsins. Ricardo Lamas þarf ekki að kynna en Bosníubúinn Mirsad Bektić er minna þekktur. Bektić er mjög hæfileikaríkur bardagakappi sem væri ósigraður ef Darren Elkins hefði ekki náð að sigra hann á ótrúlegan hátt í fyrra.

Spá: Þetta verður stríð en Lamas hefur yfirhöndina og sigrar á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

8. UFC 225, 9. júní – Holly Holm gegn Megan Anderson (fjaðurvigt kvenna)

Loksins fær Invicta meistarinn Megan Anderson að berjast í UFC en hún fær ekki blíðlegar móttökur. Holly Holm er ekkert grín þrátt fyrir fjögur töp í fimm síðustu bardögum. Hún þarf nauðsynlega á sigri að halda á meðan Anderson vill koma inn með látum og sigra fyrrverandi meistara.

Spá: Holm nýtir sér gagnhöggin og sigrar á stigum.

7. UFC 225, 9. júní – Cláudia Gadelha gegn Carla Esparza (strávigt kvenna)

Carla Esparza var fyrsti meistarinn í strávigt kvenna en var hálfpartinn afskrifuð eftir töp gegn Joanna Jędrzejczyk og Randa Markos. Hún hefur hins vegar komið sterk til baka og sigraði til að mynda Cynthiu Calvillo í hennar síðasta bardaga. Claudia Gadelha er óumdeilt ein sú besta í þyngdarflokknum en mátti þola erfitt tap gegn Jessica Andrade í hennar síðasta bardaga. Önnur heldur áfram á sömu vegferð á meðan önnur tekur U beygju á ferlinum.

Spá: Gadelha sigrar á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

6. UFC Fight Night 132, 23. júní – Donald Cerrone gegn Leon Edwards (veltivigt)

Líkt og Demian Maia er Donald Cerrone orðinn hliðvörður í veltivigt. Það eru óumflýjanleg örlög margra bardagamanna þegar aldurinn færist yfir og eðlilegur hluti af hringrás lífsins. Leon Edwards hefur unnið fimm bardaga í röð og hefur beðið eftir svona tækifæri. Cerrone er sýnd veiði en alls ekki gefin eins og margir hafa brennt sig á, en hversu oft getur hann unnið sig upp aftur eftir slæm töp?

Spá: Edwards rotar Cerrone í annarri lotu.

5. UFC 225, 9. júní – Andrei Arlovski gegn Tai Tuivasa (þungavigt)

Hinn 25 ára Tai Tuivasa hefur litið frábærlega út í tveimur UFC bardögum en hér fær hann virkilega erfitt verkefni gegn fyrrverandi meistara. Bardaginn er liður í endurnýjun í þungavigt sem undanfarin tvö ár hefur breytt ásýnd þyngdarflokksins til muna. Nær Tuivasa að standast prófið og bætast í röð manna eins og Curtis Blaydes, Francis Ngannou og Derrick Lewis eða þarf hann meiri tíma til að þróast?

Spá: Tuivasa rotar Arlovski í fyrstu lotu og hefur innrás sína í toppbáráttuna í þungavigt.

4. UFC Fight Night 131, 1. júní – Jimmie Rivera gegn Marlon Moraes (bantamvigt)

Cody Garbrandt og T.J. Dillashaw berjast í ágúst en sigurvegarinn mun af öllum líkindum mæta sigurvegaranum úr þessum bardaga í árslok. Jimmie Rivera gæti verið vanmetnasti bardagamaðurinn í UFC. Hann hefur ekki tapað í 10 ár og hefur sigrað menn á borð við Urijah Faber og Thomas Almeida. Þessi bardagi gegn Moraes ætti að segja okkur hvort hann eigi erindi í meistarann.

Spá: Rivera sigrar á stigum.

3. UFC 225, 9. júní – Alistair Overeem gegn Curtis Blaydes (þungavigt)+

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að þetta sé upphitunarbardagi á meðan CM Punk er á aðalhluta bardagakvöldsins. Þessir tveir risar eru báðir á topp fimm á styrkleikalista UFC en sigur fyrir Blaydes hefði sérstaklega mikla þýðingu og gæti skilað honum titilbardaga.

Spá: Ein bomba gæti breytt öllu en ég held að reynsla Overeem skili honum sigri á stigum.

2. UFC 225, 9. júní – Rafael dos Anjos gegn Colby Covington (veltivigt)

Þetta er heillandi bardagi sem gæti endað nánast hvernig sem er. Báðir eru sterkir glímumenn með ólíkan bakgrunn. Rafael dos Anjos ætti að vera betri standandi en það er erfitt að gleyma hvernig hann fór með Anthony Pettis. Colby Covington ætti sennilega að reyna að draga bardagann í gólfið en getur hann gert það sem Khabib Nurmagomedov tókst að gera gegn RDA?

Spá: RDA heldur bardaganum standandi og sigrar á stigum.

1. UFC 225, 9. júní – Robert Whittaker gegn Yoel Romero (millivigt)

Robert Whittaker hefur ekki barist síðan hann sigraði Yoel Romero fyrir tæpu ári síðan og nældi sér í bráðabirgðarbeltið sem síðar varð alvöru beltið í millivigt þegar Georges St. Pierre ákvað að taka sér aðra pásu. Í millitíðinni barðist Romero einu sinni en hann rotaði Luke Rockhold eftirminnilega í febrúar. Nú er spurningin hvor er ferskari, miklu yngri maðurinn sem snýr aftur eftir langa fjarveru og meiðsli eða miklu eldri en virkari maðurinn?

Spá: Whittaker sigrar aftur, að þessu sinni nær hann að klára Romero á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular