September mánuður er mættur á svæðið með kólnandi veðri og vindum. Það verður ýmislegt áhugavert um að vera í MMA heiminum, þá fyrst og fremst titilbardagi í veltivigt í UFC sem verður mjög spennandi og svo skemmtilegt Bellator kvöld í lok mánaðarins.
10. UFC 228, 8. september – Zabit Magomedsharipov gegn Brandon Davis (fjaðurvigt)
Byrjum þetta á heitasta nýliðanum í dag, Zabit Magomedsharipov. Því miður varð frábær bardagi gegn Yair Rodriguez ekki að veruleika en við fáum samt sem áður að sjá Zabit. Gefum Brandon Davis prik fyrir hugrekki en það eru eflaust ekki margir sem hefðu tekið þennan bardaga með stuttum fyrirvara. Davis á kannski ekki mikla möguleika (á pappír) en hann er samt harður nagli sem á eftir að gefa allt í þetta. Kannski kemur Davis á óvart.
Spá: Magomedsharipov þarf aðeins að hafa fyrir þessu en heldur sýningu og sigrar örugglega á stigum.
9. UFC Fight Night 136, 15. september – Mark Hunt gegn Oleksiy Oliynyk (þungavigt)
Mark Hunt er orðinn 44 ára gamall en það er alltaf gaman að horfa á hann berjast. Hann hefði virkilega gott af sigri á þessum tímapunkti og fær hér andstæðing sem er seigur en hann ætti að sigra. Þó ætti ekki að vanmeta hinn 41 árs Oliynyk frá Úkraínu. Hann er þekktastur fyrir Ezekiel uppgjafartökin en hann hefur afgreitt tvo af síðustu fjórum andstæðingum með því taki.
Spá: Hunt rotar Oliynyk í annarri lotu.
8. UFC 228, 8. september – Carla Esparza gegn Tatiana Suarez (strávigt kvenna)
Tatiana Suarez er nokkuð óreynd með aðeins sex bardaga á bakinu. Hún lítur þó út eins og framtíðar meistari svo það verður mjög áhugavert að sjá hvað hún getur gert á móti fyrrverandi meistara. Carla Esparza varð fyrsti meistarinn í strávigt kvenna og sigraði núverandi meistara Rose Namajunas. Margir muna eftir slæmu tapi hennar fyrir Joanna Jędrzejczyk en síðan það kvöld hefur Esparza bætt sig mikið. Hún vann t.d. hina efnilegu Cynthia Calvillo í desember en þurfti að sætta sig við naumt tap gegn Cláudia Gadelha í júní. Esparza ætti að verða gott próf fyrir Suarez og ætti að segja okkur hvort hún sé tilbúin í þær bestu.
Spá: Suarez tekur þetta á uppgjafartaki í annarri lotu.
7. UFC 228, 8. september – Jéssica Andrade gegn Karolina Kowalkiewicz (strávigt kvenna)
Það er enginn skortur á hörðum bardagakonum í strávigt kvenna en hér mætast tvær af þeim bestu. Sigurvegarinn hér gæti hæglega fengið titilbardaga, minnum á að Kowalkiewicz var sú síðasta sem sigraði ríkjandi meistara Rose Namajunas. Þetta gæti orðið mjög áhugavert.
Spá: Andrade beitir mikilli pressu og fléttum sem skilar henni tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.
6. UFC 228, 8. september – Aljamain Sterling gegn Cody Stamann (bantamvigt)
Lærisveinn Matt Serra og Ray Longo, Aljamain Sterling, heldur sínu ferðalagi áfram í september. Ungi maðurinn hefur farið í gegnum svolitla rússíbanareið á ferlinum en er að þróast í átt að þeim allra bestu. Hér mætir hann öðrum ungum á uppleið en Cody Stamman hefur ekki enn tapað í UFC. Þessi bardagi gæti varpað sigurvegaranum í toppbaráttuna svo um þýðingarmikla viðureign er að ræða.
Spá: Erfitt að segja, skjótum á „Funk Master“ Sterling á stigum.
5. UFC Fight Night 137, 22. september – Jimi Manuwa gegn Thiago Santos (léttþungavigt)
Hér er á ferðinni bardagi sem nánast gulltryggir rothögg. Báðir þessi jötnar eru höggþungir og ekki feimnir við að slá. Fyrir Santos er þetta risavaxið tækifæri þar sem hann fer upp um þyngdarflokk og beint í mann númer fimm á lista. Kannski verður þetta upphafið af einhverju nýju hjá Santos eða kannski verður hann rekinn strax aftur niður í millivigt.
Spá: Manuwa rotar Santos í fyrstu lotu.
4. UFC 228, 8. september – Nicco Montaño gegn Valentina Shevchenko (fluguvigt kvenna)
Það eru ekki margir sem gefa Nicco Montaño mikla möguleika í þessum bardaga. Sennilega hefur ríkjandi meistari aldrei verið talinn jafn ólíklegur til sigurs en það er ekki þar með sagt að Montaño sé léleg. Ástæðan er frekar sú að Valentina Shevchenko þykir svo góð í samanburði við allar hinar í fluguvigt kvenna að sigur hennar telst fyrirfram gefinn. MMA er hins vegar klikkað sport og eitt er víst að ekkert er öruggt. Munu MMA guðirnir leyfa Shevchenko að taka beltið?
Spá: Valentina Shevchenko valtar yfir Montaño, TKO í fyrstu lotu.
3. Bellator 206, 29. september – Douglas Lima gegn Andrey Koreshkov (veltivigt)
Hér mætast í þriðja sinn tveir af þeim bestu og vanmetnustu í veltivigt. Hér hefst fyrsta umferðin í stóra veltivigtarmóti Bellator og því mikið í húfi. Koreshkov vann fyrsta bardagann á stigum árið 2015, Lima rotaði svo Korsehkov árð 2016. Það er ekki oft sem við fáum „rubber match“ bardaga og hvað þá áður en menn verða gamlir og lúnir *hóstLiddellvsOrtiz3hóst*.
Spá: Lima sigrar aftur, rothögg í annarri lotu.
2. Bellator 206, 29. september – Gegard Mousasi gegn Rory MacDonald (millivigt)
Það áttu kannski ekki margir von á að þessi bardagi yrði að veruleika, kannski sérstaklega þar sem Rory MacDonald er með næg verkefni framundan í veltivigt. Báðir þessir kappar eru mjög færir í sinni iðju svo það má búast við mjög tæknilegum bardaga. Ég held að stærðin muni spila inn í þetta en þar hallar auðvitað á MacDonald. Þetta er mjög áhugaverð viðureign og sigur væri sérstaklega þýðingarmikill fyrir MacDonald.
Spá: Mousasi tekur þetta á stigum.
1. UFC 228, 8. september – Tyron Woodley gegn Darren Till (veltivigt)
Þetta er bardagi sem Colby Covington hefði átt að fá en ef litið er framhjá því verður að viðurkennast að Woodley gegn Till er heillandi bardagi. Ef Till vinnur mun það blása nýju lífi í þyngdarflokk sem hefur aðeins staðnað í valdatíð Tyron Woodley. Bardagar Woodley hafa einfaldlega ekki verið nógu skemmtilegir og það er allt of langt á milli þeirra. Þetta er bardagi þar sem nánast allt getur gerst. Við gætum fengið rothögg frá öðrum hvorum, fjörugt stríð eða drepleiðinlega skák.
Spá: Till ætlar sér að vinna en Woodley virðist alltaf finna leið til sigurs. Þar til það breytist spái ég Woodley sigri á stigum.