Helgina 3. til 4. maí fer fram Copenhagen Open í Danmörku. Keppt er bæði í gi og nogi en um 15 Íslendingar taka þátt á mótinu. 7 af þeim taka einnig þátt í Danish Open en það fer fram nú um helgina.
Íslenska BJJ senan fer ört vaxandi og fer iðkendum sem keppa erlendis fjölgandi. Nú um helgina fer Danish Open fram en þar munu 7 Íslendingar taka þátt frá þremur félögum. Frá Mjölni keppa þeir Ómar Yamak og Þráinn Kolbeinsson en Oddur Páll og Halldór Logi frá Fenri keppa einnig á mótinu. 3 keppendur frá VBC taka einnig þátt í ár en þetta eru þeir Ari Páll Samúelsson, Daði Steinn og Elías Kjartan Bjarnason.
Um næstu helgi er hins vegar Copenhagen Open og verða enn fleiri Íslendingar með á því móti, eða samtals 15 keppendur. Auk Þráins og Ómars keppa þau Inga Birna Ársælsdóttir, Brynjar Örn Ellertsson og Pétur Jónasson frá Mjölni. Frá VBC keppa þau Pétur Óskar Þorkelsson, Heiðdís Ósk Leifsdóttir, Ari Páll, Daði Steinn og Elías Kjartan. 5 keppendur frá Fenri taka þátt að auki en það eru þau Oddur Páll, Halldór Logi, Arnar Björnsson, Sylvia Aron Halldórsdóttir og Tómas Pálsson.
Copenhagen Open fer fram dagana 3. og 4. maí og er keppt í bæði gi (í galla) og nogi (án galla). Keppt er eftir IBJJF reglum en við hjá MMA Fréttum óskum Íslendingunum góðs gengis á mótunum tveimur.