spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent2016: Bardagamaður ársins

2016: Bardagamaður ársins

Árið 2016 hefur verið algjörlega frábært í MMA heiminum og koma margir til greina sem bardagamaður ársins. Valið hefur aldrei verið eins erfitt en hægt er að færa rök fyrir því að efstu fimm bardagamennirnir gætu allir hreppt hnossið.

Pennar MMA Frétta kusu um efstu fimm sætin en efstu fimm bardagamennirnir hefðu allir getað skipað fyrsta sætið.

max holloway
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

10. Max Holloway (2-0)

Bráðabirgðarmeistarinn í fjaðurvigt, Max Holloway, skipar 10. sæti listans. Holloway átti fínt ár þó hann hefði eflaust viljað berjast oftar. Eftir sigur á Ricardo Lamas reyndi Holloway ítrekað að fá bardaga gegn Jose Aldo án árangurs. Hann fékk svo bardaga gegn Anthony Pettis sem var síðar breytt í titilbardaga upp á bráðabirgðarbeltið. Holloway kláraði Pettis og varð um leið sá fyrsti til að klára Pettis á ferlinum. Hann mætir Aldo á næsta ári og ætti það að verða mjög spennandi viðureign.

9. Joanna Jedrzejczyk (2-0)

Pólska drottningin í strávigtinni varði titilinn tvisvar í ár – fyrst gegn Claudia Gadelha og svo gegn Karolinu Kowalkiewicz. Bardaginn gegn Gadelhu var afar góður og eftir vandræði í fyrstu lotum bardagans tókst Jedrzejczyk að snúa við blaðinu og var frammistaða hennar ein sú besta á bardagakvöldunum þremur í kringum UFC 200.

8. Demetrious Johnson (2-0)

Það er orðið háflgert grín hve mikla yfirburði Johnson hefur í fluguvigtinni. Hann fór létt með Henry Cejudo í apríl og eftir brösuga byrjun gegn Tim Elliot naut hann nokkurra yfirburða. Johnson hefur unnið þrjá efstu áskorendurna og er ekkert sem stefnir í að Johnson muni missa beltið á næstunni.

7. Gegard Mousasi (4-0)

Gegard Mousasi vann fjóra bardaga á þessu ári og kláraði þrjá af þeim. Allir sigrarnir voru mjög öruggir og þá hefndi hann fyrir sitt eina tap í fyrra þegar hann kláraði Uriah Hall í Belfast í nóvember. Mjög gott ár hjá Mousasi sem er kannski loksins að ná þeim hæðum sem menn vonuðust eftir.

6. Donald Cerrone (4-0)

Eftir að hafa tapað titilbardaganum sínum í léttvigt gegn þáverandi meistara, Rafael dos Anjos, ákvað Cerrone óvænt að fara upp í veltivigt. Í fyrstu var talið að hann myndi vera í skamma stund í veltivigtinni en Cerrone hefur litið ótrúlega vel út í þyngdarflokknum. Cerrone hefur klárað alla fjóra bardagana sína og þar á meðal eru harðhausar eins og Rick Story, Matt Brown og Patrick Cote. Rothöggið gegn Story var eitt það besta á síðasta ári og er Cerrone gjöf sem heldur endalaust áfram að gefa.

5. Michael Bisping (3-0)

Michael Bisping átti sennilega besta ár ferilsins í fyrra. Hann byrjaði á að sigra goðsögnina Anderson Silva í febrúar, tók svo titilinn af Luke Rockhold sem voru óvæntustu úrslit ársins og kláraði svo árið með því að verja titilinn gegn Dan Henderson. Það væri hægt að færa rök fyrir því að Bisping ætti skilið að skipa fyrsta sætið en það sem vinnur gegn honum er sú staðreynd að Dan Henderson fékk óverðskuldað titilbardaga og Anderson Silva er farinn að dala verulega. Engu að síður frábært ár hjá millivigtarmeistaranum og verður áhugavert að sjá hvort hann nái að verja beltið á þessu ári.

4. Stipe Miocic (3-0)

Þungavigtarmeistarinn Stipe Miocic átti frábært ár. Hann vann alla sína bardaga með rothöggi í 1. lotu og allt gegn sterkum andstæðingum. Hann byrjaði á að rota Andrei Arlovski eftir 54 sekúndur sem tryggði honum titilbardaga gegn Fabricio Werdum. Miocic mætti Werdum á heimavelli meistarans í Brasilíu en þaggaði niður í áhorfendum þegar hann rotaði Werdum. Hann kórónaði svo árið þegar hann varði titilinn sinn gegn Alistair Overeem á heimavelli í Cleveland. Frábært ár hjá þungavigtarmeistaranum en óvíst er hver næsti andstæðingur hans verður.

3. Amanda Nunes (3-0)

Bantamvigtarmeistari kvenna stimplaði sig heldur betur inn á þessu ári. Nunes vann þrjá bardaga á þessu ári og átti magnaðar frammistöður. Í mars sigraði hún Valentinu Shevchenko og óskaði eftir titilbardaga en frammistaðan þótti ekki sannfærandi. Hún fékk þó titilbardagann og kom öllum að óvörum og kláraði þáverandi meistara Mieshu Tate. Nunes fékk Rondu Rousey í sína fyrstu titilvörn og einfaldlega gekk frá henni um síðustu helgi. Nunes kláraði tvær goðsagnir í röð með gífurlegum yfirburðum og átti einfaldlega stórkostlegt ár.

2. Conor McGregor (2-1)

Sá eini á þessum lista sem tapaði í ár. Conor byrjaði árið á að tapa fyrir Nate Diaz eftir að sá síðarnefndi kom inn með tíu daga fyrirvara. Conor bar sig furðu vel eftir tapið, fagnaði því og heimtaði strax annan bardaga gegn Diaz. Hann fékk ósk sína uppfyllta og háðu þeir Conor og Diaz blóðugt fimm lotu stríð í besta bardaga ársins. Conor gerði svo það sem engum hafði tekist áður og varð tvöfaldur meistari með því að klára Eddie Alvarez léttilega í nóvember. Endurkoma hans eftir tapið gegn Diaz setur hlutina í annað samhengi. Tapið gegn Diaz var vandræðalegt og varð Conor fyrir miklu atlægi. Hann kom þó sterkur til baka og endurheimti manndóm sinn ef svo má segja. Sigurinn á Eddie Alvarez leit ekki út fyrir að vera mikið mál en það má ekki gleyma að þarna var léttvigtarmeistarinn á ferð. Conor fór kannski taplaus í gegnum síðasta ár en þetta ár var mikilvægara fyrir ferilinn. Þá má ekki gleyma því að hann var í aðalbardaga kvöldsins í öll skiptin og seldi UFC alltaf meira meira en 1,5 milljón Pay Per View fyrir hvert bardagakvöld.

1. Cody Garbrandt (4-0)

Bardagamaður ársins 2016 er Cody Garbrandt. Það var fátt sem benti til þess í upphafi árs að Cody Garbrandt yrði meistari í sínum flokki. Garbrandt vann Augusto Mendes, Thomas Almeida og Takeya Mizugaki alla með rothöggi í 1. lotu sem tryggði honum titilbardaga. Það þarf vart að rifja upp afrek hans um helgina þegar hann sigraði Dominick Cruz eftir fimm lotur. Sigurinn var í raun aldrei í hættu og var þetta ein allra besta frammistaða ársins. Þrír sigrar eftir rothögg og öruggur sigur á einum besta bardagamanni heims, pund fyrir pund, gera Cody Garbrandt að bardagamanni ársins 2016.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular