spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent2019: Bardagamaður ársins

2019: Bardagamaður ársins

Það er komið að því að gera upp árið 2019! Við byrjum á að skoða bardagamenn ársins og voru margir sem komu til greina.

5. Alexander Volkanovski

Síðustu 12 mánuðir í lífi Alexander Volkanovski hafa gjörsamlega verið geggjaðir. Hann vann Chad Mendes í lok desember 2018, vann Jose Aldo í maí 2019 í Brasilíu og svo Max Holloway nú í desember. Volkanovski er nýr fjaðurvigtarmeistari UFC og hefur hann unnið alla átta bardaga sína í UFC. Glæsileg sigurganga en nú er spurning hvort hann nái að halda sama dampi sem meistari.

Embed from Getty Images

4. Amanda Nunes

Besta bardagakona allra tíma gerði í raun allt sem hún átti að gera. Hún er eini tvöfaldi meistarinn sem er enn með bæði beltin og gæti hún haldið fjaðurvigtarbeltinu í áratug án þess að nokkur tæki eftir því. Hún er samt að verja bantamvigtarbeltið reglulega og gerði það vel á þessu ári. Rothöggið gegn Holly Holm í sumar var frábært og tók hún svo skyldusigur á Germaine de Randamie í desember. Líkt og hjá Volkanovski átti hún frábæran sigur í lok desember í fyrra (rothögg gegn Cyborg) og hafa síðustu 12 mánuðir hennar verið besta tímabil ferilsins.

Embed from Getty Images

3. Henry Cejudo

Hallærislegasti bardagamaður allra tíma gerði það gott í búrinu á þessu ári. Hann byrjaði á að verja fluguvigtartitil sinn með sigri á T.J. Dillashaw (sem féll á lyfjaprófi eftir bardagann) og fór svo upp í bantamvigt þar sem hann varð tvöfaldur meistari með sigri á Marlon Moraes. Cejudo var tvöfaldur meistari um skeið en ákvað að láta fluguvigtartitilinn af hendi á dögunum. Það er alltaf afrek að vinna belti í tveimur þyngdarflokkum og verða afrek hans í búrinu ekki tekin frá honum. Cejudo hefur líka farið nýjar leiðir til að vekja á sér athygli og skoraði meðal annars á Valentinu Shevchenko sem var sérstakt.

Embed from Getty Images

2. Jorge Masvidal

Jorge Masvidal fór frá því að vera góður en hálf gleymdur bardagamaður yfir í að vera ein stærsta stjarna UFC. Upprisa hans á árinu var með ólíkindum. Masvidal barðist ekkert árið 2018 og var lítið í umræðunni þegar hann mætti Darren Till í mars í London. Masvidal rotaði Till í London með einu af rothöggum ársins og kom sér svo heldur betur í fyrirsagnirnar með slagsmálum við Leon Edwards baksvsiðs. Í júlí rotaði hann svo Ben Askren með einu af rothöggum áratugarins og vann svo BMF titilinn með öruggum sigri á Nate Diaz. Frábært ár hjá Masvidal og gæti hann hæglega fengið titilbardaga á nýju ári.

Embed from Getty Images

1. Israel Adesanya

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að Israel Adesanya hefur bara verið í UFC í tæp tvö ár. Adesanya var nýliði ársins í fyrra og er í dag millivigtarmeistari og einfaldlega bardagamaður ársins! Adesanya vann alla fjóra bardaga sína árið 2018 en í ár byrjaði hann á að vinna Anderson Silva í aðalbardaga kvöldsins. Ótrúlegur bardagi gegn Kelvin Gastelum um bráðabirgðarbeltið sýndi hugarfar meistara og svo kórónaði hann gott ár með því að rota þáverandi meistara, Robert Whittaker. Ótrúlegt ár hjá Adesanya og verður fróðlegt að sjá hvað hann gerir árið 2020!

Aðrir sem komu til greina: Kamaru Usman, Valentina Shevchenko, Weili Zhang, Douglas Lima og Patricio ‘Pitbull’.

Árið var gert upp í áramótaþætti Tappvarpsins en hægt er að hlusta á þáttinn hér.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular