0

2020: Bestu uppgjafartök ársins

Það er komið að því að gera upp árið 2020 í MMA heiminum. Það voru nokkur hrikalega flott uppgjafartök í ár og við ætlum að skoða fimm bestu uppgjafartök ársins.

Farið var rækilega yfir árið í áramótaþætti Tappvarpsins sem kom út á dögunum.

5. Germaine de Randamie gegn Juliana Peña (UFC Fight Island 4, 4. október)

Germaine de Randamie kom inn í UFC ósigruð í sparkboxi og var bardagi hennar gegn Peña talinn vera klassískur „striker vs. grappler“ bardagi þar sem Peña var talinn mikið sterkari í gólfinu. Það kom því verulega á óvart þegar de Randamie svæfði Peña með „power guillotine“ hengingu. Hún notaði sér langar hendur sínar og kom annarri hendinni á sér alla leið utan um hálsinn á Peña og ýtti með hinni hendinni á eigin hendi til að auka þrýstinginn sem endaði með því að Peña sofnaði. Virkilega flott henging og fyrst sigur eftir uppgjafartak hjá de Randamie á ferlinum.

4. AJ McKee vs. Darrion Caldwell (Bellator 253, 19. nóvember)

AJ McKee hefur barist allan sinn feril í Bellator og gengið mjög vel. Hann hefur verið byggður hægt upp og kom inn í fjaðurvigtarmót Bellator taplaus með fjórtán sigra en þar af var einn á móti fyrrum fjaðurvigtarmeistara Bellator. Darrion Caldwell hefur einnig barist megnið af sínum ferli hjá Bellator og er fyrrum bantamvigtarmeistari. McKee lenti snemma undir í gólfinu en sótti strax af bakinu. Hann virtist vera að sækja í „guillotine“ hengingu en fór undir fjær hendina á Caldwell og greip lófum saman. Hann læsti síðan líkama Caldwell með fótunum í „body triangle“ og skipti handagripinu í „rear naked choke“ grip og setti þannig gríðarlegan þrýsting aftan á hálsinn á Caldwell sem neyddist til að tappa út. Mjög óvenjulegt en skemmtilegt uppgjafartak hjá McKee sem kom honum í úrslit fjaðurvigtarmóts Bellator.

Sjá má bardagann hér að neðan:

3. Aljamain Sterling vs. Cory Sandhagen (UFC 250, 6. júní)

Það var mikið á línunni í þessum bardaga. Sandhagen var ósigraður í UFC og Sterling á góðri sigurgöngu og sigurvegara þessa bardaga lofað titilbardaga. Það tók Sterling ekki nema eina og hálfa mínútu að klára bardagann sem var ekki mikil keppni. Sterling tók bakið á Sandhagen eftir 20 sekúndur og eyddi síðan mínútu í að koma inn hengingunni. Hann passaði að bæta fótastöðuna sína á meðan að Sandhagen var að einbeita sér að höndunum og gat hann því stjórnað Sandhagen betur sem leiddi að hengingunni. Gríðarlega flott frammistaða sem ætti að gera alla spennta fyrir því að sjá Sterling á móti Petr Yan.

2. Jack Hermansson vs. Kelvin Gastelum (UFC Fight Island 2, 19. júlí)

Eftir að hafa tapað síðustu tveimur bardögum sínum eftir dómaraúrskurð þar sem litlu mátti muna að hann vinni, var búist við að Gastelum kæmi inn eins og sært ljón og færi nokkuð létt með Hermansson. Hann var talinn betri standandi og betri glímumaður standandi og því gæti hann haldið bardaganum standandi og sigrað þar. Þegar Hermansson sótti í felluna stóðst Gastelum ekki mátið og svaraði með gullfallegu kasti og endaði ofan á. Þetta reyndust mistök og sótti Hermansson látlaust í fæturnar á Gastelum þar til hann náði „heel hook“, en sjá má hvernig hann setti það upp í leikgreiningu okkar á Jack Hermansson. Glæsilegur sigur sem skilaði Hermansson í fjórða sæti á styrkleikalista UFC.

1. Khabib Nurmagomedov vs. Justin Gaethje (UFC 254, 24. október)

Khabib minnti á af hverju hann er sá besti í léttvigtinni með stórkostlegu uppgjafartaki á áskoranda sem margir töldu vera hans erfiðasta til þessa. Hann tók Gaethje niður tvisvar og fór í bæði skiptin beint yfir í „mount“ og notfærði sér tilraunir Gaethje til að verja sig til að sækja uppgjafartök. Khabib er þekktur fyrir gríðarlega pressu úr toppstöðunni sem hann notar til að taka bakið á andstæðingnum og klára með hengingu en í þetta skiptið fórnaði Khabib toppstöðunni fyrir uppgjafartakið og endaði á því að svæfa Gaethje með „triangle“ hengingu. Frábær leið til að enda fullkominn feril hjá Khabib.

Sjá má bardagann í heild sinni hér að neðan:

Brynjólfur Ingvarsson
Latest posts by Brynjólfur Ingvarsson (see all)

Brynjólfur Ingvarsson

- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.